Af tvennum tímum Hólmfríðar Hjaltason

Tvennir-timarÍ jólabókaflóðinu árið 2017 leyndist fagurbleik bók. Mér áskotnaðist bókin enda var lýsingin á bókinni nokkuð spennandi: Endurminnigar Hólmfríðar Hjaltason, skráðar af Elínborgu Lárusdóttur.

Bókin kom fyrst út árið 1949 en var endurútgefin árið 2017. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og langömmubarn Hólmfríðar, skrifar formála að bókinni. Hólmfríður þessi fæddist 1870 og dó 1948 en ólst upp sem niðursetningur í Skagafirðinum en komst til hærri metorða þegar hún giftist lærðum manni og flutti með honum til Noregs og Danmerkur. Þetta kitlaði sagnfræðinginn í mér og ég ákvað að slá til og sökkva mér ofan í bókina.

Ég sökk samt ekkert langt, því fyrstu kaflar bókarinnar fóru í lýsingar á klæðaburði almúga þessa tíma og matarvenjur. Hugsanlega hefði ég sokkið dýpra í bókina hefði ég búist við svona seinagangi og í raun litlum söguþræði í bókinni, því lýsingarnar eru vissulega áhugaverðar. Þær eru ítarlegar og lýsa heimi sem flestum ef ekki öllum Íslendingum er algjörlega tapaður. Skemmtilegast þótti mér að lesa um fjallagrasagraut og fékk í raun löngun til að prófa að gera svoleiðis graut sjálf einhvern daginn. En af því ég var þessu ekki viðbúin sóttist mér bókin seint. Hún endaði á náttborðinu í dágóðan tíma, óhreyfð.

Á nýju ári ákvað ég að taka skurk í lestri og klára bókina. Það sem á eftir kom var meira af lýsingum og ritari og sögumaður hleypa manni skammt inn í tilfinningaheim sögupersónunnar. Þó fær maður að vita viðhorf Hólmfríðar til einhverra hluta, en aldrei meira en svo að sagt er “henni líkaði þar vel”, eða eitthvað álíka. Maður fylgist með Hólmfríði flakka á milli bæja í Skagafirðinum þar sem hún, sem niðursetningur, fær lítið sem ekkert atlæti. Hungur og ömurð einkenndu æsku hennar.

Það er ekki fyrr en hún kynnist manni sínum Guðmundi Hjaltasyni í Eyjafirðinum, sem hlutirnir snúast henni í hag. Mörgum þótti hann hafa tekið duglega niður fyrir sig með því að giftast Hólmfríði. Hann var kennari og þau kynntust þegar Hólmfríður var vinnukona á bænum sem hann kenndi á.

Hólmfríður naut ekki virðingar á Íslandi. Þau hjónin fluttu aftur á móti til Noregs vegna vinnu Guðmundar og þar var hún tekin í jafningja tölu.

Bókin snerti mig á einhvern hátt, þótt hún hafi ekki náð að fanga mig í byrjun. Kjör kvenna á þessum árum voru bág. Kjör fátækra voru hrikaleg. Vistabandið var sem þrældómur. Hólmfríður vann sem vinnukona áður en Bríet Bjarnhéðinsdóttir hóf sína byltingu. Laun hennar voru nokkrar krónur á ári ef hún fékk þá borgað í peningum. Oft voru launin fataleppar af húsfreyjunni, eða matur. Það var erfitt fyrir konur eignast nokkurn skapaðan hlut. Þeirra leið upp úr fátækt var að giftast. Karlar voru örlítið betur settir, þar sem þeir þénuðu meira en konur. En fátækur hélt áfram að vera fátækur.

Hólmfríður fæddist fyrir tæplega 150 árum. Það er gott að hugsa til þess hve langt kvennréttindabaráttan og jafnréttisbaráttan, og lífsviðurværi Íslendinga yfir höfuð, hafa komist á þessum tíma. Þó er enn langt í land að minnsta kosti hvað varðar jafnréttið.

Bókin stendur því alveg undir bakskriftinni á kápunni: “Einstök ævisaga íslenskrar alþýðukonu”. En hafa ber í huga að maður kynnist Hólmfríði sjálfri ekki náið í bókinni.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...