Með kúk á hausnum

moldvarpanBarnabókin sem hefur verið lesið hvað oftast á mínu heimili er án efa Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni eftir Werner Holzwarth með teikningum eftir Wolf Erlbruch í íslenskri þýðingu Þórarins Eldjárns.

Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni er ótrúlega skemmtileg á sinn einfalda hátt. Moldvarpa vaknar upp við þann vonda draum að einhver hefur skitið á hausinn á henni. Hún gengur því á milli dýra í nágrenninu og innir þau eftir sök. Dýrin neita því öll að hafa skitið á moldvörpuna og sýna henni hvernig kúk þau kúka. Sjálf hef ég notað bókina þegar þjálfa á bleyjubörn og kenna þeim á klósett. Þá ræðum við um kúk daginn inn og út. Hvers vegna ekki að lesa um kúk líka?

Myndirnar í bókinni er bráðfyndnar og skemmtilegar. Þá er hægt að lesa bókina með mjög leikrænum tilþrifum þar sem allur kúkur í bókinni gefur frá sér mismunandi hljóð. Þýðingin er til fyrirmyndar og orðavalið auðgar orðaforða ungra barna. Þannig að þótt bókin sé um kúk, þá er hún líka fræðandi og þroskandi að mínu mati.

Ég veit að bókin okkar um moldvörpuna, sem núna er orðin svo snjáð og vel lesin að hún tollir varla saman á kilinum, verður lesin oftar á mínu heimili.

Bókin kom fyrst út í Þýskalandi árið 1989 og hefur verið þýdd á tugum tungumála um allan heim. Ef það er eitthvað sem sameinar heiminn, þá er það brandari um kúk. Moldvarpan kom fyrst út á Íslandi árið 2000 en var endurútgefin árið 2010. Án efa verður hún gefin aftur út bráðlega.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...