Til Barselóna með Dan Brown

3 stjörnur s

uppruniDan Brown sendi frá sér nýja bók fyrir skemmstu, bókina Uppruni. Brown er hvað þekktastur fyrir að skrifa Da Vinci-lykilinn sem fór sigurför um heiminn þegar hún kom út árið 2003. Síðan Da Vinci-lykillinn  kom út hefur Brown skrifað tvær bækur til viðbótar um Robert Langdon, prófessor í táknfræði. Samtals hafa því komið út fimm bækur um herra Langdon, þar sem hann ræður hinar ýmsu gátur með hjálp táknfræðinnar. Áður en bækurnar um Langdon urðu vinsælar hafði Dan Brown skrifað tvær aðrar, þar sem Langdon er ekki aðalpersónan. Þær urðu ekki vinsælar. Ég hef samt lesið þær báðar og fannst þær alveg sæmilegir krimmar.

Afhjúpunin sem mistekst

Uppruni er ágætis bók. Robert Langdon mætir á blaðamannafund í Guggenheimsafninu í Bilbaó til að hlusta á kynningu Edmonds Kirsch, heimsþekkts tölvusénís og frumkvöðuls sem mér fannst vera einhverskonar blanda af Steve Jobs og Elon Musk. Umræðuefni kynningarinnar og blaðamannafundarins er vísindaleg uppgötvun sem á að skekja trúarlegan grundvöll kristinna manna en um leið svara áleitnustu spurningum mannkyns: Hvaðan komum við? Hvert förum við? Blaðamannafundurinn fer hins vegar út um þúfur áður en nokkur fær heyrt á uppgötvunina. Edmond Kirsch hafði áður kynnt trúarleiðtogum uppgötvun sína og þar með kallað yfir sig reiði voldugra afla. Robert Langdon dregst inn í háskalega baráttu sem berst til Barselóna og tengist bæði andlegum og veraldlegum yfirvöldum á Spáni.

Mikil rannsóknarvinna

Bækur Dan Brown hafa fengið mikla athygli fyrir að vera áhugaverðar að því leitinu til að þær flétta saman raunveruleika og ímyndun Brown. Að baki hverri bók býr gríðarleg rannsóknarvinna sem ég dáist að Brown fyrir að leggjast út í. Það gerir bækurnar hans enn betri fyrir vikið. Það er alveg hægt að gera sér í hugarlund að þarna úti séu öflugir kraftar og stofnanir sem gera allt til þess að reyna að halda alls konar leyndarmálum frá sauðsvörtum almúganum. Það er rosalega spennandi tilhugsun að vera sá sem kemst að þessum leyndarmálum og getur gefið fólki svör sem það hefur beðið eftir. Með prófessor Robert Langdon fær maður tækifæri til þess að gera það, og það er hrikalega spennandi og skemmtilegt. Ég gleymi því ekki hve heilluð ég var þegar ég las Da Vinc -lykilinn fyrst. Mér fannst einhver algjörlega nýr heimur hafa opnast og fannst eins og það sem væri í bókinni væri heilagur sannleikur (já, ég var ekki mjög gömul þá og hreifst með öllu). Þess vegna varð ég sármóðguð þegar eldri frænka mín fussaði yfir lesefni mínu og sagði það vera óbreyttan krimma (ég held hún hafi ekki haft mikið álit á krimmum).

Doðrantur af endurtekningum

Plottið í bókinni er vel uppbyggt og spennandi, enda bjóst ég ekki við öðru frá Dan Brown. Að sama skapi bjóst ég líka við nokkrum klisjum, sem brugðust ekki heldur. Hugsanlega er ég orðin of vön hinum gölluðu aðalpersónum í hinum norrænu noir krimmum. Mér finnst stundum herra Langdon vera einum of fullkominn, koma of fljótt með réttu svörin og viðbrögð hans eru stundum svo formúlukennd og hann þar fyrir utan hefur aldrei rangt fyrir sér. Í íslenskri útgáfu er bókin yfir fimm hundruð blaðsíður. Ég komst ekki hjá því að hugsa á tímabili að ef til vill hefði verið hægt að stytta bókina töluvert, þar sem mér fannst allt of mikið um endurtekningar í bókinni. Ég leyfi mér líka að setja spurningamerki við tímalínu bókarinnar, sem mér fannst heldur stutt og hlutirnir gerðust allt of hratt.

Sagrada_Familia_haschelsax_02Skapar áhuga á nýjum stöðum

Dan Brown lætur sögusvið bókarinnar vera Barselóna. Sjálf hef ég aldrei farið til Barselóna en ég fékk knýjandi þörf og löngun til að fara þangað og sjá til dæmis Sagrada Familía kirkjuna með eigin augum. Rétt eins og eftir að ég las Da Vinci-lykilinn hafði ég óbilandi löngun til að ferðast til Rómar og Parísar. Hann lýsir staðarháttum á svo spennandi hátt, eins og nýir leyndardómar leynist á bak við hvern stein og það eina sem þú þarft að gera er að horfa nógu fast og leyndarmál lífsins og heimsins munu opinberast þér. Ég er alveg viss um að ég eigi eftir að fara til Rómar, Parísar og Barselóna einn daginn, með bækur Dan Brown ferskar í huganum, ef ekki bara í ferðatöskunni, og feta í fótspor prófessor Langdons.

Uppruni er fínasti krimmi fyrir og ágætis truflun frá því veðravíti sem tryllir landið núna. Fyrir þá sem vilja lesa skemmtilega, spennandi, auðlesna og fræðandi bók sem vekur upp áleitnar spurningar þá er þetta rétta bókin.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...