Endurtekin líf Harry August

Harry August fæðist, lifir lífi sínu og deyr, rétt eins og við öll. Hann er þó nokkuð frábrugðinn venjulegu fólki því hann fæðist aftur og aftur, á sama stað, á sama tíma af sömu foreldrum með fullkomið minni af fyrra lífi sínu. Harry August er Ourobouran og einstakur meira að segja í þeim hópi, af því hann hefur fullkomið minni af fyrri lífum. Hann lifir sama lífi aftur og aftur á sama tíma. Fæðist aftur og aftur með fullkomnar minningar af fyrri lífum sínum. Lífsskeið hans spannar árin frá því fyrir seinni heimsstyrjöld og fram að lokum tuttugustu aldarinnar. Ár mikilla breytinga. Þessi endurteknu líf og góða minni gefur honum stórkostlegt tækifæri til að stjórna lífi sínu á einstakan hátt, þótt að fyrstu lífin geri hann sér kannski ekki grein fyrir tækifærunum sem felast í ástandi hans, heldur fyllist hann örvæntingu yfir ástandi sínu.

Eins og það sé ekki nógu spennandi flétta að hafa mann sem getur ráðskast með líf sitt og tímann á vissann hátt þá hefur Claire North, höfundur bókarinnar, bætt enn áhugaverðari vinkli í bókina. Á einu dauðadægri sínu hittir hann unga stúlku sem tilkynnir honum að heimurinn sé að enda og endalokin færist sífellt nær. Hann þarf að hafa samband við Kronus klúbbinn til að freista þess að laga tímalínu framtíðarinnar. Það kemur í ljós að Harry er ekki eini Ourobouran-inn í heiminum. Þau eru hópur fólks sem Harry á í miklum samskiptum við seinna meir. Það kemur sér vel því hann hefur nær öll líf sínn átt í mjög erfiðu sambandi við blóðfjölskyldu sína sem gerir sér engan veginn grein fyrir að þau eru að ala upp fullorðinn mann í barnslíkama. Í gegnum minnngar og líf hinna Ourobouran-ana getur Harry komist yfir vitneskju um framtíðina því lífsskeið þeirra snertast á ýmsum stöðum.

Claire North hefur óneitanlega stórkostlega stjórn lesandanum. Þegar bókin rataði í hendur mínar, í gegnum góða vinkonu, vissi ég ekki hvað ég var að fara að lesa. Strax frá fyrst blaðsíðu var ég svo sokkinn í heim Harrys. Tilhugsunin um að lifa aftur og aftur sama lífinu, á sama tíma, upplifa sömu hindranir er svo óþægileg en jafnframt svo spennandi. Maður sér tækifærin en maður sér líka endalausa galla. Bókin vekur upp spurningar um það hvort eilíft líf sé eftirsóknarvert. En bókin snýst líka um tímaflakk, án þess þó að nokkurn tímann komi tímavélar við sögu eða að lesandi komist fram yfir tuttugustu öldina, sem er lífstími Harrys. Það er magnað að sjá hvernig sjónarsvið og tímaskynjunin víkkar hjá lesandanum um leið og Harry kemst að einhverju nýju um fortíð og framtíð.  Stíll North er auðveldur og skemmtilegur og síðast en ekki síst er hún leikin með orð. Claire North er höfundarnafn Cathrine Webb en undir nafni North skrifar hún dáleiðandi vísindaskáldsögur eins og The first fifteen lives of Harry August. Hún er líka þekkt undir nafninu Kate Griffin en undir hverju höfundarnafni skrifar hún mismunandi bækur.

The first fifteen lives of Harry August er hiklaust ein af bestu vísindaskáldsögum sem ég hef lesið. Ég hef ekki enn fundið hana í “venjulegri” bókabúð hérlendis. Hins vegar hefur Nexus í Reykjavík eitt besta úrval af vísindaskáldsögum sem ég hef kynnst hérlendis. Og ekki er verra að starfsfólkið í búðinni veit nákvæmlega hvað það er að tala um. Þjónustan er líka í toppmálum og það er ekkert mál að panta bókina ef hún er ekki til á lager. Ég mæli með að annað vísindaskáldsögu áhugafólk kíki í Nexus og næli sér í það sem bókasalinn þeirra mælir með, því þótt Harry hafi ratað í mínar hendur í gegnum vinkonu þá rataði Harry í hennar hendur í gegnum Nexus. Ég furða mig líka oft á því eftir lestur bóka eins og Harry, sem er vel skrifuð, fráránlega áhugaverð og spennandi, af hverju er ekki búið að þýða hana á íslensku? Er áhugafólk um vísindaskáldsögur á Íslandi ekki nægilega frekt til að vilja lesa bækurnar á íslensku? Eða er það bara búið að gefast upp á að bíða eftir íslenskum þýðingum á góðum bókum? Eða erum við of fá?

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...