Dystópía án óreiðu

Flestar dystópíu-sögur og heimsendabækur byrja á róleguheitum og enda í óreiðu. Greiningu mína byggi ég á að sjálfsögðu á heimsenda Hollywood-myndum. Ágætis skemmtun inn á milli. Það er eitthvað svo spennandi að fylgjast með manneskjum berjast við dauðann, reyna á þolmörkin og bjarga heiminum. Ég hef ekki lesið margar bækur um sama efni, þótt mín sakbitna sæla sé þessar klisjukenndu hamfaramyndir með allt of fallegu fólki í aðalhlutverkum.

Í leiðangri í Nexus fann ég bókina Station eleven, eftit Emily St. John Mandel. Bókin er gefin út árið 2014 og hlaut hin virtu Arthur C. Clarke vísindaskáldsöguverðlaun sem bók ársins það árið. Illvíg veira drepur nær allt mannkynið og aðeins 1% lifir af. Ég hélt að mín biði spennandi lestur um fólk á ystu nöf, örvæntingarfullt, að berjast fyrir lífi sínu. Mandel sleppir hins vegar alveg þeim kafla í heimsendasögu sinni. Fyrstu árin eftir fall siðmenningar og fall mannkynsins eru eiginlega ekkert rædd í bókinni. Lesandi fær af og til glefsur af byrjun veirunnar en lítið meira en það. Þannig fáum við að fylgjast með því þegar fyrsta fólkið deyr í veiruútbrotinu og síðan er hoppað tuttugu ár fram í tímann. Sögupersónurnar eru nokkrar og eiga það sameiginlegt að tengjast Arthur Leander, öldruðum Hollywood leikara sem lætur lífið af hjartaáfalli á sviði í miðri sýningu á Lé konungi í byrjun bókarinnar. Sjálfri fannst mér áhugaverðast að fylgjast með Miröndu, fyrrum eiginkonu Arthurs, sem er í Malasíu þegar veiran brýst út. Mandel náði að koma hugsunum manneskju sem er að deyja ótrúlega vel til skila að mínu mati.

Aðal sögusviðið er hjá The Traveling Symphony, hóp af fólki sem leggur sig fram við að viðhalda menningu og listum í föllnum heimi. Þau flakka á milli staða og flytja verk Shakespeare fyrir þá sem eftir eru. Líf þeirr er eins hversdagslegt og hægt er miðað við aðstæður. Þau leita að vatni og niðursuðudósum í yfirgefnum húsum og láta sér leiðast á milli æfinga og flutninga á leikritum og rífast sín á milli um túlkun og flutning á mismunandi verkum. Þótt bókin sé róleg og uppfull af draumkenndum lýsingum þá má sjá í gegnum textann að það er allt annað en auðvelt að lifa í heimi fallinnar siðmenningar. Baráttan er hörð og hætturnar margar. Hins vegar eru viðbrögð persónanna frábrugðin því sem maður á að venjast. Sögupersónunarnar eru vanar þessum heimi, þær vita hvernig á að haga sér, þekkja hætturnar og viðbrögð þeirra eru í samræmi við það. Þar liggur snilldin í bókinni, fyrir lesandann verður þeirra heimur venjulegur þótt hann sé allt öðruvísi en okkar eigin.

Það var afslappandi að lesa Station eleven. Heimsendir virðist ekki vera svo slæmur eftir allt saman. Það er til fólk sem gerir sitt besta til að viðhalda siðmenningu og röð og reglu. Fólk er ekki al-vont og illt og missir ekki mennskuna. Flestir eru í raun venjulegir og gallaðir, en góðir og vilja náunga sínum vel. Maður fylltist von af að lesa bókina. Ég varð samt fyrir smá vonbrigðum af því ég bjóst við hasarlesningu, en fékk í staðinn rólega bók uppfulla af einkennilegu andrúmslofti og erfiðum tengingum. En mínar væntingar ættu ekki að hafa áhrif á það að bókin er fáránlega vel skrifuð og frumleg. Fyrst og fremst fær bókin mann til að velta fyrir sér mennskunni og hverju maður myndi vilja bjarga ef allt færi til fjandans. Hvað er þess virði að halda uppá?

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...