Allt um það sem móðir mín las í fæðingarorlofinu

Fyrsta (og þar til nú eina) færslan sem ég setti inn á þetta bókablogg fjallaði um Orlandó, síðustu bókina sem ég náði að klára áður en ég fæddi barn. Nú er það barn orðið hálfs árs, en sex mánuðir er einmitt hámarkslengd hins opinbera fæðingarorlofs sem í boði er fyrir móður á Íslandi. Á þessu hálfa ári hef ég sumsé eingöngu náð að skrifa eitt bókablogg, sem er nú kannski í það minnsta, en mér tókst að lesa þónokkuð af bókum. Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvernig það myndi ganga að sameina bóklestur og ábyrgð á barni. Frá barnæsku hef ég verið vön að hunsa allskonar hluti sem er skynsamlegt og nauðsynlegt að gera, eins og að sofa og borða, til að geta lesið meira. Ég óttaðist þess vegna að lestrarvenjur mínar gætu haft áhrif á hæfni mína til að annast viðkvæman hvítvoðung.

Þetta reyndust hinar óþörfustu áhyggjur, ungbörn hafa sem betur fer á sínu valdi mjög skilvirkar aðferðir sem koma í veg fyrir að lesandi mæður hunsi þarfir þeirra. Lestur (og sjónvarpsgláp) er hreinlega nauðsyn í þessu ferli, en lykillinn að árangursríkri brjóstagjöf er að mínu mati sá a geta verið kyrr endalaust. Svo hér kemur listi yfir þær bækur sem ég kláraði á sex mánuðum, í nokkurn veginn réttri röð. Ég hyggst blogga um lestrarupplifun mína af þeim flestum (sumar eiga augljóslega lítið erindi í bókablogg) og hver veit nema listinn hjálpi öðrum í svipuðum aðstæðum að velja sér bók við hæfi, nú eða verði nýbökuðum mæðrum víti til varnaðar. Það gefur manni nefnilega mjög sérstakt sjónarhorn á bækur að lesa þær yfir höfuðið á agnarsmáu og saklausu barni.

Hvunndagshetjan, eftir Auði Haralds.

Saga þernunnar, eftir Margaret Atwood.

Smásögur heimsins, S-Ameríka (smásögur eru af einhverjum ástæðum oftast þunglyndislegar og ég gafst upp eftir nokkrar sögur. Það eru takmörk fyrir því hvað svefnvana móðir í febrúar getur þolað mikið af tilvistarangist)

Sju sorters kakor. Sveriges mest köpta bok (Ég las þessa bók í heild sinni og spjaldanna á milli. Maður verður ansi svangur við brjóstagjöf auk þess sem tilhugsunin um að geta einhvern tíma aftur gert eitthvað jafn tímafrekt og að baka köku heillaði mig)

Hausthefti Sögu 2017 (á meðan ég beið eftir því að Amazon færði mér næsta lið á þessum lista)

Bækur 1-10 í glæpaseríunni um Erast Fandorin

Glingurfugl, eftir Elínu Eddu (teiknimyndasaga)

Draumaland, eftir Örnu Skúladóttur. (Og já, þetta er ekki spennandi skáldsaga heldur handbók um svefnvenjur ungbarna)

Don’t be a Tourist in Paris, eftir Vanessu Grall. (Ferðahandbók og sálrænt úrræði fyrir Reykvíking sem fór ekkert sumarið ógurlega 2018)

The Book of Dust. La Belle Sauvage, eftir Philip Pullman.

Hér má sjá heildarafrakstur fæðingarorlofsins. Glöggir lesendur taka eftir því að myndin er sviðsett, því ég fann ekki rétta eintakið af Sögu. Staflinn er 43 cm á hæð en til samanburðar má nefna að barnið óx um 19,5 cm á þeim tíma sem hann var lesinn.

Tíu atriða listi, nítján bækur og einlægt loforð um að fjalla um að minnsta kosti fimm af þeim. Barnið mitt er vaknað, en næst verður það Hvunndagshetjan!

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...