Slímast í eldhúsinu

Fyrir nokkrum vikum gaf Katrín Lilja Sigurðardóttir, eða Sprengju-Kata, út Slímbók Sprengju-Kötu. Ég þekki Sprengju-Kötu helst í tengslum við Ævar vísindamann, þar sem hún kemur með skemmtileg og fræðandi innslög í þættina hans eða á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Mér fannst því skemmtilegt að sjá Sprengju-Kötu færa út kvíarnar og gefa út sína eigin bók. Katrín er efnafræðingur og þess vegna er tilvalið fyrir hana að gefa út bók sem felur í sér að blanda saman efnum og búa til eitthvað skemmtilegt og ég efast ekki um að hún eigi eftir að gefa út fleiri bækur með fleiri skemmtilegum efnafræðitilraunum fyrir börn.

Síðustu vikur hefur því verið nær ómögulegt að fara í bókabúð án þess að suðað væri um að kaupa bókina. Að lokum lét ég undan, eiginlega bara af því að ég var orðin sjúklega spennt að prófa slímgerð sjálf. Bókin er stórskemmtileg og einföld. Í byrjun eru taldar upp reglur fyrir slímgerð, þar sem meðal annars er áréttað hve mikilvægt það sé að þrífa eftir sig að slímgerð lokinni. Eitthvað sem hefur farið fyrir ofan garð og neðan þegar við lásum reglurnar, því eldhúsið er eins og eftir sprengju. En við skemmtum okkur ágætlega á meðan við slímuðumst.

Uppskriftirnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar. Bókin býður ekki bara upp á slímgerð heldur er líka hægt að finna í henni uppskriftir að trölladeigi og kristöllum. Sjálf er ég mjög spennt að prófa kristallagerðina. Fyrsta uppskriftin sem við prófuðum að gera (seint í gærkvöldi, því það var ekki hægt að bíða til morguns) var mjölslím. Það er tiltölulega auðvelt að búa til mjölslím, eingöngu þarf að blanda saman kartöflu- eða maísmjöli og vatni sem hentaði okkur vel því við áttum ekkert af hinum innihaldsefnunum. “Þetta er mjög einfalt slím,” sagði sonurinn sem er nýbúinn að læra að lesa og las alla uppskriftina sjálfur. Bókin hvetur því til lesturs sem hlýtur að teljast mjög jákvætt. Það er áskorun fyrir börn að ná upplýsingunum út úr uppskriftunum, sérstaklega þau sem eru nýbúin að læra að lesa.

Ef ég ætti að gagnrýna bókina á einhvern hátt, þá hefði mátt hafa innkaupalista fremst í bókinni og jafnvel leiðbeiningar um hvar auðveldast sé að nálgast efniviðinn, þótt sumt sé auðvitað til á flestum heimilum. Það hefði samt mátt hafa einhvers konar tékklista, því það þarf að kaupa ansi margt áður en hægt er að fara að slímast.

Nauðsynlegt er að hafa:

  • PVA-lím (föndurlím?)
  • Linsuvökva eða bórax (ég veit ekki hvar bórax fæst)
  • Matarsóda
  • Froðusápu eða rakfroðu

Til þess að hressa upp á slímið er svo hægt að bæta við:

  • Glimmeri
  • Frauðkúlum
  • Töfrasandi
  • Matarlit

Við gerðum þó bara einfaldan innkaupalista, þar sem eldri sonurinn lúslas hverja uppskrift og skrifaði niður það sem við áttum ekki. Það fékk hann til að lesa! Ef slímbókin er keypt sem gjöf fyrir tilvonandi slímgerðarmann þá mæli ég með því að láta PVA-lím, rakfroðu og glimmer eða eitthvað þvíumlíkt fylgja með svo hægt sé að slímast strax.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...