Skyggnst í fortíð og einkalíf í bréfum

Það eru ótrúlegustu hlutir sem byrja sem blogg. Blogg þarf ekki endilega að vera eitthvað innihaldslaust kjaftæði, og ég þori að alhæfa að flest blogg eru það alls ekki. Að minnsta kosti þau sem ná einhverri dreifingu. Síðastliðið sumar rataði í mínar hendur doðrantur einn sem einmitt byrjaði sem blogg.

Letters of Note: Correspondence Deserving of a Wider Audience byrjaði sem bloggsíða. Bókin sem ég fékk í hendurnar var gefin út árið 2013 og er samansafn bréfa, skeyta og skilaboða sem Shaun Usher safnaði saman á vefsíðunni sinni lettersofnote.com. Síðan var stofnuð árið 2009 og fjórum árum síðar kom fyrsta bókin út; Letters of Note. Síðan þá hafa tvær aðrar bækur komið út, byggðar á sömu hugmynd; Lists of Note: Inventories Deserving of a Wider Audience (2014) og More Letters of Note (2015). Því miður virðist sem vefsíðan hafi lagt upp laupana um mitt síðasta ár, en það breytir því ekki að það er enn hægt að lesa bréfin sem eru komin þar inn. En ég mæli hiklaust með því að áhugasamir komi höndum yfir eintak af bókunum, enda mjög eigulegar bækur.

En hvað er eiginlega svona merkilegt við þessa bók mætti spyrja sig? Þegar ég fékk hana í hendurnar fannst mér ég hafa fengið gullmola í hendurnar og þegar ég fyrst gluggaði í hana átti ég erfitt með að slíta mig frá henni. Bréfin eru fráránlega áhugaverð og skemmtileg. Þarna er hægt að finna síðasta bréf Mary Stewart (Bloody-Mary) til Henry III, Frakklandskonungs, daginn áður en hún var hálshöggvin; uppskrift að skonsum frá Elísabetu Bretadrottingu til Eisenhover, þáverandi forseta Bandaríkjanna; bréf frá Nick Cave þar sem hann afþakkar verðlaun frá MTv; þakkarbréf frá Roald Dahl til ungs lesanda og svo margt, margt fleira.

Þótt flest bréfanna séu frá enskumælandi löndum, þá eru einhver þeirra annars staðar frá. Til dæmis er eitt kveðjubréf frá eiginkonu japansks stríðsmanns, en hún veit að hann er að ganga í dauða sinn í stríði gegn Kínverjum. Bréfin eru mistilfinningaþrungin, inn á milli má finna sjálfsmorðsbréf eins og til dæmis kveðjubréf Virginiu Woolf til eiginmans síns áður en hún framdi sjálfsmorð. Það tekur svolítið á að skyggnast svo náið inn í líf bréfritara. Önnur bréf eru ögn léttari, sum formleg, og einhver alveg sprenghlægileg. Bréfin eru sumhver margraalda gömul, önnur nýrri. En þetta safn nær að halda lesandanum algjörlega hugföngnum, gefið að viðkomandi hafi áhuga á sögu, bréfritun og fólki.

Það sem að situr í mér eftir lesturinn er hversu ótrúlega fallega er hægt að skrifa bréf til einhvers. Auðvitað eru sum bréfin rituð af frægustu rithöfundum okkar tíma og því varla hægt að keppa við þá. Mér fannst ótrúlega gaman að lesa bréf frá Hunter S. Thompson til félaga hans, þar sem hann er að leggja honum lífreglurnar, eða kannski frekar ráðleggja um heilt í stefnu lífsins og tilgangi lífsins. Þungt efni, en skrifað á svo hnyttin og skemmtilegan hátt.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig svona bók myndi líta út á íslensku. Myndum við vera að lesa bréf frá Ásgeiri Ásgeirssyni til eiginkonu sinnar, ástarjátningar eða eitthvað svoleiðis? Kannski innkaupalista frá námsárum Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn? Kveðjubréf frá Agnesi, áður en hún var hálshöggvin? Það er vert að velta því fyrir sér, en líklega er nú þegar búið að gefa út flest af þessum bréfum. Hvort sem það er í heildarriti eða að hluta. Nema kannski ástarbréf Ásgeirs, held að ég hafi aldrei séð þau í bók.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...