Sigrún Eldjárn gaf út nýja bók í vikunni, SilfurlykillinnÞað eru svo sem engin nýmæli að Sigrún gefi út bók, því eftir hana liggja óteljandi bækur, stuttar, langar, feitar og mjóar. Silfurlykillinn er, ef ég ætti að lýsa henni, lítil og hnellinn bók og svolítið feit. Hún er að sjálfsögðu ríkulega myndskreytt af Sigrúnu sjálfri eins og allar hennar bækur. Ef það er eitthvað sem ég elska við myndskreytingarnar hennar þá eru það strigaskórnir. Í hverri einustu myndskreyttu bók eftir Sigrúnu eru persónurnar í strigaskóm, meira að segja gamlar ömmur í upphlut.

Sagan segir af Sóldísi, Sumarliða og pabba þeirra í einhvers konar dystópíu-heimi, þar sem mannkynið hefur eyðilagt jörðina og hver og einn þarf að berjast fyrir lífi sínu. Sigrún segir þessa sögu á einfaldan og sakleysislegan hátt, svona eins og hennar er lagið. Það er lítið farið í baksöguna við hörmungunum sem dundu yfir, en samt fær lesandi glefsur úr fortíðinni í gegnum sögur sem pabbinn segir. Svo virðist sem aðeins tvær kynslóðir séu liðnar síðan allt fór til fjandans. Eins og í öðrum bókum Sigrúnar eru börnin aðalsöguhetjurnar. Í Silfurlyklinum er Sóldís aðalsöguhetjan. Sóldís og Karítas, dularfull stúlka sem blandast fljótlega inní söguna og hefur einhvern dulinn tilgang sem lesandi finnur svo út í lokin.

Textinn í bókinni er mjög auðlesinn, í henni er stórt letur sem hentar lesendum sem eru að byrja að lesa. Þó ekki allra yngstu lestrarhestunum. Það er skemmtilegt að sjá að Sigrún segir söguna frá sjónarhóli nokkurra persóna til skiptis. Þannig fær lesandi að fylgjast með Sóldísi, Sumarliða og pabba þeirra og svo Karítas. Þegar lesandi fylgir Sóldísi og hennar fjölskyldu er textinn svartur, en þegar við fylgjumst með Karítas er textinn blár.

Bókin er heldur róleg framan af, en heldur lesandanum ágætlega við efnið og fyrir vikið er hann verðlaunaður með hörkuspennandi lokaköflum. Þótt það sé sagt að aldrei eigi að dæma bók af kápunni, þá verð ég að segja að kápa Silfurlykilsins er fagurlega hönnuð og gefur loforð um spennandi leyndardóma og stendur við það.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...