Barnabókmenntahátíðin Mýrin

Eins undarlegt og það kann að virðast þá hef ég aldrei farið á bókmenntahátíð. Ég hef hingað til sætt mig við að lesa bækurnar, en ekki tekiið þátt í samfélaginu sem umlykur þær. Á því varð breyting um helgina, þótt ég hafi aðeins getað kíkt á Barnabókahátíðina Mýrina einn eftirmiðdag. Ég hefði gjarnan viljað kíkja á alla dagskrána eins og hún lagði sig en stundum er bara of mikið að gera á öðrum sviðum lífsins.

Upp á síðkastið hafa barna- og unglingabækur átt hug minn og hjarta. Hægt og rólega hef ég gert mér grein fyrir því hve mikilvægar þessar bækur eru. Þetta eru bækurnar sem geta kveikt lestraráhuga strax í æsku. Lestraráhuga sem vonandi heldur áfram að vaxa og dafna fram eftir allir ævinni. Um helgina var Barnabókahátíðin Mýrin í Norræna húsinu. Þar sem ég á nokkra unga menn sem ég vil gjarnan að uppgötvi fyrr en seinna töfra bóka ákváð ég að við skyldum kíkja á hátíðina og sýninguna Barnabókflóðið sem var opnuð í Norræna húsinu samfara Barnabókahátíðinni.

Þrátt fyrir að farið hafi verið af stað með trega og grófum yfirlýsingum um að þessi ferð yrði hundleiðinleg, þá má með sanni segja að Norræna húsið hafi slegið rækilega í gegn. Við áttum góða stund með Sævari Helga Bragasyni og strákarnir bjuggu til stjörnumerki, sem var hluti af vinnustofu á hátíðinni. Barnabókaflóðið var stórskemmtileg gagnvirk sýning sem allir gátu tekið þátt í og það besta er að henni lýkur ekki fyrr en í lok apríl á næsta ári svo það er nægur tími til að kíkja á hana. Upp um alla veggi eru textar úr barnabókum og skemmtilegar teikningar, það eru stöðvar þar sem börnin geta leyst þrautir eða föndrað, allt er yfirflæðandi í bókum en það var nægt pláss til að athafna sig og það sem skiptir kannski öllu máli er hve allt var barnvænt og þægilegt.

Þegar sýningin var fullkönnuð, sem tók nokkurn tíma því það var endalaust hægt að finna eitthvað nýtt, þá kíktum við á barnabókasafnið í Norræna húsinu. Ef lesendur hafa ekki farið í Norræna húsið áður þá mæli ég hiklaust með því. Sérstaklega ef lesendur eiga börn. Barnabókasafnið í kjallara Norræna hússins er gimsteinn. Þar er nóg af sætum fyrir þreytta foreldra, fullt af bókum á alls konar tungumálum fyrir forvitin börn, leikföng, nægt pláss, koddahellir, koja og ég gæti endalaust haldið áfram að telja upp. Þegar maður er foreldri þá langar mann stundum bara að geta sest niður og slappað af í smástund á öruggum stað þar sem börnin geta skemmt sér. Barnabókasafn Norræna hússins er þannig staður, enda eyddum við sennilega meiri tíma þar en þykir venjulegt.

Þótt að flestir viðburðir hátíðarinnar hafi runnið framhjá mér sökum anna, þá náðum við í skottið á henni. Á leiðinni heim var ég spurð hvernig mér hefði þótt ferðin af einum unganum, sem bætti því snöggur við að honum hefði sko þótt rosalega gaman. Ég var sammála.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...