Lesefni fyrir unglinga í 8.-10. bekk – Listi

Eins og með fyrri lista Lestrarklefans þá er þessi listi alls ekki byggður á vísindalegum athugunum. Hins vegar var skólabókasafnsfræðingur fenginn sem álitsgjafi og kunnum við viðkomandi miklar þakkir fyrir.

Flóra bóka fyrir þennan aldur er ótrúlega ríkuleg, bæði af íslenskum bókum og bókum á öðrum tungumálum. Sjálf las ég mest á ensku á þessum aldri, einfaldleg vegna þess að ég nennti ekki að bíða eftir því að bækurnar sem ég elskaði væru þýddar. Bækur sem hafa verið aðlagaðar að bíómyndum eða sjónvarpi eru algengar á listanum hér á eftir. Þannig geta krakkarnir lesið bækurnar og horft á bíómyndina, eða öfugt. 

Þessar bækur eru vinsælastar en inn á listann slæðast líka aðrar, sem alltaf verða vinsælar.

Allt eða ekkert eftir Nicola Yoon

172 tímar á tunglinu eftir Johan Harstad

Leitin að tilgangi unglingsins eftir Bryndísi Björvinsdóttur, Óla Gunnar Gunnarsson og Arnór Björnsson

Þrettán ástæður eftir Jay Asher

Hungurleika þríleikurinn eftir Suzanne Collins

Afbrigði, Andóf og Arfleifð eftir Veronicu Roth

Harry Potter eftir J.K. Rowling

Gyllti áttavitinn, Lúmski hnífurinn  og Skugga sjónaukinn eftir Philip Pullman

Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien

Eragon eftir Christopher Paolini

Rökkurhæðir eftir Birgittu Elínu Hassel og Mörtu Hlín Magnadóttur

Bækurnar um Nicholas Flamel eftir Michael Scott

Á hjara veraldar eftir Geraldine McCaughrean

Dodda bækurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Hildi Knútsdóttur

Þegar komið er á unglingastig í grunnskólum detta strákar úr lestrinum. Kannski er of djúpt í árina tekið að segja detta út, en þeir minnka lesturinn mjög og skipast í fylkingar. Þeir sem lesa mjög mikið, þeir sem sulla í léttmetinu og svo þeir sem lesa aðeins ef þeir eru neyddir til þess. Strákar sem veigra sér við að lesa, horfa mikið á blaðsíðutalið og velja frekar bækur eftir því hve þunnar þær eru, frekar en eftir efni bókarinnar. Ég vona innilega að nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur verði til þess að strákar sem eru á leið á unglingastig næstu árin sjái að bækur eru alls ekki leiðinlegt dæmi. Sama vandmáls virðist ekki gæta hjá stelpum, sem lesa nokkuð jafnt áfram á unglingastig. En eins og áður segir, þá er þetta ekki byggt á neinum rannsóknum, aðeins tilfinningu nokkurra manneskja sem hafa áhuga á bókum og lestri.

Ég er ekkert mikið fyrir að kyngreina bækur, en strákar og stelpur eru bara ekki eins og sækja ekki í sama lesefni.

 

Mín tilfinning er sú að á síðustu árum hafi verið kippur í því sem gæti flokkast sem “strákabækur”. Ég er ekkert mikið fyrir það að kyngreina bækur neitt sérstaklega, en strákar og stelpur eru bara ekki eins og sækja ekki í sama lesefni. Fótboltabækur Gunnars Helgasonar búa yfir þeim krafti að geta mögulega blásið einhverjum drengjum lestraráhuga í brjóst. Ævar Þór Benediktsson skrifar æsispennandi, fyndnar bækur í öðru formi en venjulegt er (Þín eigin bókaflokkurinn). Sögurnar af Dodda eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur gætu heillað einhvern.

Samkvæmt svörum bókasafnsfræðings hafa strákar sem lesa þó oftast áhuga á einhverju krassandi, eins og furðusögum (mér finnst alltaf skrýtið hvað þær eru litnar hornauga af mörgum). Þess vegna er Þriggja heima saga  eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson og aðrar furðusögur eflaust kærkomin viðbót á bókasöfnin. Svo eru sumir strákar farnir að lesa glæpasögur á þessum aldri, eins og eftir Jo Nesbø, Yrsu Sigurðardóttur og Stefán Mána. Málið er bara að það skiptir kannski ekki alveg öllu máli hvað er lesið bara að það sé lesið. Allur lestur er góður lestur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...