Það er alltaf spennandi að sjá hvað nýtt kemur úr hugarheimi Ævars Þórs Benediktssonar. Þegar ég held að hann hljóti að hafa klárað allar hugmyndirnar sínar, þá kemur út enn ein frábær barnabók eftir hann. Ég held nefnilega stundum að allar hugmyndir hljóti að klárast á endanum, svona eins og þegar maður hellir úr könnu af vatni. Þær bara klárast. Ég hélt líka einu sinni að það væri ekki hægt að búa til tónlist í framtíðinni, af því það væri búið að fullnýta allar mögulegar leiðir til að búa til tónlist. Nóturnar væru bara ekki nógu margar til að búa til fleiri frumleg lög. Það var heldur ekki rétt.

En ég verð alltaf jafn hissa en ánægð þegar ég sé að ný bók er komin út, byggð á nýrri hugmynd en alveg jafn skemmtileg. Ofurhetjuvíddin er þar engin undantekning. Ævar hinn ungi þarf að kljást við ný vandamál í bókinni. Hann flytur í nýtt hverfi og endar í skóla þar sem hann er lagður í svæsið einelti. Það gerði okkur mæðgin svolítið leið að lesa um raunir Ævars, sem var ný reynsla við lestur bókar eftir Ævar Þór. Oftast hlæjum við bara með bókunum, en þarna náðum við að ræða um alvarleg málefni tengd einelti.

Þegar hrekkjusvínin hrella Ævar í eitt skipti verður Ævar fyrir ótrúlegri lífsreynslu. Hann fellur í gegnum malbikið og endar í lausu lofti. Hann endar í Ofurhetjuvíddinni. Þar kynnist hann ofursvölum krökkum með ofurkrafta á Íslandi sem er allt öðruvísi en Ísland eins og við þekkjum það. Það er samt ekki allt fullkomið í paradís, því ofurhetjan Einherjinn og leppur hans Óbermið herja á aðrar ofurhetjur.

Eins og í öðrum bókum Ævars Þórs er húmor í stóru hlutverki. Hver kafli er öðrum fyndnari og skemmtilegri og spennan var á tímabili óbærileg. Sérlegur álitsgjafi minn gaf bókinni toppeinkunn sagði hana fyndna og skemmtilega, en stundi svo þungt þegar ég vildi frá frekar útlistanir á hvað væri skemmtilegt við hana. “Hún er bara skemmtileg og fyndin,” en hann bætti svo við að honum hafi þótt Óbermið áhugaverðasta persónan.

Ofurhetjuvíddin er hluti af bókum sem hafa komið út í tengslum við “Lestrarátak Ævars”. Áður hefur verið fjallað um Gestir utan úr geimnum á Lestrarklefnum.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...