Hvar eru barnabókaklúbbarnir?

Bækur eru tilavalin jólagjöf í alla pakka að mínu mati. Í minningunni eru bestu jólin þau þar sem ég fékk bara bækur í jólagjöf. Allir pakkarnir voru harðir og ferkantaðir. Ég eyddi öllum jólunum í náttfötum og las hverja bókina á eftir annarri. Það var alltaf gaman þegar jólin komu og maður fékk nýjar, brakandi ferskar bækur. Svo þurfti að bíða í marga mánuði eftir að fá aftur nýja bók.

En það er alveg út í hött að bíða eftir jólunum til að fá nýja bók. Maður á ekki að þurfa að bíða heilt ár eftir því að fá nýja bók. Þessi tilfinning, að fá nýja bók, er svo yndisleg. Ég tala ekki um þegar hún kemur óvænt inn um bréfalúguna. Ég er sjálf áskrifandi að bókum hjá bókaforlaginu Angústúru. Í hvert sinn sem pakki frá þeim dettur inn um lúguna hoppa ég hæð mína af kæti! Mig langaði að gefa strákunum svipaða gleði, ég var meira að segja að hugsa um að gefa þeim svoleiðis áskrift í jólagjöf. En það er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að barnabókaklúbbum á Íslandi. Ég fann bara disneybókaklúbb Eddu útgáfu þegar ég gúgglaði “barnabókaklúbbur”. Eftir nokkrar leitarniðurstöður frá bland.is, þar sem foreldrar hafa greinilega verið að leita að klúbb í gegnum árin, er næsta leitarniðurstaða frétt úr Morgunblaðinu frá 1990 um nýstofnaðan barnabókaklúbb Máls og Menningar, sem er ekki til lengur.

Barna- og unmennabókaútgáfa fyrir þessi jólin er ótrúlega ríkuleg og skemmtileg. Það er í raun synd að krakkar geti ekki nálgast þær í einhverjum bókaklúbbum. Síðustu ár hafa verið gefnar út margar gæðabækur fyrir börn og margar þessara bóka eru hluti af seríu. Til dæmis hefur IÐNÚ nýlega endurútgefið Óvættaför-bækurnar, sem eru gríðarvinsælar meðal krakka. Drápa er að byrja á PAX-bókaflokknum, Bókabeitan er með Kepler62-bækurnar (sex bækur í bókaflokknum) og Ljósaseríuna, Angústúra hefur gefið út fyrstu bókina í Villinorna-bókaflokknum og svo eru eflaust fjöldi annarra bóka sem hægt væri að senda til bókaorma og lestrarhesta um allt land. Ég veit svo sem lítið um bókaútgáfu og hvernig á að reka barnabókaklúbb, en ég myndi að minnsta kosti vilja sjá barnabókaklúbba skjóta upp hausnum á næstunni.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...