Óbragð í munni og óhugnaður í sálinni

Kápan og hönnun bókarinnar er falleg og gefur til kynna kuldann sem býr í orðum ljóðmælanda.

Óhugnaðurinn sem býr í texta Gerðar Kristnýjar í nýjasta ljóðabálki hennar, Sálumessu, nístir lesanda inn að beini; inn í sálina. Hann fær óbragð í munninn þegar ljóðmælandi dregur upp sögu konu, illa leikna af sínu eigin skyldmenni. Voðaverkin sem Gerður skrifar um eru vísun í mál sem kom upp fyrir um það bil sextán árum síðan þegar Gerður sagði sögu konu sem var misnotuð af fjölskyldumeðlimi. Konan átti síðar eftir að fremja sjálfsmorð og Gerður var í kjölfarið dregin fyrir siðanefnd Blaðamannafélags Íslands og dæmd sek um brot á siðareglum. Í dag hefði niðurstaðan ef til vill verið önnur enda var Gerður aðeins að segja sögu konu, sem í anda Metoo byltingarinnar, var að skila skömminni heim.

Fyrir þá sem ekki þekkja þessa sögu og lesa ljóðabálkinn þá hefur hann alveg jafn mikil áhrif. Sagan er skýr og ljóðmálið er sterkt og lýsandi. Undirrituð fullyrðir að enginn sem les þenna bálk Gerðar á eftir að eiga í erfiðleikum með að finna broddinn sem í orðunum býr. Gerður er ef til vill einnig að skila skömminni til samfélags sem dæmdi hana fyrir að segja sögu konu sem var fórnarlamb. Samfélagið var stutt á veg komið í umfjöllun svona mála.

Gerður rekur hér rýting inn í þetta gamla samfélag og ristir það á hol. Hún sker upp herör gegn feluleikjum og segir gerendum til syndanna. Sannleikurinn er bersýnilegur öllum þeim sem vilja sjá hann.

Ég las hana aftur og aftur og alltaf sá ég eitthvað nýtt. Sálumessa er undarlegt verk þar sem ægifegurð íslenska málsins er blandað saman við fegurð hins ókunna; orða ættbálka og annarra menningarheima um fegurðina, vinskap og baráttuna um lífið; orða sem vantar í íslenska tungu sem oft getur verið köld en lýsandi. Þetta er fallegt verk. Kalt verk. Verk sem grípur fólk og vekur upp baráttuanda en það hlýtur á endanum að vera markmiðið.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...