Bergrún Íris Sævarsdóttir sló í gegn með fyrri bókinni um Eyju og Rögnvald, Lang-elstur í bekknum, þegar hún kom út í fyrra. Eyja var þá að byrja í fyrsta bekk og var svolítið kvíðin fyrir því öllu saman. Hún þekkti ekki krakkana sem voru í bekknum, en það lagaðist fljótlega því Rögnvaldur, hinn 96 ára gamli bekkjarfélagi og besti vinur hennar, hjálpar henni að kynnast krökkunum. Þau gera samning sín á milli, hún kynnist krökkunum og í staðinn fær Eyja að kenna Rögnvaldi stafina. Saman ná þau góðum árangri á öllum sviðum og Rögnvaldur nær loksins að klára fyrsta bekk.

Í Lang-elstur í leynifélaginu, sem kom út núna fyrir jólin, er annað uppi á teningnum, því Rögnvaldur flytur og Ellivelli. Eyja hefur að sjálfsögðu nokkrar áhyggjur af félaga sínum, myndi helst vilja að hann kæmi og byggi  hjá henni. En hún fær fylgja honum á Ellivelli í nokkra daga og er því orðin lang-yngst á elliheimilinu. Hún stofnar leynifélag ásamt Rögnvaldi og öðrum vinum sínum til að komast til botns í því hvort að forstöðukona Ellivalla sé vélmenni. Eyja hefur fjölmörg sönnungargögn máli sínu til stuðnings; forstöðukonan brosir aldrei og getur fært sig á milli staða á ógnarhraða. Eyja og félagar setja saman eldklára áætlun til að leysa ráðgátuna.

Bergrún Íris hefur getið sér gott orð sem myndskreytir barnabóka, ekki síður en sem barnabókahöfundur, og hefur meðal annars myndskreytt fjölda bóka í Ljósaseríu Bókabeitunnar. Myndirnar hennar eru svo yndislega krúttlegar. Bergrún hefur skapað hina einlægu Eyju, sem stundum þarf að setja sig í búning Ofur-Eyju til að takast á við eitthvað sem henni finnst erfitt að gera.

Eyja er skemmtilega hugmyndarík stelpa sem lærir margt í hverri bók. Rögnvaldur virðist vera fúllyndur gamall kall í byrjun, en fljótlega kemur í ljós að hann er hinn ljúfasti fýr. Ofur-Eyja og Njósna-Valdi eru skemmtileg teymi.

Hver veit nema krakkar fái aðra sýn á gamalt fólk við lestur bókanna um Eyju og Rögnvald, því oft eru þessir elstu þegnar samfélagsins okkar þeir áhugaverðustu (að öðrum ólöstuðum).

Að þessu sinni prófuðum við mæðginin nýjan miðil við bókalesturinn. Við hlustuðum á fyrstu bókina á Storytel yfir kvöldmatnum. Það var afskaplega huggulegt að slafra í sig matinn yfir þægilegum lestri Sigríðar Lárettu Jónsdóttur. Sá sex ára átti auðveldara með að sitja kyrr og borða matinn sinn á meðan við hlustuðum á ævintýri Eyju og Rögnvaldar. Það var ekki verra að hann gat auðveldlega samsvarað sig við Eyju, þar sem hann var sjálfur nýbyrjaður í fyrsta bekk. Honum fannst það ansi hlægilegt að Rögnvaldur væri 96 ára og kynni ekki að lesa! Það var mikil hvatning fyrir hann að geta verið betri en Rögnvaldur.

Lang-elstur í leynifélaginu  kom til okkar í föstu formi með blaðsíðum og myndum. Við lástum einn og einn kafla á kvöldin, skoðuðum myndirnar og flettum fram og til baka í bókinni. Án þess að gera lítið úr hljóðbókinni, þá fannst mér skemmtilegra að lesa bókina í föstu formi. Myndirnar komast ekki til skila í hljóðbókinni, þótt kvöldmatarstundirnar hafi verið öllu rólegri. Það er líka gaman fyrir þann sex ára að geta stungið nefinu í bókina, skoðað myndirnar og stautað sig í gegnum textann. Við erum þó hvergi nærri því að hætta að hlusta á hljóðbækur.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...