Gleðileg jól!

Þá líður að lokum ársins, jólin eftir nokkra klukkutíma og flestir líklega byrjaðir að elda jólamatinn, í það minnsta undirbúa. Sjálf sit ég enn í sófa, föst í bók, þó búin að skúra út úr húsi en jólamaturinn enn algjörlega óundirbúinn i ísskápnum, börnin enn óböðuð og eftirréttinum frestað til morguns. En það er allt í lagi! Jólin koma samt með sinni gleði, eftirvæntingu og rafmögnuðu andrúmslofti.

Lestrarklefinn var settur í loftið fyrir tæpu ári síðan og þótt upphaflega hafi hann átt að vera hvatning fyrir áhafnarmeðlimi hans til frekari og aukins bókalesturs er hann orðin eitthvað stærra. Viðtökurnar á árinu hafa verið framar öllum vonum og það gleður mig alltaf jafn mikið að sjá hve margir hafa áhuga á að lesa umfjallanirnar okkar um bækur. Á árinu sem brátt gengur í garð er ætlun okkar að halda áfram með Lestrarklefann og þróa hann lengra, gera hann að einhverju stærra. Ég vona að sem flestir vilji fylgja okkur inn í það ferðalag og taka þátt í þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar.

Við óskum lesendum okkar gleðilegra jóla! Við óskum þess líka að lesendur okkar fái fullt af góðum bókum í jólagjöf.

Yfir jólahátíðina verður eitthvað rólegra hér, svo við höfum nú allar tíma til að éta yfir okkur, gleypa í okkur jólabækurnar í bland við konfekt og kaffi og hver veit nema einn og einn rauðvínssopi læðist inn fyrir varirnar líka.

Gleðileg jól!

E.S. Ef þið viljið deila með okkur bókunum sem koma úr pökkunum getið þið taggað myndirnar með #lestrarklefinn á Instagram eða með @lestrarklefinn á Facebook. Við viljum gjarnan sjá hvaða bækur fá góða eigendur þessi jólin.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...