Bestu bækurnar eru yfirleitt bækurnar sem maður vill helst ekki klára og þannig var sambandi mínu við Dag einn í desember einmitt háttað. Bókin er skrifuð af Josie Silver og kom út fyrir jólin í íslenskri þýðingu Herdísar Hübner. Ég byrjaði á henni fyrir jól, en lauk henni ekki fyrr en á nýju ári, vegna þess að ég var svo hugfangin af sögunni að ég vildi helst ekki að hún tæki enda.

Ég skil af hverju bókinni hefur verið líkt saman við bíómyndina Love Actually. Það fyrsta sem mér datt í hug varðandi söguþráðinn var að rithöfundurinn hefði verið að horfa á Love Actually og farið að velta fyrir sér ævi og örlögum sögupersónunnar sem verður ástfanginn af kærustu besta vinar síns.

 

Í Dag einn í desember eru það þó Laura og Jack sem hrífast af hvort öðru fyrst og síðan besta vinkona Lauru, Sara, sem krækir í kauða og er bókin sögð frá sjónarhorni þeirra Lauru og Jack og spannar áratug af ást, árekstrum, gleði og sorgum. Bókin á það einnig sameiginlegt með myndinni að tengjast jólunum lauslega án þess að verið sé að fjalla um jólin sem slík.

Bókin er rómantísk án þess að vera óhóflega klisjukennd og eitt af því sem ég kunni mest að meta við bókina var að hún fjallar á skynsaman og raunsæjan hátt um ást og sambönd. Vel er farið með þau siðferðilegu álitamál sem sögupersónurnar standa frammi fyrir, án þess að verið sé að fegra hlutina, og í bókinni er fjallað um leitina að lífshamingjunni á léttan og aðgengilegan máta sem auðvelt er að spegla sig í.

Ég hugsa að við tengjum flest við þá tilfinningu að falla pínulítið fyrir vel skrifuðum sögupersónum, og ég hreifst með öllum aðilunum sem mynda ástarþríhyrninginn í þessari sögu. Ég tók allan skalann með Jack, allt frá því að skilja af hverju hann er svona ómótstæðilegur, yfir í að geðjast ekkert sérstaklega vel að honum og allt þar á milli. Laura þótti mér geðþekk og ég fann að ég hélt með henni í gegnum bókina, en aðalstjarnan fannst mér þó vera besta vinkonan, Sara, sem er í senn hrífandi og aðgengileg.

Ef ég á að setja út á eitthvað þá er það helst það að hér og þar hnaut ég um beinþýðingar sem mér fannst trufla flæðið í textanum. Það angraði mig líka meira en góðu hófi gegnir að aðalsögupersónan heitir Laurie aftan á bókinni, en Laura inni í bókinni og það fór svo á endanum að ég leitaði á náðir Amazon til að skera úr um í hverju villan fælist (Höskuldarviðvörun: Hún heitir Laurie í ensku útgáfunni). Þetta eru þó smávægilegar athugasemdir á annars lipurlega þýddri og skemmtilegri bók og ég mæli með henni fyrir alla þá sem eru að leita sér að hugljúfri ástarsögu til að ylja í skammdeginu.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...