Fjöruverðlaunin veitt í þrettánda sinn

Fjöruverðlaunin, bókmennta verðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Verðlaunahafar að þessu sinni voru fimm. Veitt eru verðlaun í þremur flokkum; fagurbókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðslis og barna- og unglingabókmenntir.

Sigurvegarar að þessu sinni voru:

  • Guðrún Eva Mínervudóttir í flokki fagurbókmennta fyrir bók sína Ástin Texas sem er safn smásagna.
  • Bára Huld Beck, Auður Jónsdóttir og Steinunn Stefánsdóttir í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bók sína Þjóningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla.
  • Kristín Helga Gunnarsdóttir í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir bók sína Fíasól gefst aldrei upp.

Í umsögn dómnefndar segir um bækurnar segir:

Ástin Texas

Smásagnasafnið Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur geymir fimm smásögur sem láta ekki mikið yfir sér; þær eru lágstemmdar á yfirborðinu en undir niðri krauma miklar tilfinningar. Umfjöllunarefnið er nánd og þá einkum skorturinn á henni. Tilvitnun í byrjun bókar slær tóninn en þar er vitnað í orð Lacans: „Ástarsambönd eru ekki til.“ Heita má að þetta sé sá grunntónn sem sveigir sögurnar saman og þær hverfast um, hver með sínum hætti. Ástarsamböndin í sögunum eru af fjölbreyttum toga en eiga það sameiginlegt að vera á einhvern hátt löskuð. Þetta er býsna vel gert; mannlýsingar eru trúverðugar og vekja samkennd með persónum og samskiptum þeirra er lýst af slíkri dýpt og næmi að þau láta lesandann vart ósnortinn. Þrátt fyrir erfitt viðfangsefni er stíllinn léttur, lipur og myndrænn og jafnan er stutt í húmorinn. Það er unun að lesa sagnasveiginn Ástin, Texas.

Þjáningarfrelsið

Bókin Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla, eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur, er frábært framtak í heimi þar sem brýnt er að standa vörð um tjáningarfrelsið, í veröld þar sem afskipti stjórnmálaafla og eignarhald á fjölmiðlum getur leitt til hagsmunaárekstra. Bókin er safn viðtala við fólk sem tengist fjölmiðlum á einn eða annan máta. Útkoman er fjölbreytt umfjöllun um þá, auk þess sem áhrif samfélagsmiðla, persónuverndar, pólitíkur og peninga eru skoðuð. Þjáningrarfrelsið tekur fyrir hin ýmsu mál út frá ólíkum viðmælendum en eiga það sameiginlegt að hafa verið á milli tannanna á Íslendingum. Allt frá gömlum málum til atburða sem gerast rétt áður en bókin fer í prentun. Þjáningarfrelsið er ekki bók sem leitar lausna en lesandi er vissulega fróðari eftir lesturinn. Bókin skilur eftir sig spurningar, hugmyndir og vangaveltur um samfélagið og öruggt er að bókin verður góð heimild í framtíðinni til að skoða stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsis á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar.

Fíasól gefst aldrei upp

Ærslabelgurinn Fía Sól er flestum kunn enda er hér um að ræða sjöundu bókina í bókaflokkinum um hana. Höfundur dregur upp sannfærandi myndir af átökum og uppgötvunum í lífi Fíu Sólar, breyskleika hennar og styrk. Heimur Fíu Sólar er ekki samsettur af staðalímyndum heldur eru persónurnar lifandi og margræðar. Fíu Sól finnst hún órétti beitt en fræðist um rétt sinn með hjálp frá Umboðsmanni barna. Hún verður „björgunarforingi í eigin hjálparsveit“ og aðstoðar önnur börn í leit að réttlæti. Fía Sól gefst aldrei upp hvetur til umræðu, vekur lesendur til umhugsunar um þennan mikilvæga málaflokk og vekur athygli á starfi Umboðsmanns barna. Hin íslenska Lína langsokkur Fía Sól höfðar til allra aldurshópa hvort sem til yndislestrar fyrir 11 ára og yngri eða upplestrar fyrir yngri börn. Kristín Helga Gunnarsdóttir er tilnefnd fyrir bókina Fíasól gefst aldrei upp til Fjöruveðlaunanna 2019.

Aðrar bækur tilnefndar bækur voru í flokki fagurbókmennta Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttir og Kláði etir Fríðu Ísberg. Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis voru tilnefndar bækurnar Krullað og klippt: Aldarsaga háriðna á Íslandi eftir Báru Baldursdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur og Skiptidagar – Nesti handa nýrri kynslóð eftir Guðrúnu Nordal. Í flokki barna- og unglingabókmennta voru tilnefndar bækurnar Lang-elstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Sjúklega súr saga  eftir Sif Sigmarsdóttur og Halldór Baldursson.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...