Katrínarsaga – Hippaárin á Íslandi

Jim Morrison, söngvari The Doors, er þekkt kyntröll.

Mér hefur alltaf þótt ég fædd á vitlausum tíma. Ég er svokallað „eitís“barn, alin upp af eldri systkinum sem fíluðu Uriah Heep og Dr Hook með ívafi frá töluvert öldruðum foreldrum sem vildu ekkert annað á sinn fón en Ellý Vilhjálms og Ingimar Eydal. Inn í þessa stórskrýtnu blöndu hrærðust svo grúbbur eins og Duran Duran og hinir íslensku Greifar svo eitthvað sé nefnt. Það er því ekki að furða að kollurinn á sveitabarninu mér hafi verið hálf tættur og ég átt erfitt með að finna mér minn stað í þessu öllu, allt stangaðist á og eitís tíminn nú ekki beinlínis til þess fallinn að boða einhverja róttækni og byltingu, pönkið liðið undir lok ásamt öllu því sem einhverja meiningu hafði.  Allavega að því er mér fannst. Það var því algjör opinberun þegar Hárið var sýnt í sjónvarpinu, ég held eg hafi verið tólf ára. Og þvílíkt og annaðeins! Fötin, tónlistin, málfarið, þetta var eins og eitthvað stórkostlegt hafi birst mér og ég fór að sökkva mér í hippatónlistina, Doors, Janice og Dylan, ég gleypti þetta allt hrátt. Fór að klæða mig í mussur af mömmu sem voru nú reyndar afskaplega lummó og akkúrat ekkert hippalegar. En síðan ég sá Hárið hef ég verið kolfallin fyrir þessu tímabili og öllu sem því fylgdi. Ég grenjaði í koddann yfir þeirri sorglegu staðreynd að hafa ekki getað farið á Woodstock, hafa ekki einu sinni verið hugmynd hvað þá meira, þegar stórkostlegustu tónleikar allra tíma fóru fram enda fædd mörgum árum síðar.

Ég grenjaði líka í koddann yfir þeirri staðreynd að hafa misst af fallegasta karlmanni allra tíma, Jim Morrison. Þegar ég var tólf ára var hann búinn að vera látinn í fjórtán ár. Þvílíkt svekkelsi!

Vegna þess að ég er tímaskekkja, ætti í raun að vera langt komin í sjötugt í stað þess að vera bara fjörtíu og fimm, og vegna þess að ég gleypi í mig allt sem viðkemur þessum svokallaða hippatíma þá var ég ekki sein á mér að grípa Katrínarsögu eftir Halldóru Thoroddsen sem kom út núna fyrir jól og fjallar um íslenskan hippatíma, eitthvað sem ég hef hingað til ekki almennilega getað lesið mér til um. Þetta er þó skáldsaga og auðvitað ekki nothæf sem heimild um þennan tíma í Íslandssögunni. En samt sem áður skemmtilegt innlit inn í annan tíðaranda.

Katrín er aðalsögupersónan, titilinn gefur til kynna að sögð sé hennar saga. Þó fær hún tiltölulega lítið pláss miðað við stóran titil. Hún býr í kommúnu í Reykjavík ásamt nokkrum öðrum. Lífið í kommúnunni er laust við reglufargan og svoleiðis vesen, piltar og stúlkur koma og fara eftir hentugleika, farið er frjálslega með allskyns ofskynjunarefni og tíminn afstæður. Allt er þetta voða þægilegt og afslappað, þegar vantar pening er farið í uppgrip en svo er bara gengið út þegar einhver aur er kominn í vasann.

Frjálslegt líferni hippanna á Íslandi var ef til vill frábrugðið lífi þessara hippa.

Þegar líða tekur á söguna fer að ýmislegt að koma í ljós. Katrín fer að átta sig á að ríkjandi fyrirkomulag hippanna gengur ekki til lengdar, þeir allra hörðustu í baráttunni gegn auðvaldinu og ríkjandi skipulagi ýmist horfnir yfir móðuna miklu, orðnir útigangsmenn og eða geðveikir. Og þetta reynir á hana. Hún fer óhjákvæmilega að velta fyrir sér hverju þetta hafi skilað, hver hafi í raun verið ávinningurinn. Og það er kannski sú spurning sem eftir situr.  Íslenskir unglingar tengdu ekki við þá baráttu sem byrjaði í Bandaríkjunum í sambandi við Víetnamstríðið. Make love not war var slagorð sem gekk kannski ekki alveg upp hér, íslensk ungmenni fengu mjög litaðan fréttaflutning að stöðu stríðsmála í Ameríku.  Andstaðan við herinn og keflavíkurgöngurnar voru þar að auki ekki bara einkamál hippa. Katrín og vinir hennar voru ekki mikið í því að velta fyrir sér heimsmálunum og þau voru flest með þá drauma að ná sér í menntun og mikið er af heimspekilegum vangaveltum í bókinni sem passar ekki alveg inn í þá ímynd sem hippatímabilið hefur hjá okkur sem misstum af þessum skemmtilega tíma.

Þessi bók hefði mátt vera lengri. Og þar sem ég er ekki ein af þeim sem upplifðu þennan tíðaranda þá myndi mig langa að ræða hann við einhvern sem man, einhvern sem bjó í kommúnu og gæti sagt mér hvort þetta hafi virkilega verið svona og hvort það hafi verið gaman eða jafnvel bara sorglegt.  Því maður fær á tilfinninguna um miðbik bókarinnar að Halldóra sé að deila á þessa tíma frekar en hitt.

Ég var að mörgu leyti hrifinn af Katrínarsögu, hefði viljað hafa hana lengri og Katrínu sjálfa í stærra hlutverki í sögunni. Hippaglansmyndin er hinsvegar algjörlega upplituð í bókinni, má segja að hún sé hreinlega lögð í klór, og kannski nær raunveruleikanum en ég, hippa-tímaskekkjan, vil viðurkenna.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...