Bókmenntahátíð að vori

Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík fer fram að vori í ár, nánar tiltekið dagana 24.-27. apríl, skömmu eftir Dag bókarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin að vori, en áður hefur hún verið haldin í september annað hvert ár, allt frá árinu 1985. “Það koma út margar þýðingar á vorin, sem koma kannski færri út að hausti, og við getum lyft höfundum þeirra bóka svolítið upp með hátíðinni. Á vorin er líka sérstaklega mikil og spennandi útgáfa hjá yngri höfundum eða nýjum höfundum sem ekki fara í jólabókaflóðið sem getur verið gaman fyrir lesendur að kynna sér á Bókmenntahátíð. Á vorin er síðan heilmikil áhersla á bækur og lestur: vorbókatíðindi, vika bókarinnar, dagur bókarinnar og afmælisdagur Halldórs Laxness og ýmislegt fleira,” segir Stella Soffía Jóhannesdóttir, tengiliður hátíðarinnar. Von er á um tuttugu erlendum höfundum á hátíðina auk hinna íslensku.

Ný verðlaun í nafni Halldórs LAxness

Hundrað ár eru liðin frá því fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness kom út og því verður því gefinn sérstakur gaumur og efnt til sérstaks alþjóðlegs málþings af þeim tímamótum. Þingið var haldið í Osló í nóvember síðastliðnum og verður hluti þess haldinn hér á landi í samstarfi við Gljúfrastein og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Að auki verða veitt ný verðlaun í nafni Halldórs Laxness í fyrsta sinn og síðan annað hvert ár. Verðlaunin verða veitt virtum erlendum rithöfundi fyrir endurnýjun sagnalistar. “Það er náttúrlega frábært að hátíðin sé vettvangur fyrir þessi nýju bókmenntaverðlaun. Verðlaunin eru ekki síst mikilvæg til þess að halda nafni Halldórs Laxness á lofti og um leið beina ákveðinni athygli að íslenskum bókmenntum og menningu. Þau verða veitt á þingi um Halldór Laxness, sem er einmitt hluti af hátíðinni í ár. Í framtíðinni verða verðlaunin veitt á hátíðinni sjálfri,” segir Stella. Mennta- og menningarmálaráðherra um að ríkisstjórnin veita tvær milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til að standa straum af verðlaunafénu, tvær milljónir króna.

Fjölbreytt dagskrá opin öllum

Líkt og fyrri ár fer hátíðin fram á nokkrum stöðum, Norræna húsinu og í Iðnó. Barnadagskrá verður í Norræna húsinu, þar sem krakkar geta tekið þátt í smiðjum og sögustundum.

Dagskráin verður fjölbreytt; fyrirlestrar, upplestrar, samtöl á sviði, uppistand, bókaball og fleira. Hátt í tuttugu erlendir höfundar taka þátt í hátíðinni í ár auk hinna íslensku.

Þema hátíðarinnar í ár er aðlögun og er það vísað til margs konar aðlögunar svo sem aðlögunar að kvíkmynda- eða sjónvarpsþáttaforminu, aðlögunar að breyttum aðstæðum í breyttum heimi, svo sem vegna loftslagsbreyginga, breytinga á tungumálinu og aðlögun okkar að nýjum heimkynnum.

Hátíðin þjófstarfar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 23. apríl, með þátttöku erlendra og innlendra höfunda auk lesenda.

Heiðursverðlaun þýðenda af íslensku á erlend mál, Orðstír, verða afhent í þriðja skiptið á hátíðinni. Þau voru fyrst afhent árið 2015 og hlotnast þau tveimur þýðendum sem hafa þýtt íslenskar bókmenntir á erlendar tungur. Að verðlaununum standa, auk hátíðarinnar, Íslandsstofa, Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka og embætti forseta Íslands.

Ókeypis er inn á alla viðburði hátíðarinnar og dagsrká fer fram á ensku. Upplestrar eru allir á móðurmáli höfunda með þýðingum á íslensku. Barnadagskrá fer fram á íslensku.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...