Látlausar nútímasögur

Takk fyrir að láta mig vita (2016) er fyrsta bók Friðgeirs Einarssonar en hann þekkja einnig þau sem kannast við skáldsöguna Formann húsfélagsins (2017) og seinna smásagnasafnið hans Ég hef séð svona áður (2018) sem kom út fyrir síðustu jól. Takk fyrir að láta mig vita er samansafn þrettán smásagna. Sögurnar sem hann ber fram eiga það sameiginlegt að vera hversdagslegar ádeilur á líf mismunandi fólks. Stíllinn er látlaus, lýsingarnar fábrotnar en innri bárátta persónanna er til umfjöllunar, þó svo að hún láti ekki mikið á sér kræla. Sumar sögurnar eru í raun óáhugaverðar á yfirborðinu. Hér verður fjallað um þær sögur sem standa upp úr.

Meðvirkni meðalmannsins

Smásagan „Hlutverk“ er stórgóð ádeila á hjarðhugsun meðalmannsins á atvinnu-markaðnum. Sögumaðurinn lætur stjórnast af fyrirtækinu og ákvörðunum fólksins í kringum hann. Hann bælir sínar eigin tilfinningar og hugsanir niður til að falla inn í hugarfar hópsins. Hann gengur inn í ákveðið hlutverk sem búist er við honum. Hlutverk hans, og allra á vinnustaðnum, sést greinilega í lok sögunnar. Starfsmennirnir safnast saman í fundarherbergi til að hlusta á frægan söngvara syngja nokkur lög, stemningin er dræm er fólki finnst það knúið til að klappa með og reyna að láta söngvaranum líða vel. Meðvirknin stjórnar fólkinu en lesandinn finnur fyrir félagslega kvíðanum sem kraumar undir yfirborðinu.

Utangarðs á Íslandi

Smásagan „Eyja“ fjallar um mann sem yfirgaf Ísland þónokkru áður en hefur komið til baka til að ganga frá arfi sem hann hlaut frá látinni móður sinni. Hann segist ekki kunna málið nógu vel og þykist ekki kannast við gamlan vin þegar hann fer í sund. Honum finnst hann vera utangarðs á Íslandi, líkt og hann sé að heimsækja framandi stað, ekki heimahagana. Hann hefur fjarlægst landið og allt sem það stendur fyrir. Hér eru lýsingarnar á umhverfi hans fremur leiðigjarnar og hann virðist alls ekki eiga heima þarna, þrátt fyrir að hann hugsi að allir staðir séu í raun eins.

„Mjólkin sem ég kaupi“ er samansafn dagbókarfærslna manns sem reynir að skrifa örstuttar hugleiðingar hvern einasta sunnudag. Færslurnar eru ekki í tímaröð, heldur að svo virðist, raðað gjörsamlega handhófskennt. Þetta er skemmtileg hugmynd en ólínulaga frásögnin veldur því að lítil merking er dregin frá örsögunum sem heild.

Margt býr að baki

Persónulega tel ég að of mikið hafi legið undir yfirborðinu í þessum sögum Friðgeirs, ádeilan var góð en ekki mjög beitt. Auðvelt er að renna yfir sögurnar og afskrifa þær sem hversdagslegar frásagnir sem skorta alla dýpt en margt býr þó að baki frásagnanna og þennan stíl vinnur Friðgeir áfram í sínum næstu verkum og tekst vel til.

 

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...