Smásögur frá Norður-Kóreu

Bækur eftir höfunda frá Norður-Kóreu eru ekki á hverju strái. Hvað þá höfunda sem enn búa í Norður-Kóreu. Sakfelling: forboðnar sögur frá Norður-Kóreu eftir huldumanninn Bandi í íslenskri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur kom út í fyrra. Höfundur bókarinnar býr enn í Norður-Kóreu og lagði líf sitt í hættu við að smygla handritunum út úr einræðisríkinu. Bókin er í áskriftarútgáfu bókaútgáfunnar Angústúru. Áskriftar bækurnar eru frá ýmsum heimshornumog hafa slegið í gegn í heimalöndunum og víðar.

Þegar eitthvað er forboðið, hættulegt og dularfullt vill það oft verða seljanlegra. Fyrir utan hvað margir eru þyrstir í upplýsingar af einhverju sem er má ekki segja frá (ég er þar engin undantekning). Það að höfundurinn sé nafnlaus persóna í kúguðu landi vekur vissulega forvitni. Sakfelling kom þó ekki út í heimalandi höfundarins, enda myndi sú útgáfa sennilega verða höfundinum til aldurtila. Í bókinni eru sjö smásögur sem á opinn hátt gagnrýna ríkjandi stjórnarfar í Norður-Kóreu, nokkuð sem er algjörlega bannað í einræðisríkinu.

Hver og ein saga er átakanleg. Það er líkt og maður sé að lesa sögur úr grárri forneskju, en er svo kippt inn í nútímann með ártali við lok hverrar sögu. Líklega dagsetningunni sem höfundur setti við söguna þegar hann lauk við hana. Elsta sagan er frá 1989 og yngsta er frá 1995.

Ég hef áður líkt smásagnasafni við konfektmola, en sögurnar í þessari bók eru eins og þung máltíð með rjómasósu (ég veit ekki af hverju ég þarf að líkja bókmenntum við mat). Sögurnar eru vel uppbyggðar, höfundurinn laumar smáatriðum inn í sögurnar, sem auðvelt er að afskrifa sem óþörf en þegar uppi er staðið skiptu þau gríðarlegu máli. Það er auðvelt að láta sér líka vel við persónurnar þrátt fyrir mjög framandi nöfn, eða kannski mjög lík nöfn. Hver saga hefur skýrt upphaf og endi.

Það er áhugavert í bókinni að illmenni eru eiginlega hvergi til staðar í sögunum. Það hefði verið svo auðvelt að falla í gildruna og láta óréttlætið allt eiga uppsprettu í einni illri persónu, sem maður getur svo hatað. Vissulega er grýlan í bókinni Kim Il-Sung sjálfur, en hann er aldrei augljós gerandi í bókinni. Alltaf fjarlægur. Illmennið er ekki ein persóna, heldur heilt stjórnkerfi. Það er heiftúðleg ritskoðun. Það er rótgróinn ójöfnuður og enginn möguleiki á hreyfanleika milli stétta. Það er leiksýningin sem allir eru þvingaðir til að taka þátt í. Stjórnkerfi sem heldur íbúum landsins í heljargreipum og enginn þorir að óhlýðnast af ótta við að vera næstur til að falla í ónáð.

Hver og ein saga er átakanleg lesning. Það tók sinn tíma að komast í gegnum safnið af því myrkrið í bókinni var svo mikið, óréttlætiði svo svakalegt og eymdin svo áþreifanleg. Hver saga hafði áhrif á mig og sat þungt á mér í svolítinn tíma á eftir. Ég mæli ekki með að allar sögurnar séu lesnar í einum bita, heldur ætti að kíkja á eina og eina í einu. Hins vegar mæli ég ekki með því að sleppa því að lesa bókina því hún á erindi til allra. Eftir lesturinn er óskaplega auðvelt að hugsa: “Mikið er ég fegin að búa ekki þarna” – eða eitthvað þvíumlíkt. Ég ætla að reyna að forðast þá hugsun og beina huga mínum fremur að því að bókin gefi manni innsýn í harðlokað land og líf fólksins inni þessu landi. Og allt í einu skyldi ég af hverju öll Norður-Kórea grét andlát Kim Jong-Il.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...