Áberandi falleg bók. Tekur sig vel út í bókahillu, á náttborði eða á kaffihúsi.

Það eru komnir heilir tveir mánuðir síðan ég las Kláða, smásagnasafn Fríðu Ísberg. (Þetta er asnalega langur tími til að láta líða á milli lesturs og bloggskrifa, en þetta er þó ekki nema dæmigert fyrir verkskipulag mitt það sem af er þessu ári, þar sem mér hefur tekist að gera mjög lítið á löngum tíma.) En Kláði kom nýverið út í kilju, eftir að hafa selst upp með látum fyrir jól, svo ég kemst kannski upp með það að láta eins og þessi síðbúna bloggfærsla sé skrifuð af því tilefni. Að baki bókinni stendur hið skemmtilega útgáfufyrirtæki Partus. Það hóf göngu sína fyrir einhverjum árum síðan en hét þá Meðgönguljóð, og sérhæfði sig í stuttum ljóðabókum í litlu en vönduðu upplagi. Þó útgáfan hafi vaxið og breyst og skipt um nafn, þá er ennþá sami blær yfir Partusi, vandaður og metnaðarfullur, gáfulegur og ungskáldalegur. Partus leggur rækt við unga íslenska höfunda og vandar til verka við ritstjórn bókanna en líka útlit þeirra. Það er því alls ekki vandræðalegt að láta sjá sig á kaffihúsi með bolla af svörtu kaffi, augnaráð þrungið íhygli og bók frá Partusi í hendinni.

Eitthvað þannig gæti einmitt einhver af persónunum í Kláða tekið upp á að gera, því margar sögurnar fjalla um þessar ólíku leiðir sem við notum öll til að setja okkur sjálf á svið, búa til aðlaðandi ímynd af okkur, og baráttuna við að láta þessa ímynd ná endum saman við raunveruleikann. Margar sögurnar voru mjög fyndnar, ein var mjög óþægileg (þessi um konuna sem ákveður að horfa á klám kærastans síns), og sumar voru afskaplega vandræðalegar.

Ég myndi samt ekki flokka sögurnar eftir því hvort þær voru sorglegar, erfiðar eða fyndnar, því það sem sameinar þær er hvað mér fannst efnið í þeim standa mér nærri. Oft fjölluðu sögurnar á einn eða annan hátt um eitthvað sem ég sjálf hef hugsað mikið um, eða aðstæður og manngerðir sem maður kannast við. Og ég get sko sagt ykkur það að yfirleitt þoli ég ekki þannig. Það er engin tilviljun að ég hef dálæti á furðusögum og fantasíum, mér finnst lýsingar á íslenskum samtíma oft verða alveg skelfilega banal og leiðinlegar. Af hverju að skrifa niður eitthvað sem allir eru alltaf að hugsa, og láta svo fjölda manns lesa í bók sama miðjumoðið og við hugsum um með hálfum huga þegar við erum á leiðinni í vinnunna? (Ég verð að viðurkenna að nú er ég farin að hugsa um bókina sem ég las síðast, og fór mjög í taugarnar á mér, en ekki meira um það).

En ég fékk þessa tilfinningu aldrei við að lesa Kláða. Viðbrögð mín voru miklu frekar hrifning. (Já! Ég þekki svona gaura! Það þekkja allir svona gaura, úfff!) Fríðu tekst að orða svo mikið af þeim hugsunum sem hafa sótt á mig meðvitað og ómeðvitað síðustu tíu árin eða svo, að það er ótrúlegt. Og það fylgdi því einhver feginleiki að lesa þær loksins, settar fram svona kristaltært í svona skemmtilegum sögum. Eins og að eiga reglulega gott samtal við vinkonu þína þar sem allt smellur. Í langflestum sögunum er einhver húmor og kímni sem breiðir yfir alla vitleysuna og vandræðaganginn í persónunum sem flestar eru týpískir Íslendingar sem maður þekkir alltof vel, og óttast kannski að vera sjálfur. En alltaf bæta sögurnar einhverju við þessar kunnuglegu aðstæður og óþolandi erkitýpur.

Almennt séð er fyrri hluti smásagnasafnsins sterkari en sá seinni, en það segir kannski mest um það hvað fyrri helmingurinn er skemmtilegur að sá síðari virðist lakari í samanburði. Ég ætlaði aldrei að lesa nema eina sögu í hvert skipti, en alltaf lét ég freistast til að lesa eina í viðbót, og svo var bara bókin búin. Sögurnar í seinni hlutanum eru kannski ekki jafn gamansamar og þær fyrstu, ef ég man rétt. (Höfum þó í huga að ég las bókina fyrir tveimur mánuðum). Ég velti því fyrir mér hvort það sé ákvörðun ritstjórans sem valdi þessari skiptingu, eða hvort sögurnar séu skrifaðar á mismunandi tíma og þetta sé þá mögulega merki um einhverja þróun í ritstíl höfundarins.

En þetta er samt mjög heilsteypt verk og það er einhver þráður í gegnum megnið af smásögunum. Mér finnst til dæmis sögupersónan í Bláum dögum, sem neitar að taka þátt í hinu íslenska lífsgæðakapphlaupi, vinnur á elliheimili og lætur sig dreyma um rómantískt samband við starfsmann Sorpu, vera indælis rólegheitaandstæða við grátbroslegt stressið í fatahönnuðinum Sesselíu í Prófíl. Það voru helst tvær sögur í seinni hlutanum, Sjö og Undanhlaup, sem mér fannst skera sig verulega úr. Frásagnarmátinn var einfaldlega annarskonar og persónurnar að glíma við vandamál sem voru allt öðruvísi en í hinum sögunum. Þaðan koma því þessar getgátur mínar um að sögurnar gætu verið skrifaðar á ólíkum tíma.

En fyrst og fremst er þetta skemmtileg bók og sögurnar koma, hver á fætur annarri, ánægjulega á óvart. Hönnunarljósakrónan sem sveiflast taktfast í loftinu, fermingarveislan á 1. apríl, hin stolta móðir sem gerist laumublaðberi, hárspreyið úr piparmyntudropunum, Laugardagslaug. Ég segi ekki meir, en mæli eindregið með því að sem flestir kíki á Kláða.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...