Trúa á mátt og mikilvægi bókarinnar

Nýja bókaforlagið Una útgáfuhús gaf út sitt fyrsta verk á dögunum, endurútgáfu á Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson. Bókin er endurminningar frá þáttöku hans í Spánarstyrjöldinni. Una útgáfuhús stefnir einnig að því að veita ungskáldum vettvang til útgáfu.

Forlagið samanstendur af Einari Kára Jóhannssyni, Jóhannesi Helgasyni, Kristínu Maríu Kristinsdóttur og Styrmi Dýrfjörð, en þau eru menntuð í m.a. íslensku, heimspeki og bókmenntafræði.

Haldið verður upp á opnun Unu útgáfuhúss í Mengi á Óðinsgötu næsta miðvikudag, 6. mars; kl. 20-22. Þar verður mikil dagskrá, til að mynda tónlistaratriði, upplestrar og kynning á forlaginu, og fljótandi veigar á boðstólnum. Lestrarklefinn mælir með að bókaunnendur og áhugamenn mæti, frítt er inn og allir velkomnir.

 

Við fengum að spyrja þau spjörunum úr og kynnast starfi þeirra betur. Nafn útgáfunnar finnst mér einstaklega fallegt, getið þið sagt okkur hvaðan það er sprottið?

„Nafnið er tenging við Unuhús á Garðastræti sem var mikilvægt athvarf róttækra skálda og listamanna í byrjun síðustu aldar og fram á stríðsár. Það er auðvitað ekki amalegt að tengja sig við þá miklu snillinga sem gengu um gólf eða þáðu gistingu hjá eigandanum Unu eða syni hennar Erlendi; en við erum ekki síður hrifin af þeirri róttækni og menningarbyltingu sem fylgdi þessum hópi listamanna. Síðar keypti Ragnar í Smára húsið og stofnaði þar bókaforlagið Helgafell. Halldór Laxness var til dæmis gefinn út af Helgafelli og var útgáfustaðurinn Unuhús. Svo það er fordæmi fyrir útgáfu undir þessu nafni.“

 

Einnig er gaman að því að kvenmannsnafn varð fyrir valinu.

„Sú hefð hefur skapast á Íslandi að nefna bókaforlög mannanöfnum, þá einna helst karlmannsnöfnum (t.d. Bjartur, JPV, Sæmundur, Benedikt og Örn og Örlygur). Við vildum gangast við þeirri hefð en frekar bæta við í flóru kvenmannsnafna (t.d. Iðunn, Björt, Salka).“

 

Una útgáfuhús hefur skýr markmið eins og má sjá á glæsilegri heimasíðu ykkar, þið megið endilega segja okkur nánar frá þeim.

Markmið okkar þríþætt. Við viljum skoða bókmenntasögu Íslands með augum nýrrar kynslóðar sem ef til vill sér eitthvað sem aðrir litu fram hjá. Í því samhengi höfuðm við til að mynda verið að lesa og ræða bókmenntir gleymdra kvenhöfunda, sem oft á tíðum fengu ekki þann hljómgrunn sem þær áttu skilið. Vonandi er kominn tími til að endurmeta slík verk. Svo eru það þýðingar á merkilegum erlendum bókmenntaverkum sem annars fá ekki brautargengi í markaðsdrifnu útgáfustarfi. Við stefnum að því að gefa út nýjar og vandaðar þýðingar á mikilvægum bókmenntaverkum og sú fyrsta er væntanleg á seinni hluta þessa árs. Við viljum líka endurútgefa góðar þýðingar sem hafa verið ófáanlegar í áraraðir. Að lokum stefnum við að virkri útgáfu nýrra skálda, hvort sem þau teljast ung eða eldri, og við vonum að þannig fái nýliðar á ritvellinum vettvang til að vinna verk sín í skapandi samstarfi.

Núna erum við með nokkur frambærileg verk á borðinu hjá okkur og erum að vega og meta hversu mikið bolmagn við höfum til útgáfu. En ég held að það sé öruggt að gera ráð fyrir nýju verki frá ungskáldi í ár og svo erum við að vinna að einskonar úrvali af textum ungra höfunda sem munu birtast saman í einni bók.

 

Af hverju varð Undir fána lýðveldisins fyrir valinu sem fyrsta útgefna bók forlagsins?

Í byrjun vildum við sjálf geta staðið með verkinu svo að nýr höfundur þyrfti ekki að svara til um nýtt forlag. Þessi fyrsta bók er enda gott dæmi um áherslur okkar við endurskoðun á bókmenntasögunni og leit að eldri verkum sem við teljum eiga erindi í dag. Við kynntumst þessum merkilegu endurminningum Hallgríms Hallgrímssonar við lestur á skáldsögunni Yfir Ebrófljótið eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur sem byggir á þeim. Við fundum svo frumútgáfuna í Kolaportinu og þegar við fórum að lesa hana varð okkur ljóst að sagan væri vel skrifuð, spennandi og skemmtileg. Auk þess talar frásögn Hallgríms sterkt inn í samtímann, þar sem við erum að verða vitni að uppgang fasisma og vinstri róttækni. Ef til vill er pólitík samtímans að stefna í sömu öfgar og réðu ríkjum á fjórða áratugnum.

Einnig reynum við að vanda til verka í rannsóknum, hönnun og kynningarstarfi. Við réðumst í mikla rannsókn á lífi og störfum Hallgríms Hallgrímssonar og segjum frá helstu niðurstöðum okkar í löngum eftirmála. Í raun náði Hallgrímur miklum tökum á okkur og við gátum eiginlega ekki hætt að púsla saman þessu áhugaverða lífi byltingarmanns úr fortíðinni. Auk þess að berjast í Spánarstríðinu þá var Hallgrímur ötull baráttumaður fyrir öreiga landsins. Hann var framtakssamur í verkalýðsbaráttunni, lærði í leynilegum skólum í Moskvu og var dæmdur fyrir landráð.

 

Aðstandendur forlagsins vilja koma þeim boðskap á framfæri að þau trúa á mátt og mikilvægi bókarinnar.

„Það virðist nær vera í tísku að spá fyrir um dauða bókarinnar en við Íslendingar, sem lifum og hrærumst í litlu menningarsvæði, verðum að trúa á mátt listforms sem leyfir einstaklingum að tjá sig án þess að þurfa sama framleiðslukostnað og t.d. kvikmyndir. Bókmenntir eru ennþá hagkvæmnasta og að okkar mati mest spennandi form skapandi tjáningar; og því er mikilvægt að til séu forlög sem rekin eru af hugsjón til þess að hleypa nýjum röddum að og til þess að gefa út bæði gleymdar og áður óþekktar frásagnir.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...