“Þið skiljið, hún átti alls ekki í nein önnur hús að venda”

Ég vara ykkur við strax, þetta verður löng umfjöllun.

Lolita eftir Vladimir Nabokov. Það er með hálfum huga að ég tók mér þessa bók í hönd. Hún hefur sveimað í kringum mig síðan þýðing Árna Óskarssonar kom út á Íslandi árið 2014 en þá var ég að vinna í bókabúð og gleypti í mig nánast allt sem gefið var út. Lolita hinsvegar sveimaði um, ólesin. Ég hafði séð myndina, þekkti því umfjöllunarefnið og einhvern veginn lagði ekki í lesturinn, fannst efnið höggva nærri móðurinni mér. Var ekki viss um að ég treysti mér í þetta ferðalag með Lolitu litlu, Lolitu sem er bara lítil stúlka í heimi sem birtist henni aldrei nema svartur og drungalegur, þar sem mannlegt eðli umhverfist í ógeð og geðveiki í sinni döprustu mynd.  Svo ég lét bókina eiga sig.

Gerði eins og því miður margir hafa gert í raunveruleikanum, snéri mér undan, þóttist ekki sjá og ekki vita. Það er nefnilega svo miklu auðveldara heldur en að horfast í augu við hvað mannskepnan getur verið grimm við sína eigin tegund, svo miklu auðveldara að horfa bara í hina áttina og losna við að þurfa að taka afstöðu, hvað þá að þurfa að grípa til aðgerða. Því miður er það svo að margir kjósa að sjá ekki neitt, vita ekki neitt og heyra ekki neitt.

Ef ekki hefði verið fyrir leshópinn sem ég er í hefði ég líklega aldrei kynnst Lolitu. Það er það góða við leshópa, bækur hafa tilhneiginu til að ryðja sér leið til okkar og heimta opinberun, leshópar eru kjörinn farvegur fyrir óhreinar bækur eins og Lolitu sem þurfa dagsljósið.  Bókina las ég tvisvar. Ég get kennt Hallgrími Helgasyni um það. Því þegar fyrstu yfirferð var lokið las ég eftirmálann sem Hallgrímur skrifaði í bókina og sá þá strax að ég yrði að lesa hana aftur og með öðru hugarfari. Lolita er nefnilega tvær bækur, annarsvegar sagan sem bókin segir og hinsvegar textinn sem er skrifaður og í þessari bók fer þetta tvennt engan veginn saman.

Þegar Nabokov fór af stað með þessa sögu fékk hann hana ekki birta. Það vildi ekkert forlag óhreinka sig á þessari bók. Það fór þó svo að forlagið Olympia Press gaf bókina út einhverjum árum eftir að Nabokov kláraði skrifin, en það forlag gaf út klámfengnar og djarfar bækur svo Lolita fékk á sig óhjákvæmlega þann stimpil að vera ódýr klámsaga. Sem hún er ekki.  Bókin skiptist í tvo hluta og fjallar um barnaníðinginn Humbert Humbert sem girnist stúlkubörn og nær að véla til sín Lolitu sem er á þrettánda ári.

Ég ætla ekki að fara djúpt í söguþráðinn, Humbert er níðingur, girnist stúlkubörn og kynnist konu. Konan á dóttur, Humbert giftist konunni til að koma höndum yfir dótturina og leggur á ráðin um að myrða nýbakaða eiginkonuna en áður en til þess kemur deyr konan í slysi. Heppilegt! Dóttirin Lolita er því ofurseld Humbert sem leggur af stað með hana í ferðalag til að forðast arm laganna og þær flækjur sem fylgja því að vera ekkill með annarra manna barn. Seinni hluti sögunnar segir frá ferðalagi þessa manns með þessu barni,  þar sem þau hrekjast frá einum stað til annars þar til Lolitu tekst að strjúka. Sagan er sögð frá sjónarhóli níðingsins sem eitt og sér er ákaflega áhugavert en jafnframt erfið áskorun fyrir lesandann. Því við erum því vön að fá aðeins sjónarhorn fórnarlambsins, það hefur alltaf þótt hið rétta sjónarhorn og auðvelt að taka afstöðu, finna til og þjappa sér á bakvið þann sem brotið er þannig á. Allavega í heimi bókanna. Raunveruleikinn er svo allt annar hlutur. Eins furðulegt og það kann að hljóma.  En ég skal reyna að halda mig við efnið. Útlit Humberts er einnig umhugsunarvert. Við höfum eflaust öll í huga okkar ákveðna ímynd af slíkum manni, ógeðfelldur karlmaður í hlýrabol með bert á milli og bumbuna út kemur strax upp í huga mér án þess að ég ætli að setja alla slíka karla undir sama hatt. Humbert er grannur, myndarlegur og velmenntaður maður. Með því gæti höfundur verið að vara okkur við, níðingarnir eru oft þeir sem síst skyldi.

Sjónarhornið kemur frá Humbert sjálfum og það kemur strax í ljós að Humbert er afar meðvitaður um sína kynferðislegu brenglun. Hann er uppfullur af sjálfsskömm og hatri í garð sjálfs síns og honum blöskrar oft hversu langt hann sjálfur er tilbúinn að ganga. Til að mynda þegar hann leggur á ráðin um að byrla Lolitu svefnlyfjum til að geta athafnað sig með hana án þess að þurfa að horfa upp á angistina í andliti hennar. Hann telur sjálfum sér trú um að þá megi í raun réttlæta brotin því hún sé þá ekki meðvituð um þá verknaði sem hann komi til með að fremja. Í raun má segja að brenglun hans geri það að verkum að hann fyrirlítur mannkynið, allt nema Lolitu sjálfa þó sumstaðar glitti í ásökun á hendur henni fyrir það eitt að vera til og hann gefur í skyn að oft hafi frumkvæðið verið hennar.

Hann veit að hann er að gera rangt. Hann veit hann verður dæmdur, bæði fyrir guði og mönnum fyrir verknað sinn og hann dæmir sig sjálfur einnig hart. En hann segir jafnframt að öðruvísi geti hann ekki verið, honum sé ekki sjálfrátt. Þarna er tvískinnungurinn, hann vill að við vitum að hann sé meðvitaður um sig sjálfan og sína glæpi, en læðir samt að okkur þessu „En samt…“ til þess að reyna að öðlast samúð lesandans . Og alltaf er undirliggjandi að hann hafi í raun ekki getað forðast þessar aðstæður, gott dæmi um það er sú mest áhrifaríkasta setning bókarinnar í lok fyrri hluta: „Þið skiljið, hún átti alls ekki í nein önnur hús að venda“.

Fyrri lestur minn á bókinni var örlítið á hundavaði. Ég las textann, fylltist viðbjóði á umfjöllunarefninu og því að höfundur skyldi hvergi taka afstöðu á móti Humbert. Hann stendur hjá hlutlaus og aðeins á örfáum stöðum og í afar fáum orðum er ýjað að þjáningu Lolitu. Annars sér lesandinn aldrei í hennar huga. Ég leyfði mér aldrei að dást að bókinni, hvernig er eiginlega hægt að dást að svo ljótri sögu? En svo las ég eftirmála Hallgríms Helgasonar og þar var setning sem ég tók til mín og gerði það að verkum að ég fletti upp á blaðsíðu eitt og byrjaði upp á nýtt, „það skiptir ekki máli um hvað maður skrifar heldur hvernig“. Og þetta er akkúrat málið! Þegar ég gat lagt hin svívirðulegu verk Humberts til hliðar og lesið orðin án þess að lesa beinlínis hvað þau sögðu þá varð ég dolfallin. Hvílík snilld, hvílíkar myndlíkingar og að til sé svona undurfagur texti um jafn ógeðslega hluti. Persónusköpunin, samtölin, allt er þetta svo listilega samansett að unun er að lesa. Nabokov er nítjándu aldar Rússi sem skrifar á ensku, spáið í því.  Bókin er ekki einu sinni skrifuð á móðurmáli höfundar.

Einhverjir hafa haldið því fram að í bókinni sé hægt að finna ádeilu á nýjan vestrænan heim sem var að mótast á þeim tíma sem bókin er skrifuð, ádeila austursins á vestrið. Ég setti mig ekki inn í þær kenningar, mér nægði textinn einn og sér og svo umfjöllunarefnið sem er sláandi og þungt og vekur upp reiði og viðbjóð á meðan textinn uppfyllir allar mínar þrár varðandi fegurð og stíl. Ég gæti sagt svo ótal meira, en ætla ekki að þreyta lesendur með enn meiri langloku, ég þakka fyrir ef einhver hreinlega nennir að lesa þetta.

Að lokum vil ég bara segja þetta, unnendur listrænna og ljóðrænna skáldsagna ættu engan veginn að láta þessa bók fram hjá sér fara. Hún á ekkert skylt við bíómyndirnar sem hafa verið gerðar eftir henni og í guðs bænum, ekki láta umfjöllunarefnið í bókinni hræða ykkur frá því að lesa. Munið, stundum skiptir nefnilega meira málið hvernig er skrifað en um hvað.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...