Óþægileg, náin og mögnuð ljóð um gangverk lífsins

Hönnun bókarinnar er til fyrirmyndar, bæði kápan en einnig uppsetning texta og myndskreytingar.

Þorvaldur S. Helgason rithöfundur og ljóðskáld sendi nýverið frá sér ljóðabókina Gangverk en fyrir handritið fékk hann nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þetta er önnur ljóðabók Þorvaldar en sú fyrsta Draumar á þvottasnúru kom út á vegum bókaútgáfu Partusar með það fyrir augum að koma nýjum ljóðskáldum fram á sjónarsviðið.

Það var einn grámyglulegan dag sem ég tók mér Gangverk í hönd og ég drakk hana í mig. Ljóðin eru yndisleg og nákvæm, náin og óþægileg, rómantísk og sorgleg. Þau fjalla um ástina, lífið og óþægilega nálægð Þorvaldar við dauðan en nafn bókarinnar vísar til hjartabilunar sem dró hann nánast til dauða á sextánda aldursári, þegar hann var á fyrsta ári í menntaskóla.

Allt verkið er til sóma; ekki bara textinn heldur líka hönnun og uppsetning bókarinnar en þemað er óhjákvæmlega gangverk lífsins; hjartað sem slær taktfast og gerir manni kleift að draga andann og ganga af stað.

Hjartað er ástin, hjartað er lífið, Hjartað er læknisfræðilegt undur

Í rauninni má skipta ljóðunum upp í þrjá flokka. Fyrst ber að nefna dagsettu ljóðin sem eru eins konar dagbókarfærslur í ljóðaformi þar sem lesandi skyggnist inn í líkama og líf manns sem ungur að árum glímir við hjartveiki.

Aldrei er ástin hins vegar langt undan en hjartað er ekki aðeins pumpandi lífsvél heldur einnig tákn ástarinnar og henni eru tileinkuð þau ljóð sem bera yfirheiti á borð við Jónsmessa, Heimkoma og Sundrun en ástarlíf sextán ára unglings er vitaskuld mjög hormónaríkt en einnig fallegt, rómantískt og fullt af hjartasorg. Fyrsta ástin; úff.

Ástarljóðum og dagbókarfærslunum er síðan blandað saman við tölusett ljóð sem öll lýsa á afar líffræðilegan og læknisfræðilegan hátt því sem gerist þegar ungur drengur hnígur niður og fær hjartastopp. Þau ljóð eru full af læknisfræðilegum orðaforða sem lesandi skilur auðvitað takmarkað en það breytir því samt ekki að ljóðin ná til lesandans og snerta streng í hjarta hans; augljóslega er ljóðmælandi mikið veikur og læknar og hjúkrunarfræðingar leggjast á árarnar til að draga hann lifandi í land.

Eftirmáli að handan

Í lok bókarinnar er síðan að finna eins konar eftirmála titlaðan Gáttaflökt en sá hluti er skipt í fjóra þætti. Ég skildi þennan hluta þannig að þarna væri ljóðmælandi að lýsa því sem fór í gegnum huga hans á meðan hann lá í hjartastoppinu; á meðan hann flökkti á milli gátta. Þarna fannst mér eins og lesandi fengi að skyggnast inn i það sem gæti hafa gerst handan lífsins. Ljóðmælandi sér sig á tíu ára fresti, frá fimm ára aldri þegar hjartagallinn byrjar að hafa áhrif og að lokum 35 ára þegar hjartagallinn hefur að lokum dregið hann til dauða.

Gangverk er magnað verk sem segir sögu ungs manns sem hefur upplifað meira en margur og hefur svo sannarlega sögur að segja. Ég hlakka til að lesa meira eftir Þorvald.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...