Fletta, fletta, fletta: Harðspjaldabækur

Eins og þið kannski vitið, þá er þetta ekki fyrsta færslan um harðspjaldabækur fyrir smábörn sem birtist hér á Lestrarklefanum. Áður hefur Erna fjallað um þá stóráhugaverðu bók Iggul Piggul og svo tónabækurnar. Ég get hins vegar fyrir mitt litla líf ekki skrifað stuttar bloggfærslur og því birti ég hér hvorki meira né minna en heildarúttekt á bókasafni barnsins míns. Að auki er þessi færsla almennt um það hvernig það er að „lesa“ með barni á þessum aldri og hvaða bækur okkur hefur þótt skemmtilegastar. (Og auðvitað eiga þessar bækur sér höfunda, teiknara og þýðendur, en í ljósi magnsins verða lesendur bara að ýta á tenglana til að fá þær mikilvægu upplýsingar)

Hvenær byrja börn eiginlega að hafa gaman af bókum? Svarið við þessu, eins og flestu öðru sem viðkemur umönnun og þörfum barna, vissi ég ekki áður en ég tók upp á því að eiga barn. Sem betur fer þá er ríkisvaldið viðbúið tilvist imba eins og mín, og heldur úti hinni ágætu síðu heilsuveru, sem ég skoða öðru hvoru til að kynna mér hvað sé í vændum á næstunni. Í kringum sjö mánaða aldurinn kíkti ég á síðuna og brá nú nokkuð í brún. Ég var hvorki meira né minna en HEILUM mánuði á eftir áætlun í því að byrja að skoða bækur með barninu og lesa fyrir það. Vikum saman hafði barnið þjáðst bókarlaust, og óvíst hvort sá skaði sem þroski þess hafði beðið yrði nokkurn tíma tekinn aftur. Svo maðurinn minn skundaði út í búð og náði í tvær ógurlega sætar harðsjaldabækur, Vini Einars Áskels og Emil: Ég er eins árs. Á sama tíma ákváðum við að kenna barninu að sofna sjálfu, og varð bókalesturinn hluti af hinni nýju rútínu. Í kannski tvær vikur var barnið mjög þægt og meðfærilegt meðan ég las þennan hálfkjánalega texta (almennt séð er textinn í harðspjaldabókum ekki á pari við myndirnar) fyrir ómálga hvítvoðunginn, sem horfði djúpt hugsi niður á bókina yfir allar undirhökurnar sínar.

Svo allt í einu byrjaði barnið að fletta eins og ótt væri. Mánuðum saman fletti barnið svo ört að ég rétt náði að kalla fram stikkorð inn á milli. Skeið! Bangsi! Snuð! Bolti! Bless, bless, bjánalegi texti. Öðru hvoru megin við eins árs afmælið varð hins vegar eitthvað þroskastökk. Það lýsti sér í því að barnið hætti að vilja tæta bækur foreldra sinna úr hillum og í tætlur, og fór að skoða sínar eigin í staðinn. Með öðrum orðum, bækur voru ekki lengur bara eitthvað til að fikta í, innihaldið var orðið áhugavert. Núna, í kringum 14 mánaða aldurinn, eru bækur með vinsælasta dótinu. Það á helst einhver fullorðinn að vera með í að skoða þær, til að svara athugulum og gáfulegum spurningum á borð við: gnhhii? (um leið og bent er á eitthvað á opnunni). Ég býst svo hálfvegis við því að seinna (í kringum 18 mánaða?) verði annað þroskastökk sem breyti því aftur hvernig við lesum þessar bækur saman.

Barninu finnst flestar bækur skemmtilegar, svo framarlega sem þær eru ekki of einhæfar. Bók sem er til dæmis bara með myndum af grænum hlutum, eða bara með myndum af voffum, er til dæmis ekki mjög áhugaverð. Það þarf líka oftast nær kannski þrjár atrennur að nýrri bók, áður en hún er „lesin“ í heild sinni. Börn þrífast jú á endurtekningu og elska kunnuglega hluti. Þar af leiðandi finnst mér mitt eigið álit á þessum bókum líka mjög mikilvægt, því það er jú ég sem þarf að skoða þessar bækur 3-5 sinnum á dag.

ggggg

Bókin Lóa ljón fer á fætur er til að mynda ekki nógu velheppnuð harðspjaldabók. Ég keypti hana að vísu eingöngu út af brúðuhandleggjunum sem skaga út úr bókinni, og það verður að segjast að þeir hafa þjónað sínum tilgangi. Barnið hefur gaman af því að opna bókina og láta strjúka á sér andlitið með þessum ljónaputtum. Af bókinni hefur það líka lært að ljónið segir ggggg. Þetta er því ágætis puttabrúða en slæm bók, gæti allt eins verið ein opna frekan en fjórar, eða hvað það nú er. Það er hrikalega erfitt að fletta svona brúðubók, og atburðarásin (ljónastelpan vaknar og fer í skólann) nær ekki í gegn til barnsins, og varla mín heldur, hvorki í texta né myndum. En ég meina, ggggg!

Hvolpar og kettlingar. Kát krútt, er bók sem var mjög heppileg á fyrra þroskaskeiðinu, en hefur hrapað í vinsældum á því seinna. Veldur það því líklega að hún var fyrst nógu einföld, en er núna of einföld. Myndirnar eru ósköp sætar og með skemmtilegri áferð fyrir barnið að pota í, en textinn er alveg glataður. 

Ég er eins árs: Dýrin er ein furðuleg bók. Í grunninn eru þetta ljósmyndir af dýrum sem hafa verið fótósjoppaðar inn á teiknaðan bakgrunn. Inn á hverja opnu er líka bætt allskonar teiknuðum hlutum, sól, heybagga og blómum sem líta út eins og harðsoðin egg sem hafa verið skorin í tvennt. Svo er það nú bangsi sjálfur sem vekur í mínum huga margar spurningar. Á bókasafninu hef ég séð að bangsi þessi eldist í öðrum bókum í flokknum, og fær þá t.d. mjög langa fótleggi. Hver opna er myndræn kakófónía, en eins og það sé ekki nóg þá eru blaðsíðurnar með götum, svo eitthvert snarruglað atriði af síðunni á undan og eftir gægist í gegn á hverri síðu. Fyrst var ég ekki frá því að barnið fengi jafn mikinn hausverk af þessu ritverki og ég, en svo féll það fyrir bókinni. Hún hefur þann ótvíræða kost að það er mjög auðvelt að hjálpa barni að fletta henni (og það er sko stundum ekkert grín að fletta harðsjaldabókum, ég tala nú ekki um ef síðurnar eru límdar saman með gömlu slefi). Að vísu er dindill til dæmis kallaður skott og bangsi er merktur rækilega á hverri opnu, ef foreldrar skyldu nú gleyma því hvaða fyrirbæri þetta er. Í bókinni eru líka tvær opnur sem sýna samtals tvær mismunandi andartegundir, gæs og álft, og barnið vill að sjálfsögðu fá að heyra mismunandi hljóð fyrir öll þessi dýr. Hvers eiga foreldrar að gjalda? En, ég er ekki frá því að þessi klikkaða bók hafi á endanum unnið mig á sitt band.

Kroppurinn og Tilfinningarnar. Á fyrra þroskaskeiðinu þá fannst barninu mínu þessar bækur leiðinlegar. Þetta sá ég á því að þeim var flett á ógnarhraða. Líklega voru þær bara of einhæfar þá, og lýstu of flóknum hlutum. Núna eru þær hins vegar ansi vinsælar, ekki síst það að herma eftir því sem krakkarnir á myndunum eru að gera. Ég held að með auknum þroska muni barnið halda áfram að uppgötva fleiri hluti í þessum bókum.

Söguaskjan mín. Þetta eru fjórar bækur sem koma saman í öskju, sem er ekki verra, því pappakassar eru líka prýðileg leikföng. Barnið er ansi hrifið af þessum bókum og myndirnar eru mjög sætar og henta vel til að benda og útskýra. Þær fá samt ekki toppeinkunn hjá mér. Bækurnar eru fjórar og hver bók er helguð einu afmörkuðu efni, baðferð, matartímum, leik og svefni. Hver bók fyrir sig verður því ansi endurtekningarsöm og segir ekki neina sögu. Þetta eru ekki bækur sem ég myndi kjósa að lesa fimm sinnum á dag, en tjahh, ég geri það nú samt. 

Þá kýs ég nú heldur bókina um hérann Emil í Ég er eins árs. Þetta var fyrsta bókin sem við lásum fyrir barnið, og hún er okkur því sérstaklega kær. Myndirnar eru með því sætara sem gerist, og bókin hefur þolað síendurtekinn lestur hjá barni og foreldrum í 7 mánuði núna. Ég get líka sagt ykkur það, að þessi bók er fullkomin lýsing á lífi eins árs barns. Textinn er að vísu frekar kjánalegur, en það er ekki erfitt að búa til annan texta. (Ég meina, það er eðlilegra að segja „Emil er í baði“, frekar en „dropar detta!“ er það ekki?)

Einar Áskell. Það er hægt að kaupa tvær harðspjaldabækur um Einar Áskel og við eigum þær báðar. Samt erum við foreldrarnir ekki með neina nostalgíu fyrir þessari persónu, þær eru bara mjög fallegar. Af þeim mörgu aðlögunum á þekktum bókaseríum fyrir eldri börn, þá er þessi harðspjaldatilraun með þeim betri að mínu mati, að því leyti að ég gæti trúað að þær vaxi vel með barninu og brúi auðveldlega bilið yfir í alvöru Einars Áskels bækur (sem eru engu að síður hvergi fáanlegar nema á bókasöfnum, því miður).

Í skóginum stóð kofi einn. Þetta er mjög heillandi bók, sem ég hélt kannski að væri of flókin fyrir eins árs gamalt barn. Hún er nokkuð löng, er í bundnu máli, og það mætti kalla hana póst-módernískt tvist á hinu þekkta barnalagi með sama titli. Þrívídd, leikur með ljós og skugga og allskonar frábær smáatriði leika síðan stórt hlutverk í teikningunum. En nei, eins árs barn gefur bara mjög gaman af því að fletta þessari bók á meðan ofureinfaldaður söguþráður er leiklesinn á tilþrifamikinn hátt. Öll dýptin í bókinni kemur í veg fyrir að ég verði geðveik á þessari iðju og ég hlakka til þegar barnið mitt fer að skilja meira í henni, því ég veit að hún á eftir að eldast vel.

Á toppi okkar mikla bókasafns tróna síðan hinar rómuðu og víðfrægu flipabækur frá Angústúru. Þá fyrstu, Hvernig sefur þú, fékk barnið í jólagjöf. Hinar tvær, Hvað ert þú að gera? Og Vikan mín, hreinlega varð ég að kaupa á Bókamarkaðinum í Laugardal. (Ásamt um það bil 14 öðrum bókum fyrir barnið, sem sumar þurfa víst að bíða til sirka 8 ára aldurs, en æh, þið vitið, það er ekki hægt að láta svona mál reka á reiðanum.) Fyrsta bókin hafði strax orðið vinsæl en hinar tvær bættust við safnið okkar mjög skömmu eftir þetta þroskastökk sem ég minntist á hérna í upphafi. Og það varð bara eitthvað skammhlaup í heilanum á barninu. Þar sem bækurnar eru viðkvæmar fyrir hnjaski eru þær geymdar utan seilingarfjarlægðar, en ég var farin að velta fyrir mér að fela þær jafnvel einhvers staðar. Því í næstum því heila viku gerðum við ekki annað en skoða þær aftur og aftur, og ef ég reyndi að beina athyglinni eitthvert annað, þá brast á með öskurgráti. Sem betur fer hefur eitthvert jafnvægi komist á núna, en það fer ekki á milli mála að þetta eru dásamlegar bækur. Hvílikir litir, hvílíkt hugvit, hvílíkt prentverk! Meira að segja textinn er góður, þó ég lesi hann sjaldan réttan, því mér finnst hann enn of flókinn fyrir 14 mánaða barn. En þessar bækur eru ekkert annað en listaverk, og þegar þær verða endanlega dottnar í sundur (því þrátt fyrir allar varrúðarráðstafanir þá er ég hrædd um að ýmis dýr hafi misst höfuðið) þá kaupi ég þær örugglega bara aftur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...