Súrrealískt líf Elínar í kassa og utan hans

Kápan vísar til pottaplantna í lífi Elínar en einnig til dularfullrar plöntu sem vex án róta á bak við sjónvarpið hennar.

 

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur er ein þeirra íslensku bóka sem tilnefndar eru til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs þetta árið. Bókin kom út jólin 2017 og fékk frábærar viðtökur, enda ekki skrýtið þar sem bókin er fanta vel skrifuð.

Sagan flakkar dálítið fram og tilbaka í tíma og segir í grunninn frá lífi Elínar sem vinnur við að búa til leikmuni fyrir leikhús og kvikmyndir. Þrír kassar raska ró og lífi Elínar en einn þeirra inniheldur ýmsa muni úr hennar fortíð; Kassinn er merktur Elín, ýmislegt og þar með hefst upprifjun á lífskeiði hennar og lýsing á lífi hennar nú.

Súrrealískt líf jaðar sálna

Líf Elínar er markað af missi og sorg, misnotkun og blekkingum. Alin upp af ömmu sinni, hárkollugerðarmeistara, upplifir Elín heimilislíf sem flestir jafnaldrar hennar þekkja ekki, þar sem allt snýst um nákvæmni hárkollurgerðar og leikhús. Svo virðist sem móðir Elínar hafi látið lífið á vofeiglegan hátt, jafnvel af ofneyslu lyfja. Í rauninni er sagan öll fremur súrrealísk að því leiti að Kristín snýr stanslaust upp á söguþráðinn og lætur Elínu, og Ellen ef út í það er farið, ganga í gegnum allan andskotann. Alltaf þegar lesandi heldur að hann hafi komist inn að kjarna persónunnar þá kemur eitthvað nýtt í ljós; eitthvað nýtt og absúrd sem enginn gæti ímyndað sér. Elín er aðeins ein aðalpersóna bókarinnar.

Hin er Ellen Álfsdóttir, ungt leikskáld sem reynir að feta í fótspor látins föður síns sem var frægur rithöfundur. Móðir hennar er geðveik og í rauninni virðist Ellen hafa verið fremur einangruð frá raunveruleikanum, umheiminum og eðlilegu líferni. Hún elur sig upp sjálf og lifir eftir því. Frumraun hennar í leikritagerð fær mikla athygli og er hún sögð næsti Pinter af leikstjóra og leikurum sem setja verk hennar upp. Saga beggja persónanna, Elínar og Ellenar, blandast síðan saman og heimar þeirra mætast í undarlegri fortíð og fallegri og jafnvel náinni framtíð, ef ég sem lesandi túlka samband þeirra rétt. Atburðarrásins vindur síðan upp á sig og tvær aðalpersónur bókarinnar koma manni sífellt á óvart; bæði saga þeirra, minningar og gjörðir.

Listaverk, gjörningur, eitthvað alveg nýtt

Í gegnum textan skín í gegn að Kristín sjálf er myndlistarmenntuð en lýsingarnar hennar eru einstaklega myndrænar og ég upplifði í rauninni textann á þann veg að ég væri að horfa á myndlistarverk í sköpun, einhverskonar gjörning. Það er þessi ljóðræna í textanum sem stendur upp úr að mínu mati. Ég elskaði að lesa þessa bók; hún er listaverk. Ekki aðeins góður prósi, sem þó er heldur betur vinna og afrek að ná að gera, heldur listaverk. Ég sá fyrir mér persónur og leikendur og fannst ég þekkja þær.

Elín, ýmislegt er að mínu mati tímamótaverk en ég hafði aldrei áður lesið neina skáldsögu líka þessari. Þetta er VERK með stórum stöfum og ég held að hún eigi ansi góða möguleika að hreppa stóra hnossið þann 1. nóvember næstkomandi.

 

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...