Rithöfundar vs. útgefendur á bókmenntahátíð

Katrín Lilja

“Það er gaman að fá útrás í sporti og merkilegt hve margir höfundar landsins voru til í að taka þátt,” segir Börkur Gunnarsson, rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri, sem ásamt nokkrum öðrum skipulagði fótboltaleik milli rithöfunda og útgefenda í óopinberri dagskrá á bókmenntahátíðinni í Reykjavík í dag. “Þetta er náttúrulega gert í gleði yfir hátíðina,” segir Börkur. Hann segir að stemmningin á leiknum hafi verið góð. “Það er skemmtilegur derringur að keppa við útgefendur. Við erum samherjar venjulega, en það er stundum gott að bíta hendina sem fæðir mann.” Ekki síður hafi rithöfundum, sem annars þurfi að sitja langtímum saman við vinnuna þótt gott og gaman að standa upp og reyna sig á vellinum. “Rithöfundar sitja allan daginn og það gengur allt út á að standa ekki upp frá skrifborðinu og þetta er hressandi tilbreyting frá tali um texta á bókmenntahátíð.”

Í liði rithöfunda voru Jón Kalmann (“Það kom á óvart hve lipur hann var á vellinum,” segir Börkur), Einar Kárason, Halla Gunnarsdóttir, Heiðrún Ólafsdóttir, Davíð Stefánsson, Eydís Blöndal (“Sem var eiginlega okkar besti maður”), Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Friðgeir Einarsson, Hjalti Halldórsson, Jón Yngvi Jóhansson og Börkur Gunnarsson.

Í liði útgefnenda voru starfsmenn frá forlögunum Bjarti Veröld, Forlaginu og Sölku; Arnar Gunnarsson, Páll Valsson, Egill Örn Jóhannsson, Pétur Már Ólafsson, Guðrún Norðfjörð, Ragna Lóa Stefánsdóttir, Anna Lea Friðriksdóttir, Dögg Hjartalín og Heiðar Ingi Svansson.

Leikurinn var æsispennandi og endaði 4-3 útgefendum í vil. Það er óhætt að segja að rithöfundar og útgefendur hafi sýnt góða takta á vellinum og fóru sumir heim skrámaðir. Börkur segir í gamni að nokkur kergja hafi verið í liði rithöfunda eftir leikinn. “Það er frekar leiðinlegt að kapítalistar vinni alltaf allt.”

Myndir eru fengnar frá Sigríði Hagalín, rithöfundi og fréttakonu, og Sigrþrúði Silju Gunnarsdóttur, ritstjóra.