Frá 1854 til 1929 voru um 200 þúsund munaðarlaus, heimilislaus og misnotuð börn send með lest frá austurströnd Bandaríkjanna til miðvesturríkjanna í von um að ríkið gæti fundið þeim betra heimili. Í sumum tilfellum öðluðust börnin, sérstaklega þau ungu, ástríkt heimili, en mörg af þeim eldri voru nýtt sem ódýrt vinnuafl og lentu í afar erfiðum aðstæðum. Þetta er gleymdur, en engu að síður mikilvægur, hluti Bandaríkjasögu sem ég hafði ekki heyrt um fyrr en við lestur bókarinnar Orphan Train eftir Christina Baker Kline.

Bókin er söguleg skáldsaga sem fjallar um tvær konur, unglinginn Molly sem hefur átt erfitt uppdráttar og býr hjá fósturforeldrum sem henni kemur ekki vel saman við og ekkjuna Vivian, níræða konu sem býr ein í stóru húsi í sama bæ og Molly. Leiðir þeirra liggja saman þegar Molly brýtur af sér og þarf að sinna samfélagsþjónustu til að forðast verri afleiðingar. Á sama tíma þarfnast Vivian aðstoðar við að fara í gegnum kassa á háaloftinu sínu sem bera að geyma minjar um lífshlaup hennar. Í ljós kemur að Vivian var ein af þessum börnum sem send var með munaðarleysingjalestunum og að konurnar tvær eiga meira sameiginlegt en virðist í fyrstu.

Christina Baker Kline

Bókin er fimmta skáldsaga Kline, hún kom út árið 2013 og varð fljótt metsölubók sem hlaut góðar viðtökur. Hún byggir á mikilli rannsóknarvinnu sem er augljóst í því hversu sannfærandi saga aðalpersónunnar Vivian er. Eins og aðrir gagnrýnendur get ég þó tekið undir það að saga hennar er áhugaverðari og persónusköpunin betri en hjá unglinginum Molly. Hlutverk Molly í sögunni er fyrst og fremst að vekja athygli á þessum kafla í lífi Vivian og því hefur ekki verið lagt jafn mikið í persónusköpun Molly. Aukapersónur sem tengdust lífi Molly voru heldur ekki nógu vel þróaðar, ber þar sérstaklega að nefna fósturmóður hennar sem var á móti öllu í lífsstíl Molly; samskipti þeirra voru mjög svört og hvít sem var afar ótrúverðugt.

Þrátt fyrir að vera ekki gallalaus var ég mjög hrifin af bókinni, þó að um erfitt lífshlaup væri að ræða naut ég þess mjög að lesa hana. Þetta er falleg saga um samband tveggja einstaklinga sem hafa átt erfitt, en ná að tengjast og halda áfram með líf sitt þrátt fyrir erfiðleika. Bókin fór hægt af stað en náði mér algjörlega undir lokin þannig að ég var hálf leið þegar hún kláraðist. Ég lánaði svo lestrarhestinum móður minni bókina sem las hana í einum rykk og er að reyna að ákveða hverjum hún eigi að lána hana næst, systur minni eða ömmu.

 

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...