Noregur og New York?

Í Uppljóstrararnum eftir Jan-Erik Fjell, í þýðingu Herdísar Magneu Hübner, er tengdur saman margra áratuga gamall glæpur í New York og glæpur framinn í Fredrikstad í Noregi nútímans. Anton Brekke, aðstoðarvarðstjóri hjá rannsóknarlögreglunni, er fenginn til að rannaka morðið á Wilhelm Martiniussen, moldríkum forstjóra fyrirtækisins Mardan. Martiniussen er kyrktur með píanóvír strax í byrjun bókarinnar. Brekke lendir þó fljótlega í vandræðum við lausn málsins, þar sem Martiniussen var elskaður af nær öllum samstarfsfélögum sínum. Að auki gaf hann ríflega af auðæfum sínum til alls konar góðgerðarsamtaka og var þar að auki að vakna til meðvitundar um umhverfisvernd og beita völdum sínum til góðs í þeim málum. Hann átti því enga óvini sem vildu honum illt, þótt Fjell takist að sá efasemdafræjum um það í huga lesandans.

Inn í söguna fléttast svo ítalska mafían í New York árið 1968, langt aftur úr fortíð. Lengi vel er tengingin óljós, en svo nær Fjell að leiða lesandan hægt og rólega að sannleikanum og fléttan kom vel á óvart. Það var örlítið eins og Fjell hafi viljað skrifa heila skáldsögu um óhemjuverk ítölsku mafíunnar, en ekki lagt í að skrifa heila skáldsögu sem gerist svo langt frá heimahögunum. Hann nær á skemmtilegan hátt að flétta ítölsku mafíuna yfir til Noregs nútímans.

Anton Brekke er sérstök persóna. Hann er hvorki mjög drykkfelldur né mjög þunglyndur, þótt hann sé rannsóknarlögreglumaður í glæpasögu. Hann glímir þó við fíkn í fjárhættuspil. Hann og hinn ákafi Magnus Torp, lögreglunemi, gera sitt besta til að leysa málið. Brekke er örlítið meinhæðinn persóna. Það er sjaldan langt í hvassa brandara og fyndnar athugasemdir. Útkoman af samskiptum Torp og Brekke verður fyndin á stundum og andrúmloftið í bókinni er létt og leikandi, en ekki þrungið rigningu og drunga. Að sama skapi er bókin ekkert of spennandi og hélt mér illa. Hún er engu að síður fínasta tilbreyting frá hinum betur þekktu skandinavísku glæpasögum þar sem allt er kaldranalegt.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...