Í páskafríinu sem leið kláraði ég alveg magnaða bók. Það var svo sem ekkert leyndarmál. Bókin Hús andanna er löngu orðin klassískt verk og hefur lengi verið á lestrarlistanum mínum. Eftir að hafa lesið Þúsund ára einsemd eftir Gabriel García Márquez á menntaskólaárum varð ég hrifinn af töfraraunsæinu sem birtist í bókum hans og líka bókum Isabel Allende.

Skáldsögur sem flokkast undir töfraraunsæi megna að spegla samfélagið og gagnrýna það líkt og raunsæisbókmenntir gera gjarnan en á sama tíma eru töfrar eða yfirnáttúrulegir hlutir ofurvenjulegur hluti af veruleika þessara sagna svo hið óvænta er aldrei langt undan. Það er dálítið eins og að lesa blending af Sjálfstæðu fólki og Ljóninu, norninni og skápnumog eins skringilega og sú samsuða hljómar þá svínvirkar þetta.

 

Trueba ættin og saga þeirra

Bókin er ættarsaga Trueba-ættarinnar og þá aðallega fjölskylduföðursins Estebans. Hún segir frá því hvernig hann rífur sig upp úr sárri fátækt og breytir löngu gleymdu ættaróðali í blómlegasta og gjöfulasta býli sveitarinnar, verður auðjöfur, þingmaður og margt fleira. Inn í frásögnina fléttast sögur fjölskyldumeðlima hans og ættmenna og þar kynnist maður virkilega litríkum persónum.

Sagan fjallar þó ekki aðeins og persónur hennar og leikendur heldur er hún gegnsýrð af pólitík. Fjallað er um upprisu sósíalisma í landinu og valdarán herforingjastjórnar og þá hræðilegu hluti sem manneskjur geta gert þegar þær fá óheft vald yfir öðrum. Hugmyndafræði kapítalisma og sósíalisma eru í sífelldum átökum gegnum verkið og þá er fjallað um stéttaskiptingu, trúfrelsi og kynfrelsi á nokkuð framsækinn hátt miðað við að bókin kom út í byrjun níunda áratugarins.

Yfirfullur og skrautlegur stíll

Stíll bókarinnar er gríðarlega skrautlegur. Sagan er sögð á skemmtilegan og ítarlegan hátt en þó er engu ofaukið. Við lesturinn hugsaði ég að einmitt svona myndi manneskja hljóma sem væri nýkomin úr einangrun frá mannlegu samfélagi, úr mánaðarvakt sem vitavörður eða eitthvað.

Frásögnin flæðir þannig áfram, yfirfull og rík af sagnagleði og hæfir efni bókarinnar mjög vel. Á endanum stendur bókin algjörlega undir þeim væntingum sem ég hafði til hennar. Hún er fyndin, skemmtileg, spennandi, hræðileg og allt þar á milli. Hún fær mann til að hugsa um heiminn aðeins öðruvísi heldur en maður gerði fyrir lestur hennar og er í ofanálag stórgóð skemmtun – en það finnst mér alls ekki sjálfgefið þegar um heimsbókmenntir eru að ræða.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...