Styrkur við framhaldssögur áberandi í fyrstu úthlutun Auðar

Úthlutað var úr nýjum barna- og ungmennabókasjóði 21. maí. Sjóðurinn hefur fengið nafnið Auður og er ætlað að styrkja útgáfu vandaðs efnis fyrir yngri lesendur. Stofnun sjóðisin er liður í aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaraðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um eflingu íslenskunnar. „Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að efla læsi í landinu til framtíðar er að standa vörð um tungumálið okkar og tryggja aðgengi barna og ungmenna að bókum við þeirra hæfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir af því tilefni.

Í fyrstu úthlutun sjóðins eru framhaldssögur nokkuð áberandi, eða sögur sem eru hluti af seríu. Þar má til dæmis sjá framhald við NærbuxnaverksmiðjunaLjóniðRandalín og MundaÞriggja heima sögu, og Langelstur-bækurnar svo eitthvað sé nefnt. Úthlutunin virðist ná til bóka sem henta öllum aldurshópum. Lestrarklefinn fagnar þessum nýja sjóði

Á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að ein kveikjan að stofnun sjóðsins hafi verið ábending frá ötulum hópi ungra lesenda sem buðu mennta- og menningarmálaráðherra á málþing bókaráðs Hagaskóla í fyrravetur. Þar hafi meðal annars mikið verið rætt um skort á unglingabókum á íslensku. Í síðasta jólabókaflóði voru unglingabækur á íslensku í miklum minnihluta.

Sjóðurinn er hýstur hjá Miðstöð íslenskra bókmennta sem sér alfarið um rekstur hans. Sótt var um styrki til útgáfu 60 bóka en þær 20 sem dómnefnd valdi að þessu sinni eru af ýmsu tagi, allt frá myndskreyttum smábarnabókum upp í langar textabækur fyrir ungmenni. Styrkirnir nema frá 250-500 þúsund kr. hver.

Ákveðið var að gefa sjóðnum nafn sem væri lýsandi fyrir hlutverk hans og tilgang. Fyrir valinu varð nafnið Auður. „Auður er nafn sem felur í sér ýmsar vísanir,“ sagði mennta- og menningarmálaráðherra í ræðu við úthlutun úr sjóðnum, „í okkar hugum vísar Auður til hins raunverulega ríkidæmis þjóðarinnar og eins mesta fjársjóðs hennar, bókmenntanna.”

Fyrstu styrkþegar úr sjóðnum eru:

  • Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur
  • Húsið í september (vinnutitill) eftir Hilmar Örn Óskarsson
  • Þriggja heima saga #5 (titill ókominn) eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson, myndhöfundur Bergrún Íris Sævarsdóttir
  • Kopareggið eftir Sigrúnu Eldjárn. Útgefandi
  • Ungfrú fótbolti 1980 (vinnuheiti) eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
  • Veröld vættanna – Bergrisinn vaknar eftir Margréti Tryggvadóttur, myndhöfundar M74. Studio (Guðmundur Bernharð og Silvia Pérez)
  • Nei, nei, nei! eftir Birtu Þrastardóttur
  • Randalín, Mundi og leyndarmálið eftir Þórdísi Gísladóttur, myndhöfundur Þórarinn M. Baldursson
  • Nornasaga eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur
  • Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur
  • Nærbuxnaverksmiðjan 2 eftir Arndísi Þórarinsdóttur, myndhöfundur er Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson
  • Miðbæjarrottan eftir Auði Þórhallsdóttur
  • Vigdís F. eftir Rán Flygenring
  • Hvíti ásinn eftir Jóhönnu Sveinsdóttur
  • Langelstur að eilífu Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur
  • Álfarannsóknin eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur, myndhöfundur er Elín Elísabet Einarsdóttir
  • Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
  • Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason
  • Ys og þys út af … ÖLLU! eftir Hjalta Halldórsson
  • Leitin að vorinu (vinnuheiti) eftir Sigrúnu Elíasdóttur, myndhöfundur Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson

Af þessum lista er ljóst að mikils er að vænta í barnabókaútgáfu á næstu misserum. Lestrarklefinn óskar styrkþegum til hamingju.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...