Þegar baunin festist í nefinu og amma grenjaði úr hlátri

Amma á 77 ára afmælisdaginn 2015.

Ég hef alltaf verið mikil ömmustelpa. Amma mín var eins og mamma mín. Hún er núna dáin blessunin. Hún kenndi mér margt; söngva, að drekka kaffi og meira að segja reikning. En það er ein minning sem stendur upp úr. Í tilefni af barnabókamánuði Lestrarklefans, þennan ljúfa júní, þá ætla ég að rifja upp eina af mínum uppáhaldssögum en sú saga tengist ömmu minni órjúfanlegum böndum.

Amma las mikið fyrir mig, meira að segja þegar ég var komin langt yfir unglingsárin. Þá áttum við það til að leggjast upp í rúm, kúra saman, spjalla og amma las einhverja sögu og svo dottuðum við.  Sögurnar um Maddit og Betu eftir Astrid nokkra Lindgren voru í sérstöku uppáhaldi enda er það einkenni góðra barnabóka að þær eru jafnt fyrir börn sem fullorðna.

 

Grenjað úr hlátri

Ég gleymi því aldrei þegar hún las Maddit og Betu í fyrsta sinn. Ætli ég hafi ekki verið fimm ára. Hún tók upp stóra og rauða Lindgren safnið og valdi söguna um Betu, þegar hún festi baunina upp í nefinu á sér. Í stuttu máli sagt, fyrir þá sem lásu ekki sögurnar um Maddit og Betu, þá er Beta yngri systir hinar uppátækjasömu Maddit sem er alltaf að koma sér í hverskyns bobba. Þær systur eiga í fallegu systrasambandi og taka upp á ýmsu. Í þessari sögu festir ljúflingurinn Beta baun upp í nefinu á sér og móðir þeirra systra felur Maddit það að fara með hana til læknis. Þær lenda í ýmsum ævintýrum og aumingja Beta er dauðhrædd um að baunin ílengist í nefinu og að baunagras fari að vaxa út. Maddit ýtir auðvitað undir þá vitleysu eins og almennilegri systur sæmir.

Það er mér svo einstkalega minnistætt þegar amma las þennan part bókarinnar; þegar Beta er að taugaveiklast yfir baunagrasinu sem mun á hverri stundu þrykkjast út úr nösinni á henni. Amma mín sáluga skemmti sér svo vel við lesturinn að hún fékk algjört hláturskast. Hún hló og hló og hló og gat með engu móti haldið áfram með lesturinn. Síðan byrjaði hún allt í einu að grenja úr hlátri. Ég, fimm ára, skildi ekki alveg hvað var í gangi og spurði ömmu, alvarleg á svip, hvort það væri ekki allt í lagi. Hún þyrfti ekki að gráta svona; hún Beta myndi örugglega losna við baunina úr nefinu og að þetta myndi allt enda vel. Ég hélt sem sagt að amma væri að gráta af sorg. Þá hló amma ennþá hærra og útskyrði fyrir mér að hún væri ekki að gráta vegna þess að henni liði illa heldur vegna þess að henni fyndist þetta vera svo fyndið.

Eftir þetta þá lásum við þessa sögu reglulega. Ætli ég hafi ekki verið orðin um tvítugt þegar við lásum hana síðast og alltaf hlógum við jafn mikið að greyinu henni Betu. Barnabækur eru allskonar en góðar sögur þær skapa minningar. Þessi gerði það svo sannarlega og ég hugsa með hlýju til ömmu, Maddit og Betu þegar ég þurrka af stóra, rauða Lindgren safninu sem nú situr í bókahillunni minni. Ég hlakka til að lesa þessar sögur fyrir Silfá mína.

Og allir lifðu hamingjusamir til æviloka.

Endir.

Amma mín og ég á brúðkaupsdaginn okkar Sigurþórs árið 2014

 

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...