Ævintýraheimar mætast í stórkostlegri Tímakistu Andra Snæs

Ótrúlega falleg kápa hér á ferð! Mjög lýsandi fyrir bókina og innihald hennar. Ég mun lesa þessa aftur, það er klárt mál.

Það sigrar enginn heiminn sem ekki getur sigrað tímann.
Brot úr Tímakistunni eftir Andra Snæ Magnason

Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason er frábær ævintýrabók fyrir unga sem aldna. Hún tekur á mjög mikilvægu málefni; græðgi og tímaeyðslu. Í hvað eyðum við tíma okkar? Hvernig nýtum við tímann og hvað ef okkur byðist að hraðspóla yfir leiðinlegu stundirnar og upplifa bara ljúfa lífið?

Bókin segir frá Sigrúnu sem býr í samfélagi sem flýr inn í tímakistur til að þurfa ekki að upplifa krepputíma og óvissu, leiðindi og harðindi. Einn daginn bilar tímakista Sigrúnar og hún uppgötvar að mörg ár eru liðin frá kreppu og enn eru allir í kössunum sínum óáreittir. Ekkert líf er í landinu, að undanskildu dýralífi sem blómstrar loksins þegar mannskepnan hefur sleppt heljatökum sínum á náttúrunni. Hún finnur síðan hóp barna sem aðhefst hjá gamalli konu sem segir þeim sögu tímakistunnar og sögu þess þjóðfélags sem var.

Saga úr mörgum áttum

Sagan sem konan segir er um hina upprunalegu tímakistu sem ofin var af dvergum úr köngulóarvef. Í henni var Hrafntinna prinsessa geymd fyrir tilstilli föður síns, konungsins Dímons af Pangeu. Þetta gerði hann til að missa hana ekki frá sér, halda henni ungri og lifandi á meðan að hann sigraði heiminn. En örlögin grípa fljótt í taumana og leiða prinsessuna út fyrir kistuna þar sem trúarofstæki, vondir galdrakarlar og kerlingar hafa heilaþvegið mann og annan.

Stórt og mikið ævintýri

Eins og sjá má er um mikilfenglegt ævintýri að ræða og Andri þræðir saman söguheima allt frá Grimmsævintýrunum um Mjallhvíti til heimssögunnar um uppruna jarðarinnar og landanna eins og við þekkjum þau í dag. Þetta var ótrúlega mögnuð lesning og ég mæli hiklaust með þessari sögu fyrir ævintýranörda eins og mig.

Ég velti því jafnframt fyrir mér hvernig það er að vera Andri Snær og vera með huga fullan af þessum ótrúlegu hugmyndum. Að láta sér detta þessi sagnaheimur í hug er hreint út sagt yfirþyrmandi; hann lætur þessa risastóru sögu virka. Auðveldlega væri hægt að klúðra henni enda er hún mjög mikil að stærð og innihaldi; uppfull af hliðarsögum og allskyns persónum. Þetta er djúp bók í anda fyrri bóka Andra sem leiðir saman skemmtilegar persónur og djúpan boðskap. Ég held að þessi bók muni alltaf eiga erindi, svo lengi sem mannkynið heldur áfram á þessari sömu braut náttúrutortímingar og kapphlaupi við tímann.

Frábær lesning!

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...