Sverrir Norland sendi frá sér fimm bækur í bókaknippi fyrir síðustu jól. Ef hægt er að súmmera fimm bækur í nokkur orð, þá má segja að þær séu “ástarbréf til íslenskunnar”. Í bókanippinu er ein ljóðabók, eitt smásagnasafn og þrjár skáldsögur í hæfilegri lengd (og undirtitillinn á skáldsögunum er alltaf “í hæfilegri lengd”, því stundum þarf maður bara skáldsögu í hæfilegri lengd). Stíll Sverris er skemmtilegur og auðlesinn og það er augljóst að hann ber mikla ást í brjósti til íslenskunnar en mér fannst líka gæta angurværðar. Eins og höfundi ói fyrir því hvert stefni, hvað er að verða að íslenskunni hjá hinni íslensku örþjóð. Á sama tíma og bækurnar fimm eru ástaróður til vors ástkæra og ylhýra eru þær líka áminning um að hraði samfélagsins sé orðinn allt of mikill.

Að velja úr fimm

Þegar maður fær fimm bækur í hendurnar er úr vöndu að velja. Er best að byrja á þykkustu bókinni og vinna sig svo niður, eða á að byrja á þynnstu og vinna sig svo upp? Eftir miklar vangaveltur varð úr ráðið að byrja á að lesa ljóðabókina Erfðaskrá á útdauðu tungumáli, sem er jafnframt þynnsta bókin, og varð hún inngangur minn í skrif Sverris. Ljóðin eru skrifuð á persónulegan og gamansaman hátt. Þau eru innileg, einföld og flókin en fyrst og fremst snerta þau streng í brjósti þess sem ber hag íslenskunnar í hjarta sér. Sverrir yrkir um reynslu sína sem Íslendingur í öðru landi, hvernig það er að eignast barn og um kött á glugga. Ljóðin töluðu til mín á sterkari hátt en nokkur önnur ljóðabók hefur náð að gera.

Næst var smásagnasafnið Heimafólk á leslistanum þar sem Sverrir blandar saman íslenskum og erlendum raunveruleika. Titilsaga safnsins, um föður og son á leið út að borða í Reykjavík yfirfullri af ferðamönnum, var í senn sorgleg en spaugileg og endurspeglar viðhorf svo margra Íslendinga sem þráast á móti breytingum en fangar líka fullkomlega tilfinningu þess sem hefur flutt á brott frá Íslandi og er í stuttu stoppi. Líklega hitti sagan Kokteilbarinn mest í mark hjá mér. Á örfáum blaðsíðum nær Sverrir að fanga það hvernig það er að fara út eftir að barn kemur í heiminn og riðlar algjörlega veröld foreldranna.

Manneskjusafnið, með undirtitilinn “skáldsaga í hæfilegri lengd”, segir frá ólíkum tvíburum. Hinum íþrótthneigða og hinum listhneigða. Einhvern veginn gaf byrjun sögunnar fyrirheit um tvíburastríð, en svo varð ekki. Mismunandi fegurð er umfjöllunarefni sögunnar, sem minnti mig á töfraraunsæi suður-amerískra bókmennta.

Skáldsagan Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst segir frá ungskáldum í Reykjavík sem öll heillast af ljóðabók, sem einmitt ber sama nafn og bókin, skrifaðri af miðaldra Breiðhyltingi með ístru. Við það eitt að lesa bókina fyllist unga fólkið eldimóði og skáldakrafti og byrjar að skrifa hvert ljóðið á eftir öðru. Háskólafólkið myndar skáldahóp og hyggst bjarga íslenskum bókmenntum. Þau lifa hinu óhefta lífi ungra háskólanema, stunda kröftugt kynlíf hvort við annað og skrifa ljóð og smásögur og ætla sér að breyta öllum heiminum. En svo bankar raunveruleikinn upp á og sú staðreynd að það er lítið að hafa upp úr skrifum.

Hið agalausa tívolí var líklega ein undarlegasta glæpasaga sem hefur komið fyrir mínar sjónir. Þar er Sverrir Norland sjálfur í hlutverki sérlundaðaðs yfirmanns reykvísku lögreglunnar. Sagnastílinn er farsakenndur, á stundum eins og maður sé að lesa leikrit eða handrit að bíómynd með ýktum persónum. Sverrir Norland, yfirmaður reykvísku lögreglunnar, heldur sig í einangrun frá nútímatækjum og öðru fólki til þess að geta dreymt fyrir um lausn glæpsins. Draumförum hans fær svo lesandi að fylgjast með, þótt aðalpersóna sögunnar sé Elísabet hans hægri hönd. Sagan er súrrealísk, gamansöm en á sama tíma gallhörð gagnrýni á hraða samfélagsins; hið agalausa tívolí.

Fjölskylduverkefni

Bókaknippið gefur Sverrir sjálfur út í gegnum sitt eigið bókaforlag, AM forlag. Áður hefur Sverrir gefið út tvær bækur í gegnum Forlagið. en áður hefur hann sent frá sér tvær bækur hjá Forlaginu. AM forlag er fjölskylduverkefni, þar sem faðir, bræður og kona Sverris vinna saman að því að gefa út bækur. Þess má einnig geta að Sverrir gefur út netfréttabréfið Leslistann ásamt Kára Finnssyni einu sinni í viku.

Heilt yfir hafði ég unun af að lesa bókaknippið. Sverrir hefur fallega sýn á tungumálið og nær að varpa fallegu ljósi á orð sem kannski eiga það ekki skilið (mykjubingur). Hönnun og útlit bókanna er einfalt en að sama skapi eru þær mjög fallegar, svo fallegar reyndar að mér fannst ég þurfa að passa að sulla ekki kaffi á þær eða klína í þær súkkulaði (það er sko best að lesa með kaffi og súkkulaði).

Bækurnar eru fallegar, eigulegar, litlar, nettar og innilegar þótt sumar þeirra höfði heldur til skálda (Fallegasta kynslóðin) þá þori ég að alhæfa að bækurnar eigi upp á borð hjá öllum sem unna íslenskri tungu. Bækurnar passa vel í vasa, veski eða hvar sem þú geymir þínar bækur þegar þú ert á ferðinni. Þær eru fullkomnar til aflesturs í strætó eða á meðan þú bíður eftir tannlækni, því það ætti að vera venjan að grípa í bók fremur en að stara eins og uppvakningur á símann. Hver bók er hæfilega stutt, svo það er alltaf hægt að næla sér í smá mola úr þeim, hvar sem er.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...