Bergrún Íris Sævarsdóttir er fyrsti handhafi verðlauna sem kennd eru við Guðrúnu Helgadóttur sem veitt eru fyrir frumsamið og áður óbirt handrit að barna- og unglingabók. Kennarinn sem hvarf er spennandi saga af krökkunum í 6.BÖ sem þurfa að glíma við algjörlega óþekkt vandamál: Kennarinn þeirra er horfinn! Í fyrstu eru flestir krakkanna fegnir að fá smá frið frá nuddi og nagi og yfirlestrum, en síðan renna á þau tvær grímur. Þegar þau fá send skilaboð í símana sína með gátu sem þau þurfa að leysa ásamt hótunum gegn kennara þeirra, fyllast þau ótta en jafnframt ákveðni. Þau ætla að bjarga kennaranum sínum úr höndum þessa stórhættulega mannræningja. Það er ekki hægt að segja að bekkurinn sé samheldinn í byrjun bókarinnar, en þegar þau hafa ákveða að bjarga kennaranum sínum sameina þau krafta sína og saman finna þau lausn á erfiðum gátum mannræningjans.

Aðalpersónan er Hekla Þöll, sem er ári yngri en bekkjarfélagar hennar þar sem hún var hækkuð upp um bekk. Hekla er bráðskörp, rólyndisstúlka sem glímir við einmanaleika. Það er á engan hátt auðvelt að vera hækkuð upp um bekk og þurfa að kynnast nýjum krökkum, sem eru þar að auki eldri. Þar fyrir utan er hún með smá kvíða. Bergrún Íris fjallar um fjölmörg málefni í bókinni. Margir af bekkjarfélögum Heklu glíma við erfiðar eða öðruvísi heimilisaðstæður. Þar fyrir utan er Hekla skilnaðarbarn og þarf að þola karp milli foreldra sinna. Stefanía Huld glímir við heimilisofbeldi, tekur of mikla ábyrgð á litlu systkinum sínum og er þar af leiðandi alltaf þreytt. Fannar klæðir sig alltaf í fín föt og er með öðruvísi og fágaðari orðaforða en jafnaldrar hans, enda alinn upp af ömmu sinni og afa. Hrekkjusvínin, kemur í ljós, eru hrekkjusvín af því þeir eru líka að glíma við drauga heima fyrir eða stríða til að fyrirbyggja óþokkaskap gegn þeim sjálfum.

Raunverulegt mannrán og hófstilltar afleiðingar

Bergrún færir lesandann í spor allra persónanna, þannig að lesandinn fær samúð með öllum. Enda er Hekla Þöll, sem segir frá, afskaplega athugul stelpa. Þótt bókin eigi sína hápunkta og sé spennandi þá er meira púður lagt í persónusköpun og tengingu lesandans við persónurnar. Það er mikilvægt að börn læri samkennd og að setja sig í spor annarra – ekki verra ef það er í gegnum skemmtilega bók. Bókin er fyndin en brandarar eru þó hófstilltir og nokkuð fágaðir. Það getur verið að hæg byrjun sögunnar fæli hægari lesara frá henni. Kynningin á persónum fer fram í fyrstu þremur eða fjórum köflum og kennarinn er ekki almennilega horfinn fyrr en í fimmta kafla. Það getur verið of hæg framvinda fyrir hægari lesendur, sem eru kannski vanir hraðari söguþræði og minni persónusköpun. Sjálfri fannst mér frískandi að sjá barnabók með vandaðari persónusköpun.

Snjalltæki og snjalltækjavæðing heimila, vinna foreldra, tímaleysi, ofbeldi og einelti; allt er þetta tekið fyrir í bókinni og rætt á yfirvegaðan hátt í samhengi við söguna. Það kom mér á óvart að mannránið var raunverulegur atburður. Í barnabókum vill það stundum verða svo að síðar meir stökkvi einhver fram og segir “nei, djók! Ég var bara að plata ykkur!” Sú er ekki raunin í þessari bók. Mannránið er mjög raunverulegt og krakkarnir standa einir gegn ógnandi mannræningja. Afleiðingar af svindli krakkanna eru raunverulegar, þó skal tekið fram að afleiðingarnar eru mjög vægar og ekki til að valda martröðum hjá viðkmæmari lesendum.

Þetta er bók um krakka sem geta unnið saman og leyst flóknustu vandamál – krakkar geta allt! En líka um krakka sem þurfa kannski að gera of mikið sjálfir. Um krakka sem þurfa kannski meiri athygli heima fyrir, þurfa meiri umhyggju. Sagan er kannski líka áminning til okkar foreldra og forráðamanna að það er ekki nóg að vita hvar barnið er, heldur þarf líka að vita hvað er að gerast. Hver var að senda skilaboð og hvað er verið að segja? Allir ættu að tala meira saman – ekki bara í gegnum síma.

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....