Ljóðrænt heimshornaflakk

Þessi fína forsíða er einnig plaggat!

Ljóðabókin Regntímabilið eftir Kristinn Árnason kom út á dögunum hjá Páskaeyjunni. Ljóðin bjóða lesandanum í heimshornaflakk, frá Svíþjóð til Brasilíu til Istanbúl. Ljóðin eru látlaus á yfirborðinu en mörg eru athuganir á umhverfi og mannlífi á framandi stöðum. Bókin skiptist í fimm hluta en ljóðmælandi stekkur óspart á milli landa, stundum á hverri blaðsíðu. Áður en ég dembi mér inn í ljóðin vil ég minnast á hversu fallega hönnuð þessi bók er. Þetta er lítil kilja þar sem kápan getur einnig nýst sem plaggat sem hægt er að fletta úr og jafnvel hengja upp á vegg.

Einstakt andrúmsloft

Ljóðunum tekst að miðla andrúmslofti einstaklega vel, eins og í prósaljóðinu „Mandrem“ þar sem smáatriðin mála upp mynd fyrir lesandann: „Um vit mín leikur daufur en sæll ilmur, og það brakar í stólnum mínum.“ (bls. 15) Þessi leikur að smáatriðum er gegnumgangandi í ljóðabókinni, „Þrátt fyrir skarkalann / heyri ég í teskeið snerta undirskál / í hinum enda salarins“ (bls. 17), og „Það brakaði í þungum ísflekum við ströndina / andardráttur gerði vart við sig / undir húðinni“ (bls. 27). Þessar línur finnst mér einstaklega fallegar þar sem ég bókstaflega heyri í teskeiðinni snerta undirskálina, brakið í ísflekanum og andardrættinum undir húðinni. Í bókinni eru virkilega nákvæmar upplifanir sem höfundur hefur nostrað við að koma niður á blað.

Flandur um Reykjavík

Einstaklega skemmtilegt finnst mér ljóðið „Sólfar“ sem minnir á svokölluð Flâneur ljóðlist eða ljóð þar sem ljóðmælandi röltir um nærumhverfi sitt og horfir skáldlegum augum á andrúmsloft og útlit borgarinnar. Ljóðmælandi er bjartsýnn og nýtur þess að lifa sig inn í öll þau fyrirbæri sem á vegi hans verður, eins og „kirkjuna / stuðlaðan faðminn sem hringdi öllum bjöllum“ (bls. 55) og hundinn „eins og úr gulli / bundinn við Drekann í sólinni / augun full af trega / því hann var bundinn við Drekann í sólinni“ (bls. 56). Ljóðinu tekst að varpa upp fallegri og raunsærri sýn af miðbæ Reykjavíkur á skemmtilegan hátt. Ljóðið endar á björtum nótum, „og mig grunar að það lofi góðu / fyrir framhaldið“ (bls. 57)

Hvíldin

Regntímabilið endar á samnefndu ljóði sem kallast á við, og er í raun framhald, af ljóðinu „Mandrem“. Það hljóðar svo: „Hvað gerið þið á regntímabilinu þegar engir ferðamenn koma og sjórinn er of úfinn til að veiða? / „Þá hvílum við okkur,“ svaraði Constantín, brosti, og vaggaði höfðinu svolítið.“ (bls. 67) Það er ákveðin ró yfir þessum endi, áminning á nauðsyn hvíldarinnar sem mörg okkar fáum alls ekki nóg af og er líklega nákvæmlega það sem ljóðmælandi þarf.

Ljóðabókin flæðir vel og inniheldur fjölbreytt ljóð sem virkja skynjun lesandans á umhverfi sínu og til umhugsunar um mikilvægi hvers augnabliks sem líður.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...