Einlæg og sönn sýn á bernskuna

Hamingjustundir Dinnu, eftir Rose Lagercrantz með myndskreytingum eftir Evu Eriksson, er yndisleg barnabók með alvarlegum undirtón sem hentar krökkum í fyrstu bekkjum grunnskóla. Bókin er skrifuð á einföldu tungumáli og þýðing Guðrúnar Hannesdóttur er framúrskarandi góð. Það er eiginlega erfitt að setja fingur á hvað það er nákvæmlega við bókina sem heillaði mig svona mikið, hún bara er öll dásamleg og skilur lesandann eftir með hlýja tilfinningu. Sjö ára álitsgjafi Lestrarklefans varð líka heillaður af bókinni, las hana í einni beit og sagði hana „sorglega en skemmtilega“ en bætti jafnframt við að honum þætti hún mjög skemmtileg.

Hin sveigjanlega hamingja

Í sögunni kynnumst við Dinnu sem er að fara að byrja í fyrsta bekk. Dinnu finnst erfitt en spennandi að byrja í fyrsta bekk. Kvöldið fyrir fyrsta skóladaginn á hún erfitt með að sofna og þegar svo er ástatt hjá henni telur hún ekki kindur heldur öll þau skipti sem hún hefur verið hamingjusöm. Dinna telur sjálfa sig mjög hamingjusama stelpu svo þetta er ekkert erfitt fyrir hana.

Dinna eignast ekki vin á fyrsta skóladeginum. Það tekur hana nokkra daga að kynnast Ellu Fríðu, en þegar þær hafa kynnst hvorri annarri þá eru þær óaðskiljanlegar. Dinna lærir í skólanum og leikur við Ellu Fríðu, en einn daginn flytur Ella Fríða á brott með fjölskyldunni sinni. Heimur Dinnu hrynur og Dinna sem venjulega er lífsglöð stúlka, sem teiknar myndir af sólinni brosandi, er leið. Hún er mjög leið í langan tíma. Við þetta bætast enn frekari erfiðleikar. Hún meiðir sig í skólanum (álitsgjafanum fannst þetta einstaklega sorglegt) og grætur. Einn daginn slasar hún óvart einn bekkjarbróður sinn. Það finnst henni sérstaklega slæmt og ekki á það bætandi, hún á þegar erfitt eftir brotthvarf Ellu Fríðu. En öll él styttir upp um síðir, til allrar hamingju. Hinir fullorðnu þurfa þó að hjálpa Dinnu á bak við tjöldin.

Myndirnar eru hálf sagan

Myndir Evu Eriksson styðja ekki eingöngu við söguna heldur eru hálf sagan. Í gegnum myndirnar er því miðlað til lesandans hve mikla hamingju Dinna og Ella Fríða fundu þegar þær voru saman, hve mikinn sársauka Dinna fann til þegar hún datt, hve mikið hún skammaðist sín þegar hún slasaði bekkjarbróður sinn, hve leið hún er eftir að Ella Fríða fer. Það sést að kennarinn talar við pabba hennar og segir frá vanlíðan Dinnu. Það sést svo mikið meira en sagt er í textanum og bókin hentar því að mínu mati einstaklega vel til að efla myndlæsi hjá börnum.

Kemur af stað samtali

Sem foreldri er ég alltaf á höttunum eftir leiðum til að hnýsast í líf barnanna minna. Það skiptir máli að vita hvað er í gangi í skólanum og í félagslífi barnanna en oft getur verið fátt um svör. „Bara fínt,“ þykir gott og gilt svar við allt of mörgum spurningum. Þegar lesið er um líf Dinnu gefst þó tækifæri til að spyrja börnin um þeirra eigin upplifun af skólanum og það losnar um málbeinið á þeim þegar þau geta borið líf sitt saman við líf Dinnu.

Bókin gefur einlæga og sanna sýn á líf barna. Það er ekki allt í lífinu auðvelt og það kemur ekki alltaf allt af sjálfu sér. Það er mikilvægt að muna að þótt að maður lendi í erfiðleikum og verði leiður þá er alltaf hægt að finna einhverja leið til að verða hamingjusamur aftur, þótt hamingjan sé kannski í öðru formi.

Hamingjustundir Dinnu er dásamleg bók fyrir krakka frá sex ára aldri. Krakkar sem eru orðnir nokkuð sleipir í lestri geta lesið bókina sjálfir. Það er allt of oft þannig að strákar lesi eingöngu um strákapersónur í bókum. Þessa bók ætti þó ekki að líta á sem eingöngu fyrir stelpur, bara af því að aðalpersónan er stelpa. Hamingjustundir Dinnu er frábær bók fyrir alla krakka!

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...