Yfirskilvitlegt dúkkuhús í Amsterdam

Falleg kápa sem gefur í skyn andrúmsloft bókarinnar.

Ég hef alltaf verið dálítið mikið fyrir sögulegar skáldsögur; ætli því sé ekki um að kenna að sjálf er ég með frekar mikla fortíðarþrá. Ég hef skrifað um þá þrá áður hér á Lestrarklefanum og geri aðallega þá kröfu að ég fengi að ferðast sjálf aftur í tímann (17. og 18. öldin koma þar sterkar inn), með nóg af pensilíni, getnaðarvörnum og fengi að lifa hástéttar köku- og kampavíns lífi þar sem fallöxin væri langt undan. Eðlilega.

Sautjándu aldar konfekt og dúkkuhúsið sem breytti öllu

Að þessu sögðu þá ætla ég að helga þessari færslu sögulegu skáldsögunni The Miniaturist sem gerist einmitt á þeirri sautjándu. Höfundur er Jessie Burton og las ég bókina á frummálinu, ensku. Þetta er fyrsta skáldsagan hennar og var henni afar vel tekið og meðal annars gerð þáttaröð út frá sögunni. Kveikjan að sögunni var dúkkuhús konu nokkurrar, Petronellu Oortmann, sem er til sýnis á Rijksmuseum í Amsterdam. Húsið leikur stórt hlutverk í sögu Burton ásamt hinni ungu og saklausu Petronellu Brandt sem er í byrjun bókar nýgengin í hjónaband. Ektamaðurinn er enginn annar en miðaldra auðjöfurinn Johannes Brandt. Sá vinnur fyrir Austur-Indíafélagið sem þá réð höfum og viðskiptum um heim allan.

Petronella eða Nella eins og hún er jafnan kölluð, flytur inn til ektamannsins sem býr í stóru húsi í Amsterdam ásamt Marin, biturri systur sinni, og tveimur þjónum. Sagan segir frá lífi Petronellu á þessum nýju slóðum, sambandi hennar við Johannes og Marin en umfram allt segir hún frá þeim breytingum sem verða á högum þeirra þegar Johannes gefur Nellu dúkkuhús að gjöf. Dúkkuhúsið er nákvæm eftirlíking af húsinu þeirra og ræður Nella svokallaðan dúkkugerðarmeistara eða miniaturist (betri þýðing vel þegin!) til að fylla húsið af munum. Svo virðist hins vegar sem dúkkugerðarmeistarinn sé gæddur yfirskilvitlegum hæfileikum og spáir fyrir um framtíð fólksins í húsinu með hverjum grip sem hann sendir frá sér.

Hver elskar ekki dúkkuhús?

Ég elskaði þessa sögu. Mér fannst hún mjög vel skrifuð, áhugaverð og spennandi. Þar tókust á allskyns siðferðislegar spurningar (sem ég elska) og sýna hvernig líf fólks á þessum tíma var; sérstaklega þeirra sem féllu ekki auðveldlega inn í samfélagsnormið. Ég mæli því hiklaust með þessari bók fyrir alla þá sem hafa almennt áhuga á manneskjum, dúkkuhúsum, yfirskilvitlegum aðstæðum, viðskiptum, sykri, kökum og frosnum sýkjum.

Það skemmdi síðan alls ekki fyrir hinn gífurlegi áhugi sem ég hef á vel gerðum dúkkuhúsum. Starf dúkkuhúsameistara og dúkkugerðarmeistara er ekki algengt nú til dags en dúkkuhús voru fremur algeng á Evrópskum yfirstéttaheimilum í gamla daga og algeng brúðargjöf frá ektamönnum til eiginkvenna.

Það er hins vegar ekki oft sem maður rekst á atvinnuauglýsingar í blöðunum í dag þar sem auglýst er eftir dúkkugerðarmeistara. (Spurning hvort það ætti að kenna þessi fræði í Tækniskólanum? – já takk fyrir pent )

Hins vegar, út í hinum stóra heimi, er fólk sem hefur atvinnu af þessu enn þann dag í dag og gerir STÓRKOSTLEG dúkkuhús byggð á raunverulegum höllum og húsum. Mæli ég sérstaklega með Instagram reikningi þeirra Mulvany & Rogers þar sem hægt er að skoða öll undursamlegu húsin sem þau gera. Hér að neðan má sjá skrifstofu Lúðvíks 14 í Versölum. Ég er korteri frá því að eyða sparnaðinum fyrir íbúð í svona dúkkuhús handa mér og dóttur minni sem kostar vitanlega skildinginn.

Skjáskot af Instagram síðunni.

Bókin fær þrjár og hálfa og dúkkuhúsið hér að ofan fær fimm!

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...