Wow – ris og fall flugfélags

Stefán Einar Stefánsson er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og voru fréttir hans frekar fyrirferðarmiklar í kringum fall Wow air og raunar mun fyrr. Aukþess að hafa skrifað fréttir um feril þessa flugfélags í kringum tíðina þá er Stefán háskólamenntaður maður, með meistarapróf í viðskiptasiðfræði frá Háskóla Íslands. Höfundurinn skrifaði bókina Wow ris og fall flugfélags, saga sem spannar átta ára sögu fyrirtækisins og undanfara þess, viðskiptasögu Skúla Mogensens, og tók sér til þess verks fimm vikur. Að mínu mati er ekki hægt skrifa hlutlausa og fræðilega bók um áratuga langan feril fyrirtækis auk forstjóra þess,  á einungis  fimm vikum og án þess að hafa með í ráðum forstjóra fyrirtækisins og þá helstu aðila sem að því komu. Svo ég tali nú ekki um þann skort á heimildavinnu sem einkennir þessa bók. Bara það eitt og sér vekur upp tortryggni hjá mér. Og þetta finnast mér vægast sagt undarleg skrif hjá Stefáni.

Það er engin heimildaskrá, hinsvegar eru fleiri hundruð tilvísanir en þær eru nánast allar úr fréttamiðlum en nokkar tilvísanir eru þó frá „ónafngreindum heimildarmanni“ sem gæti verið hver sem er.  Bæði Skúli Mogensen sem og Björgólfur Thor hafa báðir komið fram eftir útkomu bókarinnar og talað um að þó nokkuð sé um rangfærslur í skrifum Stefáns.

Ekki ætla ég að leggja mat á rangt eða rétt. Núna eru komnar tvær hliðar á einhverjum þeim málum sem talað er um í bókinni sem gerir það að verkum að maður er engu nær um sannleiksgildi þessara hluta. Þess utan veit ég að það hefur hingað til ekki talist vera góð vinnubrögð að vísa ekki í heimildir og nota nánast eingöngu tilvitnar í æsifréttamiðla.  Aftur og aftur eru að finna furðulegar staðhæfingar sem ekki eru byggðar á einu né neinu sem mark er á takandi.  Á bls. 38 stendur t.d „Aldrei hefur fengist staðfest hver hlutdeild Skúla var í söluandvirðinu en menn sem til þekkja hafa haldið því fram að það hafi verið þrjátíu miljónir króna“. Menn sem til þekkja? Hvaða menn þá?  Og hvaðan hafa þessir menn þessa vitneskju ef ekkert hefur verið staðfest?

Í stuttu máli sagt: bókin er uppfull af þessu, órökstuttu blaðri og staðhæfulausum tilgátum sem hæfir slúðurblöðum og kjaftaklúbbum manna á milli. Aftur og aftur er talað um hvað almenningi hafi fundist um hitt og þetta, hvað Skúli og hans félagar hafi hugsað við hin og þessi tímamót.  Ég gæti endalaust talið upp slíkar órökstuddar staðhæfingar en ég tel það ekki tímans virði að eyða í.

Höfundur tekur sér vald þess sem skapar skáldsagnarpersónur og leyfir sér að skyggnast inn í huga og tilfinningar bæði okkar almennings sem og Skúla og félaga. Og slíkt gengur bara ekki upp í fræðilegum skrifum. Það má líka velta upp þeirri spurningu hvaða erindi þessi bók eigi, hver sé tilgangur með að gefa hana út. Því hún gagnast ekki sem upplýsingarit eða fræðibók, hún er skrifuð í óþökk þeirra sem að þessu fyrirtæki komu og það einhvern veginn læðist að manni sá grunur að tilgangur útgáfunnar hafi verið að hamra járnið á meðan það var heitt til þess að græða á óförum þeirra sem í þessu gjaldþroti lentu og selja æsifréttir í fallega litaðri kápu. Pappírnum og blekinu var illa varið í þetta verk, bókin fær ekki pláss í hillunni minni, fær ekki einu sinni að komast inn í svefnherbergið mitt þar sem hið heilaga bókanáttborð er.  Ég kem ekki til með að lesa hana aftur og kem ekki til með að mæla með henni við nokkurn mann. Ég gef henni hálfa stjörnu fyrir vel útfært efnisyfirlit.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...