Hvert einasta orð hefur tilgang

Eins og fólk er flest er nú til í öllum betri bókabúðum!

Nú á dögunum kom út bókin Eins og fólk er flest eftir Sally Rooney hjá bókaútgáfunni Benedikt. Bókin er hluti af bókaklúbbnum Sólinni þar sem bækur fá yfirleitt kápu í sama þema, en Eins og fólk er flest fékk að halda upprunalegu kápunni sinni, líklega vegna gífurlegra vinsælda hennar erlendis. Þýðandi er Bjarni Jónsson sem einnig þýddi fyrstu bók Sally Rooney, Okkar á milli (2017).

Hin hefðbundna kápa bókaklúbbsins Sólarinnar sem Okkar á milli fékk árið 2017.

Ég svoleiðis svolgraði í mig Okkar á milli þegar hún kom út og beið því spennt eftir annari bók frá þessum frambærilega unga höfundi. Ég las Eins og fólk er flest á ensku undir nafninu Normal People rétt eftir að hún kom út því ég einfaldlega gat ekki beðið eftir þýðingunni. Hafði forpantað mér hana á Amazon og allt. Í tilefni af útgáfu þýðingarinnar langar mig að fjalla um bókina, en ég á enn eftir að athuga hvort að íslenska þýðingin sé ekki stórfín líkt og fyrri bókin. Sally Rooney er fædd á Írlandi árið 1991 sem þýðir að hún var aðeins 26 ára þegar fyrsta bók hennar skaut kenni beint upp á stjörnuhiminn bókmenntaheimsins. Hún stundaði nám við ensku og amerískar bókmenntir við Trinity College í Dublin.

Um hvað er bókin?

Normal People fjallar um menntaskólavinina Marianne og Connell. Það sem einkennir samband þeirra er stéttarskiptingin og valdaójafnvægi. Móðir Connells þrífur stórhýsi hinnar sérvitru Marianne, á meðan Connell er vinsæli strákurinn í skólanum. Vinir hans líta niður á Marianne sem telst ekki falleg út frá samfélagslegum stöðlum, fólki þykir hún frekar skrítin og alltof klár. Óvænt vinátta þeirra og ástir fleyta söguþræðinum svo áfram þar sem þau reyna að fóta sig í heiminum.

Textinn hennar Rooney flæðir vel, hún flækir aldrei frásögnina með óþarfa lýsingum eða myndlíkingum. Hún ber söguna fram á einfaldan og áhrifaríkan máta. Hvert einasta orð hefur tilgang, þetta gerir hún viljandi svo að allar tilfinningar liggi undir yfirborðinu og er það hlutverk lesandans að rýna í undirtexta verksins. Þetta finnst mér hressandi frásagnaraðferð sem talar beint til nútímans.

Góðar viðtökur

Normal People var bók vikunnar hjá Guardian og kallar bókmenntagagnrýnirinn Kate Clanchy bókina: „framtíðar klassík“. Lesa má ritdóminn í heild sinni hér. Bókin komst einnig á lista fyrir Man Booker verðlaunin. Það virðist allt bókstaflega ætla að verða vitlaust yfir henni ungu Sally – bókin hefur farið sigurför um heiminn og bókmenntaheimurinn bíður í eftirvæntingu eftir næstu verkum hennar þó að Sally viti ekki sjálf hvort hún muni nokkurntímann skrifa aðra bók aftur.

Vonandi þurfa lesendur ekki að bíða of lengi eftir næstu bók Sally.

Hvað er það sem gerir bókina svona merkilega?

Sally Rooney skrifar um samtímafólk sitt, hún hefur sjálf sagt í viðtali að hún hafi takmarkaðan reynsluheim og skrifi um persónur á sama aldri og sem ganga í sama háskóla og hún. Þar með þekkir hún tilfinningarnar, umhverfið og andrúmsloftið einstaklega vel sem hún nýtir í söguheiminn. Hún skrifar beint inn í samtíma sinn og nær til lesendahóps sem á auðvelt með að samsama sig við persónurnar hennar. Sally ber fram ferska og nútímalega rödd í skrifunum sínum og hefur náð að heilla þónokkuð marga upp úr skónum. Í Eins og fólk er flest nær hún að skapa djúpar og breyskar persónur sem fara í þroskaferðalag, ferðalag sem flestir þekkja, og gerir manni ókleift að standa á sama um örlög Marianne og Connels.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...