Betri við seinni kynni

Bjargvætturinn í grasinu (e. The Catcher in the Rye) er klassísk þroskasaga sem hefur notið mikilla vinsælda frá fyrstu útgáfu árið 1951 í Bandaríkjunum. Flestir sem hafa stundað nám við Menntaskólann við Hamrahlíð eða í öðrum mennta- og framhaldsskólum þekkja hana hins vegar sem aðalbókina í ensku 303 (hvað sem sá áfangi heitir í dag).

Bókin fjallar um unglinginn Holden Caulfield sem er rekinn úr enn einum heimavistarskólanum á austurströnd Bandaríkjanna og fer til New York, þaðan sem hann kemur, áður en önninni lýkur. Þar mun hann þurfa að taka afleiðingum brottrekstursins en fyrir dómsdaginn eyðir hann þremur dögum í felum í borginni. Hann lendir í ýmsum ævintýrum þessa þrjá daga og pælir mikið í lífinu og tilverunni.

Þegar ég tók þennan áfanga nýbyrjuð í menntaskóla árið 2008 var bókin búin að vera skyldulesning í ensku 303 í að minnsta kosti tvo áratugi og var kennarinn sem leiðbendi okkur mikill aðdáandi hennar. Þrátt fyrir afbragðskennslu í kringum bókina náði ég einhvern veginn ekki að tengjast Caulfield sem best skyldi til að njóta sögunnar á þeim tíma. Mér þótti hann ekki nógu sympatísk persóna og fannst gagnrýni hans á alla aðra í kringum sig hálf þreytandi.

Í útlegð í marga áratugi

Kennarinn í MH náði þó að gera mann áhugasaman um Salinger sjálfan og hvernig lífi hann lifði. Hann skrifaði nokkrar bækur og smásögur fram til ársins 1965 og dró sig svo algjörlega í hlé og hætti að veita viðtöl árið 1980 en hann dó árið 2010 eftir marga áratugi í útlegð. Svo skemmtilega vildi til að hópur sem var að lesa bókina í MH a níunda áratugnum hafði samband við hann og fékk bréf til baka, en þetta bréf er sýnt öllum sem taka áfangann. Þessi fræðsla kveikti áhuga minn á öðrum verkum Salinger, til að mynda Franny and Zooey og er hann á meðal uppáhalds rithöfunda minna frá þessu tímabili í Bandaríkjunum.

Bjargvætturinn í grasinu hefur þó alltaf staðið upp úr meðal aðdáenda Salinger og er meðal annars á lista Time og Modern Library yfir bestu bækurnar á enskri tungu sem komu út á tuttugustu öldinni. Því sat það alltaf í mér að endurlesa hana. Í hnotskurn er þetta bara góð saga því hún eldist vel og lesandanum finnst spennandi að sjá hvað gerist næst hjá Caulfield yfir þessa þrjá daga. Hann er á krossgötum milli barnæsku og fullorðins ára og er mjög týndur eins og við erum mörg á því stigi í lífinu. Viðfangsefnið er því klassískt.

Ég las hana því aftur sumarið eftir menntaskóla þegar ég ákvað að kippa henni með á bakpokaferðalag um Evrópu og náði hún þá að heilla mig á allt annan hátt en við fyrsta lestur. Það var rithöfundurinn Nabokov sem sagði að maður gæti ekki lesið bók heldur einungis endurlesið og fann ég hvað það átti mikið við í þessu tilfelli. Ég held að stærsti þroski sem ég tók út sem lesandi milli þess að byrja og klára menntaskóla var að geta notið bókar án þess að líka vel við aðalpersónuna og að kunna að meta sjónarhorn þannig persónu. Þetta hafði það mikil áhrif á seinni kynni mín við bókina.

Ég hef ekki verið nógu dugleg að tileinka mér endurlestur á bókum sem hafa ekki heillað mig við fyrsta lestur en ég er ánægð að ég gaf þessari bók annan séns og mæli með að aðrir stúdentar frá MH geri það líka. Á dögunum sá ég einmitt fimmtugan mann, eða svo, með snjáð eintak af bókinni í höndunum sem kveikti aftur í mér, en kannski ætti maður einmitt að glugga í hana aftur.

 

 

 

 

Hits: 28'Betri við seinni kynni' has no comments

Be the first to comment this post!

Would you like to share your thoughts?

Your email address will not be published.

Lestrarklefinn[hjá]lestrarklefinn.is