Er lestur alltaf bestur? Alveg sama hvað?

Fylgifiskur þess að vera barn eða unglingur í skóla voru skyldulestrarbækurnar. Frá því að við erum læs í skólanum er endalaust verið að troða ofan í okkur bókum sem við EIGUM að lesa. Sem börn hörkum við okkur í gegnum þetta með ánægju og gleði. En á unglingsárum er þetta kannski ekki eins auðvelt. Að lesa sér til gamans er eitthvað sem maður tengir ekki við skólabækurnar, þó þær séu nefnilega oft skemmtilegar. Því bók er ekki lesin af því að hún er skemmtileg ef það er skylda að lesa hana. Þá verður skemmtunin aukaatriðið og jafnvel svo mikið aukaatriði að erfitt er að viðurkenna fyrir öðrum að bókin sem kennarinn valdi sé kannski ekki svo slæm. Því það er oft miklu meira töff að finnast þetta leiðinlegt svo fáránlegt sem það er. Unglingur sem dásamar bókina sem hann þarf að skrifa ritgerð um, af því að kennarinn fór fram á það, hann er álitinn skrýtið merkikerti.

Sem börn og unglingar og jafnvel líka þegar við erum fullorðin, erum við oft föst í viðjum vanans. Sumir krakkar lesa BARA bækurnar um Kidda klaufa, eða Rökkurhæðir eða BARA bækurnar í bókaflokknum um Óvættaför. Þessir krakkar vilja ekki prófa eitthvað nýtt og halda sig bara við það sem þau þekkja og er kunnuglegt. Þess vegna er kjörbókalistinn frá kennaranum ekki vinsæll og oft fékk maður þessa bókalista afhenta með hnút í maganum af því að maður var þess fullviss að það væri EKKERT áhugavert á honum. Sem var auðvitað óttaleg vitleysa.

Ég man t.d eftir einni bók sem ég valdi af svona kjörbókalista, í 10. bekk að mig minnir. Það var bókin Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur.  Ég þjösnaðist í gegnum hana, skrifaði um hana ágætis ritgerð og fékk fína einkunn fyrir en bókin var í minningunni afburðaleiðinleg og furðuleg. Ég endurnýjaði kynni mín við þessa bók fyrir mörgum árum, þegar ég var löngu staðin upp af skólabekknum, börnin mín orðin stálpuð og lífsreynslubankinn örlítið ríkari. Og ég verð að segja að sú bók sem ég las þá átti ekkert skylt við bókina sem ég las í 10. bekk.  Og í kjölfarið náði ég mér í fleiri bækur eftir Steinunni og hún núna einn af mínum uppáhalds íslensku kvenrithöfundum.

Sömu sögu er að segja um Riddara Hringstigans eftir Einar Má. Mér fannst hún nauðaómerkileg og ætlaði aldrei að geta klárað hana en las hana mörgum árum seinna og fannst hún merkilega góð.

Skilar það þá einhverju að pína krakka og unglinga til að lesa bækur sem búið er að velja fyrir þá? Er lestur alltaf af hinu góða, alveg sama hvort börn njóta lestursins eða ekki? Er lestur alltaf bestur, alveg sama hvað? Við hljótum að álykta sem svo að lestur geti aldrei verið af hinu verra. Hitt er svo annað að skyldulestur á bókum getur alveg verið það fráhrindandi að upplifun einstaklings á endalausum lestri bóka sem hann þolir ekki, getur gert það að verkum að viðkomandi geti ekki hugsað sér að lesa í langan tíma á eftir – fái óbeit á ákveðnum rithöfundum og bókaflokkum. Það þarf því að vanda vel til verka þegar bókalistar eru settir saman og myndi jafnvel hjálpa af fá unglinga til að koma að gerð listanna.

Síðan eldumst við og göngum í leshópa sem ganga út á að lesa bækur sem hinir í hópnum skiptast á að velja fyrir mann og þá er aðalupplifunin einmitt að kynnast bókum sem maður hefði aldrei annars ákveðið að lesa. Og það eru einmitt bækurnar sem koma manni mest á óvart. En það er efni í annan pistil, leshópspistil.

Ég má til með að enda þetta með bókunum sem ég var pínd til að lesa í grunnskóla og framhaldsskóla og meira að segja í háskóla, bækurnar sem voru og eru svo óþolandi leiðinlegar, bækurnar sem eg kem aldrei til með að geta lesið mér til gamans en samt sem áður þær bækur í mínu persónulega safni sem ég elska mest.  Það eru elsku, elsku íslendingasögurnar. Þvílíkt samansafn af leiðindum frá A til Ö. Njála, Egla, Fornaldarsögur Norðurlanda og Sturlunga, Snorra-Edda og Völuspá svo fátt eitt sé talið. Menningararfurinn okkar, svo flottur og fínn, HANDRITIN HEIM og allt það, en að mínu mati algjörlega gersneyddur skemmtanagildi. Ég veit hvers virði þessar bækur eru fyrir land og þjóð og ég geri mér fyllilega grein fyrir snilldinni sem býr í þessum verkum. En ég get ekki með nokkru móti lesið þetta né mælt með þessum bókum við nokkurn mann til skemmtunar.  Með þessum orðum kveð ég ykkur að sinni og gref mína eigin gröf. Þangað til næst .

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...