Bók Kristínar Marju Baldursdóttur um Karitas kom fyrst út árið 2004, Karitas án titilsÉg man að aðrar konur í fjölskyldunni héldu ekki vatni yfir snilldinni sem bjó í bókinni, en sjálf  var ég langt leidd inn í unglingsárin og gaf lítið fyrir það sem systir mín og móðir höfðu áhuga á. Mótþróinn, þið skiljið.

Þegar ég tilkynnti svo annars hugar að ég hefði aldrei lesið bækurnar um Karitas tæpum þrettán árum síðar, í áheyrn nokkurra bókelskandi kvenna, var hváð! Á þessum tíma var ég komin á síðustu vikur þriðju meðgöngu og hver sem hefur gengið með barn veit hve þreytandi síðustu vikurnar eru. Öndunarerfiðleikar, tíðar pissuferðir, óþægindi, svefnleysi. Nefndu það. Og þar sem ég sat og sötraði kaffi í sjaldgæfri lognmollu í annars allt of annasömu lífi- önug, úrill og illa sofin – hélt þessi bókelskandi kona því fram að Karitas væri lausnin við öllum mínum vandamálum. Að í raun væri það bara lukka að ég væri ekki búin að lesa söguna um Karitas áður. “Komdu á morgun og ég skal lána þér þær!” Og svo klykkti hún út með að ég myndi hætta að bíða eftir barninu.

Ég held ég hafi hnussað og haldið af stað heim, algjörlega ósannfærð um að nokkur bók gæti fært mig frá þeirri skapvonsku sem ég hafði nú tekið nokkra mánuði í að vinna mig upp í. Hvaða bók gæti truflað einbeitta fíluna? En ég lét þó til leiðast. Mætti á staðinn daginn eftir og þáði bækurnar, enda ekki búin að lesa neitt bitastætt í þó nokkurn tíma. Ef til vill væri ágætt að sökkva sér ofan í bók í einhvern tíma.

Ég þakka fyrir það í dag að börnin voru byrjuð í skóla og leikskóla og ég hætt að vinna þegar ég byrjaði á Karitas. Við tóku nokkrir dagar þar sem líf mitt hverfðist algjörlega í kringum Karitas og reynsluheim hennar. Karitas, Sigmar, börnin, Bjarghildur, Halldóra… Sögupersónurnar stukku upp af síðunum! Kristín Marja dró mig með sér niður í líf kvenna í byrjun tuttugustu aldar, erfiðleikana, togstreituna, hamingjuna, ástina. Þetta var dáleiðandi lesning og ég varð svo heltekin að ég hætti að bíða eftir barninu.

Á meðan á lestrinum stóð fór ég reglulega og ræddi bókina við hina bókelskandi konu, móður mína og systur. Jós hana lofi, barmaði mér að hafa ekki lesið söguna áður og þakkaði fyrir að vera að lesa hana núna. Karitas kom mér í gegnum biðina. Á meðan ég las hana sveif ég um í fortíðinni – fluga á vegg í París, Stokkseyri, Borgarfirði Eystri. Óskaði þess að sjá alla þessa staði, vera þarna. En fannst ég á sama tíma hafa upplifað þetta allt með elsku Karitas minni.

En að sama skapi þegar Karitas sleppti og ég lokaði Óreiðu á striga í síðasta sinn – með tár á hvarmi – þá tók við skapvonskan á ný. Og henni linnti ekki fyrr en viku síðar, á sjúkrahúsinu með nýtt líf í fanginu.

Sjái ég kasólétta konu í dag er erfitt að halda aftur af minni eigin afskiptasemi. Mig langar að tilkynna henni að Karitas komi henni í gegnum alla erfiðleika.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...