Hver myrti ferðamanninn?

Ferðamannastraumurinn til Íslands hefur ekki farið framhjá nokkrum undanfarinn áratug og það hlaut því að koma að því að myrtir ferðamenn myndu dúkka upp í glæpasögum. En um það fjallar bók Ármanns Jakobssonar Útlagamorðin. Bókin, sem kom út fyrir síðustu jól, hefst á því að ungur maður finnst látinn í garði í litlum bæ úti á landi. Nýstofnuð morðrannsóknardeild lögreglunnar fer á vettvang og á í miklum erfiðleikum með að leysa úr málinu.

Útlagamorðin er fyrsta glæpasaga úr smiðju Ármanns Jakobssonar prófessors í miðaldabókmenntum. Áður hefur hann sent frá sér fjölda skáldverka og fræðirita. Önnur glæpasaga hans Urðarköttur kom út á dögunum. Í Útlagamorðunum skapar Ármann áhugavert umhverfi fyrir morðrannsókn: lítinn bæ, fullan af erlendum ferðamönnum, með kattamorðingja og ótal tengsl milli allra persóna. Auk þess er slatti af skrítnum persónum í bænum, til að mynda frú Þóra sem situr á matsölustað með svart kaffi og krókódílastyttu með sér flesta daga og minnir óneytanlega á “The Log Lady” í Twin Peaks.

Ármann setur saman skemmtilegt teymi af fjölbreyttu fólki til að stýra morðrannsókninni sem samanstendur af hinni ungu og efnilegu lögreglukonu Kristínu, reynslumikla rannsóknarlögreglumanninum Bjarna sem minnir helst á (og dáist jafnframt að) Morse og hinni stífu en eldkláru Margréti, sem og ungum mönnum Njáli og Marteini sem aðstoða við rannsóknina. Í nýju bókinni rannsakar sama teymi morð í Reykjavík og því líklegt að aðdáendur Útlagamorðanna taki spenntir á móti Urðarketti.

Útlagamorðin fengu fínustu viðtökur við útgáfu og er ramminn vissulega góður. Maður getur einnig hælt Ármanni fyrir valið á fórnarlambinu en það var athyglisvert að lesa bók þar sem ferðamaður var myrtur og lét mann hugsa til þess hve flókið er þegar slíkt á sér stað á landinu. Bókin náði þó einhvern veginn ekki nógu vel til mín, meðal annars vegna þess að ég átti erfitt með að festast í lestrinum. Málfarið í bókinni er afbragðsgott en það gerði stundum samræður persónanna í bókinni ótrúverðugar sem fór að fara í taugarnar á mér. Bjarni á að vera eldri maður á leið á eftirlaun og því gefur að skilja að hans talræða sé aðeins fornari en gengur og gerist en það fór að trufla mig við lesturinn þegar fólk á öllum aldri fór að hljóma eins og hann. Einnig fannst mér söguuppbyggingin ekki nógu góð, við miðbik bókarinnar var ekki enn farið að skýrast á sannfærandi hátt hver morðinginn væri en svo allt í einu í síðustu köflunum leystist allt mjög hratt og örugglega. Einnig var ekki mikið af grunuðum aðilum, ég beið alltaf eftir einhverju óvæntu tengdu því en það kom því miður aldrei.

Útlagamorðin er fín frumraun í glæpasagnaritun og var persónusköpunin í rannsóknarteyminu góð. Ég hlakka því til að lesa Urðarkött og sjá hvernig Ármann þróast sem glæpasagnahöfundur.

 

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...