Óvenjuleg ævintýri Tomi Ungerer

Hvað gerist þegar rammpólitískur auglýsingateiknari, fæddur í Strassburg 1931, mótaður af stríði í barnæsku, uppreisnargjarn og frjáls andi… já, hvað gerist þegar þannig maður sest niður og skrifar barnabækur? Þannig maður getur varla skrifað hefðbundnar barnabækur? Og það kemur reyndar í ljós séu þær lesnar. Bækurnar eru nokkuð óhefðbundnar og ég tel nokkuð víst að þær hafi ögrað óskrifuðum reglum og lögum um ævntýri þegar þær komu fyrst út – og gera líklega enn. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um bækur Tomi Ungerer, en þrjár af barnabókum hans hafa nú verið þýddar yfir á íslensku. Ungerer skilur eftir sig hátt í 150 bækur fyrir börn og fullorðna, en hann lést fyrr á árinu.

Þær bækur sem hafa nú verið þýddar á íslensku eru Tröllið hennar SigríðarMáni og Ræningjarnir þrír. Allar voru bækurnar fyrst gefnar út í kringum 1960. Bækurnar eru fallegar og í broti sem fer vel í hendi barna, þó letrið í Tröllið hennar Sigríðar sé heldur smátt fyrir byrjendur í lestri. Séu bækurnar lesnar fyrir börnin ætti það ekki að koma að sök.

Sú bók sem vakti fyrst áhuga okkar mæðgina var Ræningjarnir þrír. Hún heillaði okkur með sínum myrku myndum og loforði um eitthvað hættulegt. Í bókinni segir af þremur ræningjum sem með ofbeldi og ógnum ræna úr hestvögnum til að komast yfir fjársjóði. Einn daginn er þó enginn fjársjóður í vagninum heldur bara stúlkan Torfhildur, sem er á leið til illskeyttrar frænku sinnar. Og hér tekur sagan beygju frá hinu hefðbundna ævintýraformi. Torfhildur er ekkert ósátt við að fara með ræningjunum þremur. Ræningjarnir gera sér grein fyrir því, með hjálp Torfhildar, að endalaus söfnun á gulli og gersemum sé ansi innihaldslaust. Í staðinn fyrir að halda áfram ránum og rupli snúa þeir sér að góðverkum og taka að sér fleiri umkomulaus börn líkt og Torfhildi. Á endanum reka þeir heilt barnaheimili!

Í bókinni Tröllið hennar Sigríðar segir frá hrottalegu trölli – risa sem borðar börn. Hungur hans er svo mikið að hann herjar á bæi í kringum kastala sinn og rænir börnum til að éta. Á endanum verða börn sjaldséð á götum bæjanna því þau eru öll falin. En Sigríður hefur aldrei heyrt af tröllinu. Hún býr ein í skóginum með pabba sínum þar sem hún eldar dýrindis máltíðir hvern einasta dag. Dag einn er hún þó nauðbeygð til að fara án fylgdar á markaðinn og ríður fram á glorsoltinn tröllkarlinn, hálfmeðvitundarlausan af hungri og eftir válega byltu. Hún eldar fyrir hann margréttaða máltíð, tröllið tekur Sigríði með heim og hættir að borða börn þar sem Sigríður er svo fær kokkur. Sagan endar því vel.

Í bókinni Máni segir frá Mána – karlinum í tunglinu – sem fellur til jarðar. Sagan hefst því sem ævintýri. En í höndum Tomi verður sagan eitthvað annað. Tortryggni og fordómar verða til þess að Máni getur ekki notið jarðlífsins og dansað eins og hann hafði óskað sér, heldur er hann hundeltur af lögreglu, her og hópi af vísindamönnum sem vilja rannsaka hann. Að lokum kemst þó Máni aftur heim með hjálp vísindamannsins Böðvars frá Skuggadal, sem skýtur honum upp til tunglsins aftur með eldflaug og hlýtur fyrir það virt vísindaverðlaun.

Sögurnar eiga það sameiginlegt að hefjast líkt og hefðbundin ævintýri en taka svo skarpa beygju þegar lesandi býst síst við því. Það kom okkur mæðginu skemmtilega á óvart þegar þær þróuðust út í eitthvað allt annað en við bjuggumst við. Þýðing Sverris Norland á bókunum er til mikillar prýði. Til að halda í anda sagnanna hefur hann valið skemmtilega gamaldags nöfn á persónur bókanna. Teikningarnar í bókunum bera það með sér að Ungerer var listamaður. Þær eru einfaldar en þó má í hverri bók finna eitthvað sem vekur athygli, hvort sem það eru svartar myndirnar í ræningjunum þremur, hlaðborð tröllsins hennar Sigríðar eða töfrandi skógurinn í bókinni um Mána.

Bækurnar láta kannski ekki mikið yfir sér. Þær eru í nettu broti, með óhefðbundnum teikningum á kápunni og mögulegir lesendur líta kannski hjá þeim. Bækurnar eru þó bráðskemmtilegar og forvitnilegar og lesendur, hvorki ungir né aldnir, ættu að láta þær fram hjá sér fara. Þegar ein af bókunum er komin í hönd er auðvelt að lesa þær allar í einni lotu og hlæja að furðulegum sögnum og muna að enginn er al-illur né al-góður og að heimurinn er í sífelldri þróun.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...