Nærbuxnanjósnarar, nærbuxnakóngar og kanínuunginn Svala Björgvins

Arndís Þórarinsdóttir sendir frá sér aðra bókina um Gutta og Ólínu, Nærbuxnanjósnararnir, þar sem þau lenda í enn frekari ævintýrum og finna miklu fleiri nærbuxur. Myndhöfundur bókarinnar er Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson og saman ná Arndís og Sigmundur að láta sér detta í hug ótrúlegustu tegundir af nærbuxum og ótrúlegustu not fyrir þær! „Samstarf okkar Sigmundar Breiðfjörð Þorgeirssonar myndhöfundar hefur verið mjög skemmtilegt. Myndirnar hans eru stórfenglegar – alltaf þegar ég held að ég sé búin að troða eins mörgum nærbuxum og mögulegt er inn í textann finnur hann ótal brækur í viðbót til þess að setja í myndmálið!“ segir Arndís. Og það er alveg rétt! Það er ótrúlegt magn af nærbuxum í myndunum og textanum og í nærbuxnabókunum er alltaf hægt að finna eitthvað til að flissa yfir, á milli þess sem lesandinn flettir spenntur áfram. „Við Sigmundur höfum ekki ólíkan húmor og það er mjög gaman að sjá hann sprengja upp nýjar víddir í söguna. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé mikið af myndum í bókum fyrir þennan aldur – og raunar fyrir allan aldur! Hvenær kemur út hátíðarútgáfa bóka Arnaldar Indriðasonar með teikningum?!” En við skulum vinda okkur að Nærbuxnanjósnurunum!

Nærbuxnanjósnararnir er önnur bókin um Gutta og Ólínu. Hvaða ævintýrum lenda þau í núna?

„Þegar ég byrjaði að velta fyrir mér framhaldinu vissi ég ekki alveg hver atburðarásin yrði – en ég vissi að hjartað í sögunni yrði áframhaldandi vinátta Gutta og Ólínu. Þau bindast vináttuböndum í lok fyrri bókarinnar, en þau eru samt mjög ólík og bæði eru þau nokkuð óvön því að eiga vini. Þetta getur verið dálítið viðkvæmt – en líka frekar fyndið! Í lok fyrri bókarinnar er allt í lukkunnar velstandi – Gutta og Ólínu tekst að bjarga Nærbuxnaverksmiðjunni og amma Lena verður framkvæmdastjóri í Rumpinum, samfélagsmiðstöðinni sem þau opna. Þesss vegna þurfti eitthvað að koma upp á núna, það þurfti einhver að ógna stöðu þeirra Gutta og Ólínu. Þannig fæddist Sigurborg húsvörður! Sigurborg húsvörður telur sig talsvert hærra setta en þau og hendir þeim út. Vinirnir brjótast augljóslega inn aftur og sjá þá að eitthvað verulega einkennilegt er í gangi í verksmiðjunni. Þau læðast því af stað í njósnaför til að komast til botns í málinu.”

Í fyrri bókinni fékkstu aðstoð frá syni þínum við hugmyndavinnu. Á hann einhverja hönd í söguþræði þessarar bókar?

„Hann á ekki beina hönd í söguþræðinum, þó það sé auðvitað ýmislegt úr okkar lífi sem ratar inn í bókina. Til dæmis sagði hann mér stoltur eftir útkomu fyrri bókarinnar að einhverjir krakkar í skólanum væru farnir að kalla hann nærbuxnakónginn. Ég kippti þessu snarlega inn í bókina og ákvað að Gutti væri kallaður þetta í sínum skóla. Svo á ég líka dóttur og langaði til þess að hún ætti líka svolitla hlutdeild í bókunum, svo ég nefndi eina persónuna sérstaklega til að gleðja hana – kanínuunginn Svala Björgvins hlaut nafn sitt í von um að fá Eurovision-aðdáandann minn til þess að flissa. Og það dugði reyndar ágætlega til þess að láta mig flissa líka!”

Hvaða persóna í bókinni er þér sérstaklega hjartfólgin?

„Mér þykir ósköp vænt um bæði Gutta og Ólínu. Gutti er mjög vel meinandi en dálítið huglaus og hefur of miklar áhyggjur af því að fara eftir reglunum. Ég sé sjálfa mig mjög mikið í honum. Ólína, hins vegar, er djörf og réttsýn og hávær – og stendur alveg á sama um allar reglur. Mig langar dálítið til að vera eins og Ólína. Eða, sko, pínulítið hófstilltari útgáfa, en samt! Svo er ég mjög hænd að honum Ársæli gamla sem við kynntumst í fyrri bókinni, sem gengur í fallegum kjólum og starfaði sjálfur í Nærbuxnaverksmiðjunni á yngri árum.”

Hvaða atburðarás fannst þér skemmtilegast að skrifa?

„Það er ekki beinlínis atburðarás, en ég skemmti mér mjög vel yfir kaflanum Konungsbrók þar sem er lýst sérstakri blúndubrók sem var sérsaumuð fyrir Kristján níunda þegar hann kom á alþingishátíðina árið 1874. Útsendurum Nærbuxnaverksmiðjunnar tókst svo að endurheimta brókina að notkun lokinni og römmuðu hana inn í gullramma til varðveislu um ókomna tíð. Það er eitthvað við tengingu nærbuxna við formlega, hátíðlega hluti sem höfðar mjög til mín!”

Er líklegt að Gutti og Ólina lendi í frekari nærbuxnaævintýrum í framtíðinni?

„Fyrrnefndur sonur er sko búinn að ákveða fyrir mig hvað eigi að gerast í tíundu nærbuxnabókinni, svo hann er alveg á því að við höldum áfram! En jú, ég er nú með einhverjar hugmyndir um það hvert sagan gæti farið næst. En við skulum byrja á því að fylgja Nærbuxnanjósnurunum úr hlaði og sjá hvernig þeir spjara sig úti í veröldinni. Svo má skoða framhaldið. Það er eitthvað komið á blað.”

 

Brot úr fjórða kafla: Nagdýr og nærbrækur

Gutti og Ólína eru bestu vinir sem tókst fyrir nokkrum mánuðum að koma í veg fyrir að hin ævaforna Nærbuxnaverksmiðja yrði jöfnuð við jörðu. Í verksmiðjunni hefur nú verið stofnuð samfélagsmiðstöðin Rumpurinn og þar eru Gutti og Ólína lykilmenn. En einn daginn birtist kona sem segist heita Sigurborg húsvörður og hendir þeim út.

Gutti og Ólína eru stödd í kanínukrók Rumpsins eftir að hafa brotið sér leið inn í verksmiðjuna að nýju. Þau hitta þar gamla konu, Bíbí, sem segir þeim að eitthvað tortryggilegt sé í gangi, hlutir séu alls ekki á sínum stað. Gutti og Ólína kannast við þetta – ævaforn blúndubrók hefur gufað upp og Ársæll vinur þeirra líka. Ofan á þetta uppgötvað þau nú að kanínan Snæfríður hefur gufað upp, en unginn hennar, sem Ólína nefnir Svölu Björgvins, hefur orðið einn eftir í bælinu sínu.

Þegar hér er komið við sögu er Gutti að velta því fyrir sér hvort kannski séu þessi vandræði öll bara röð tilviljana.

 

Hér eru Gutti og Ólína í túlkun Sigmundar Breiðfjörð.

„Þvættingur!“ sagði Ólína ákveðin. „Hér er leyndardómur á ferðinni. Það er augljóst að það er eitthvað hræðilegt í gangi hérna. Og allir vita hvað hefur breyst á síðustu dögum. Ég skal gefa þér vísbendingu: Það byrjar á S og endar á igurborg. Og einmitt núna er það sennilega klætt í tvö hundruð ára gamlar blúndubrækur!“

Gutti hugsaði málið.

„Sko, þessi Sigurborg er leiðindagaur,“ sagði hann, „en við vitum ekkert hvort hún sé einhver rosalegur glæpamaður. Flest sem Bíbí sagði var alls ekki glæpur, heldur bara misskilningur.“

„Ó,“ sagði Ólína og setti hendur á mjaðmirnar. „Er það líka misskilningur að Ársæll sé týndur – talinn dauður af sínum nánustu vinum – og að Snæfríður sé horfin? Plús konunglega nærbrókin? Það er eitthvað rosalegt í gangi hérna. Lífið hefur valsað upp að okkur, Gutti, með nýtt ævintýri! Ráðgátu! Ætlar þú ekki að svara kallinu? Ætlar þú að neita Svölu litlu Björgvins um að fá mömmu sína aftur?“ Hún tók litla kanínuungann varlega upp úr bælinu sínu og rak hann framan í Gutta. „Sjáðu hvað hún er umkomulaus! Hún treystir á okkur!“

Gutti hugsaði málið. Síðast þegar Ólína hafði dregið hann í björgunarleiðangur hafði það að vísu endað vel. Og Svala Björgvins var frekar sæt og umkomulaus.

Gutta hafði líka fundist mjög gaman að vera hetja. Gera eitthvað brjálað. Brjóta reglurnar.

„Ókei,“ sagði hann og brosti. „Ég er til í þetta.“

Ólína tísti af kæti. „Við þurfum að byrja á því að safna vísbendingum. Við erum auðvitað stödd á vettvangi glæps einmitt núna. Ji, hvað þetta er spennandi, Gutti!“ Og hún rétti Gutta ofurlítinn kanínuungann og fleygði sér sjálf á jörðina í leit að vísbendingum.

„Kannski gætum við spurt einhvern?“ sagði Gutti. „Það er fullt af fólki hérna í Rumpinum á hverjum degi. Við getum reynt að finna út úr því hvenær Snæfríður sást síðast.“

Ólína rumdi neðan af gólfinu.

„Það er ekkert nema kanínukúkur hérna niðri,“ sagði Ólína. „Kannski gætum við rannsakað hann í smásjá til að komast að mikilvægum hlutum um mataræði kanínanna?“

„Öh …“ sagði Gutti.

„Já, þetta er rétt hjá þér,“ sagði Ólína og stökk á fætur, „það væri örugglega mjög áhugavert, en kannski ekki hjálplegt við að leysa kanínuglæpinn. Við skulum frekar leita að vísbendingum á mikilvægasta staðnum í Rumpinum: Á skrifstofunni hennar ömmu þinnar!“

„En amma er ekki hérna,“ sagði Gutti og barðist við að halda kanínuunganum í lófanum. „Og skrifstofan er auðvitað lokuð.“

„Gutti minn, ef þú heldur að ég hafi verið að snudda hérna í marga mánuði án þess að taka eftir augljósri staðreynd eins og því hvert lykilnúmerið inn á skrifstofuna hennar ömmu þinnar er, þá er það mikill misskilningur,“ sagði Ólína og þandi brosandi út brjóstkassann.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...