Nýjasta bók Ævars Þórs Benediktssonar og jafnframt sjötta bókin af Þín eigin-bókunum er Þinn eigin tölvuleikur. Börn og unglingar þekkja núorðið flest bækurnar, enda einar mest seldu barna- og unglingabækur síðustu ára. Líkt og í öðrum Þín eigin-bókum Ævars er Evana Kisa myndhöfundur þessarar bókar og glæðir hugmyndir Ævars litum. Ævar segir að Þinn eigin tölvuleikur geti orðið jafnvel vönustu lesendum Þín eigin-bókanna þyngri þraut en áður. „Þinn eigin tölvuleikur er örlítið öðruvísi en hinar Þín eigin-bækurnar, vegna þess að ég veit að vanir Þín eigin-lesendur eru farnir að læra á formið.“ Endarnir í Þinn eigin tölvuleikur eru yfir 120, tölvuleikjaborðin uppfull af hættum, flækjurnar fleiri. „Nú sleppurðu ekki í gegnum bókina með því að lesa bara hluta af henni; þú þarft að sigra öll fimm borðin til þess að komast í lokaborðið og aftur heim. Múhahaha!“ segir Ævar Þór og hlær eins og illmenni. En forvitnumst aðeins meira um nýju bókina.

Hvaða tölvuleikir verða spilaðir í Þinn eigin tölvuleikur?

Ég reyni að hafa sem mesta flóru af tölvuleikjategundum í bókinni, án þess þó að nefna einn einasta leik á nafn. Fyrir því eru tvær ástæður; í fyrsta lagi get ég ekki látið bókina gerast í frægum tölvuleikjum eins og Fortnite eða Mario Bros., einfaldlega vegna þess að þessir leikir eru höfundaréttavarin hugverk og snarólöglegt að ætla að fíflast eitthvað með þá. Í öðru lagi myndi það líka festa bókina svakalega í tíma að fjalla um tölvuleikina sem eru vinsælastir akkúrat núna. Ég vil að Þín eigin-bækurnar lifi sem lengst og þess vegna er það í rauninni bara frábært að ég megi ekki nota leiki sem nú þegar eru til. Þess í stað greini ég það sem gerir vinsælustu leiki síðustu 30 ára svona skemmtilega og bý til borð sem eru undir áhrifum frá þeim, en eru á sama tíma eitthvað alveg glænýtt. Borðin í Þínum eigin tölvuleik heita því einfaldlega: Fótboltaborð, Hopp og skopp-borð, Allir á móti öllum-borð, Prinsessuborð og Bendiborð. Svo er auðvitað lokaborð (og leyniborð – en ekki segja neinum frá því), en þú kemst ekki í það fyrr en þú sigrar hin fimm. Aftast í bókinni fer ég svo yfir það hvaða leikir hafa áhrif á hvaða borð, en það er vel hægt að giska á það út frá nöfnunum.“

Hvaða hættur leynast í tölvuleikjunum?

„Í tölvuleikjum getur allt verið hættulegt, hvort sem það eru brjálaðir orkar, krúttleg blóm eða veggir sem hrynja ofan á mann þegar maður á síst á því von. Fótbolti getur líka verið stórhættulegur, sérstaklega ef einhver byrjar að breyta reglunum. Þín eigin-bækurnar innihalda venjulega um 50-60 enda, en í þessari eru þeir fleiri en 120. Það ætti því að gefa til kynna hversu stórhættulegir tölvuleikir geta verið!“

Hvaða borð fannst þér skemmtilegast að skrifa?

„Mér fannst skemmtilegast að skrifa fótboltaborðið, einfaldlega vegna þess að það var erfiðasti kafli sem ég hef nokkurn tímann skrifað. Ég veit ekki mikið um fótbolta og þurfti því að setjast á skólabekk og læra allt um þessa vinsælu íþrótt. Ég kem þess vegna undan skrifunum hokinn af reynslu og bíð spenntur eftir því að vera beðinn um að lýsa leik í beinni við fyrsta tækifæri. Að því sögðu; þá er þetta auðvitað afar ósanngjörn spurning, vegna þess að öll borðin í bókinni eru stórskemmtileg.“

Þinn eigin tölvuleikur er sjötta bókin í “þín eigin” seríunni. Hve margar verða bækurnar?

„Tvær léttlestrarbækur munu koma til viðbótar með vorinu og svo verður allavega ein svona stór Þín eigin-bók í viðbót, sem kemur næstu jól. Ég gekk meira segja svo langt að fela titilinn á henni í þessari bók. Glöggir lesendur munu ef til vill rekast á hann. Eða ekki. Gangi ykkur vel!“

Hér fyrir neðan má lesa hluta úr einum kafla bókarinnar. 

 

HOPP OG SKOPP-BORÐIÐ

Þú opnar augun og finnur um leið að eitthvað er ekki eins og það á að vera.

,,Hvað er…“ byrjarðu og bítur óvart í neðri vörina þína. Fast. ,,Á!“ veinarðu. ,,Hvað er…“ og þú bítur aftur í hana. Það er alveg jafn sárt í seinna skiptið. Hvað í ósköpunum er í gangi hérna?

,,Varlega,“ segir kunnugleg rödd og þú lítur til hliðar. Upp við vígalegt tré stendur Hjálparhella og brosir. Hún virðist hávaxnari en áður. Getur það verið?

Þið eruð stödd í fallegum skógi. Ár og lækir lauma sér á milli stórra trjáa og skærgulir fuglar syngja á greinum. Himinn er svo heiður að þú hefur aldrei séð annað eins og hvergi er ský sjáanlegt. Hjálparhella brosir enn breiðar.

,,Þú þarft að fara varlega. Tennurnar þínar eru örlítið öðruvísi en þú átt að venjast,“ segir hún blíðlega. ,,Þannig ekki tala of hratt. Allavega til að byrja með.“ Þú starir á hana.

,,Hvernig… þá?“ spyrðu ofurvarlega svo þú bítir ekki aftur í þig og tekur eftir því að röddin þín er mun skrækari en venjulega, næstum eins og í teiknimyndapersónu. Hjálparhella hallar sér enn upp að stóru trénu og núna ertu alveg viss um að þú sért ekki að ímynda þér þetta; hún er mun hávaxnari en þegar þú sást hana síðast. Forritið brosir og gengur til þín.

,,Sjáðu bara,“ segir hún og bendir á lítinn læk sem rennur ljúflega við hliðina á þér. Þú snýrð þér að vatninu og gægist. Spegilmyndin þín mætir þér.

,,Hvaða…“ tautarðu.

Þú starir í vatnið.

Þetta getur ekki verið spegilmyndin þín.

,,Ég held að lækurinn sé bilaður,“ muldrarðu og lítur aftur á Hjálparhellu sem nálgast í rólegheitunum. ,,Vitlaust forritaður eða með vírus eða eitthvað álíka. Ég myndi láta tékka á honum ef ég væri þú…“ heldurðu áfram. Hjálparhella hlær og nemur staðar við hliðina á þér. Núna færðu staðfestingu á því sem þig grunaði; hún er orðin risastór. Þú nærð henni ekki einu sinni upp í hné.

,,Engar áhyggjur, það er í fínu lagi með lækinn,“ segir hún. Þú starir á hana og skyndilega fattarðu svolítið; kannski stækkaði Hjálparhella ekki.

Kannski minnkaðir þú.

Þú lítur aftur í lækinn.

,,Þannig að þetta er það sem ég er í þessu borði?“ spyrðu tómri röddu. Hjálparhella kinkar kolli. Þú andvarpar.

Þú ert ekki lengur manneskja. Þú ert lítið dýr, á stærð við kött eða hvolp, en hefur ekki hugmynd um hvaða dýrategund þetta á eiginlega að vera. Þú ert pínulítið eins og loðinn bolti með stór eyru. Litlar loðnar hendur og fætur koma út úr búknum og langur hali með hálfgerðri gaddakylfu* gægist aftan úr þér. Risastórar framtennur skaga út úr munninum á þér.

,,Ég er eins og fáránleg blanda af kanínu og skopparabolta…“ stynurðu og veist ekki hvort þú eigir að hlæja eða gráta. Hjálparhella fer niður á hnén til að geta horft almennilega í augun á þér. Þú lítur á hana.

,,Hvað er ég eiginlega?“ spyrðu forviða. Hjálparhella brosir.

,,Nú, þú ert knúsípons,“ segir hún og og klórar þér á bak við annað eyrað. Þú byrjar umsvifalaust að mala. Þú ræður ekki við það.

,,Knúsípons?“ spyrðu forviða og reynir að hætta að mala. Það tekst ekki. ,,Hvað er knúsípons?“ Hjálparhella hættir að klóra þér.

,,Nú, þú. Kjáninn þinn,“ og svo skellihlær hún. Þér finnst þetta ekkert fyndið. Þú lítur aftur í lækinn og andvarpar. Þú ræður svo sem engu um það hvernig þú lítur út, það er best að byrja bara og klára þetta.

,,Gott og vel,“ segirðu og reynir að jafna þig á þessu krúttlega útlitsáfalli. ,,Hvað gerist núna?“ Hjálparhella stendur á fætur og gnæfir nú aftur yfir þér eins og risi.

,,Ekkert flókið,“ segir hún og bendir inn á milli trjánna. ,,Þetta er hopp og skopp-borð. Það þýðir að þú átt að hoppa og skoppa í gegnum þennan skóg, safna eins mörgum gulrótum og þú mögulega getur og passa þig um leið á óvinum sem reyna að ná í skottið á þér.“ Þú starir inn í skóginn. Þú sérð hvergi neina óvini en þú sérð glitta í helling af gulrótum sem virðast svífa um í lausu lofti hér og þar. Hún heldur áfram. ,,Þú getur bara hlaupið í tvær áttir, aftur á bak eða áfram en stundum geturðu farið niður eða upp.“

,,Hvernig veit ég hvenær ég get farið upp eða niður?“ spyrðu. Hún yppir öxlum.

,,Þegar það er hægt er það hægt,“ svarar hún kæruleysislega. ,,Finndu bara stíginn og hlauptu eftir honum. Það er aðalmálið.“

,,Gott og vel,“ skrækirðu og reynir að ákveða hvað af þessu sé mikilvægast. ,,Hvernig líta þessir óvinir út, svo ég viti nú við hverju ég megi búast?“ Hjálparhella hlær.

,,Ó, knúsípons, þú ert svo mikil dúlla! Ég má ekki kjafta!“ segir hún kát. Þér finnst þetta nákvæmlega ekkert fyndið, sem fær Hjálparhellu bara til að hlæja enn meira. ,,Sjá þig,“ segir hún og tárin byrja að renna niður kinnarnar. ,,Það er svo fyndið þegar einhver er bæði fáránlega krúttlegur og pirraður á sama tíma,“ og hún slær sér á lær.

Þú þegir.

Þetta er ömurlegt.

,,Svona, svona,“ segir hún svo og þurrkar sér í framan, ,,engar áhyggjur. Ég skal segja þér smá.“ Þú leggur við hlustir og eyrun þín sperrast beint upp í loftið. Það er fáránleg tilfinning, ekki ólík því eins og þegar maður réttir úr bakinu þegar maður hefur setið lengi hokinn. Þú heyrir mun betur svona. ,,Passaðu þig á aparössum og namm-namm-blómum,“ hvíslar Hjálparhella leyndardómsfull á svip. Þú starir á hana og eyrun þín leggjast ósjálfrátt aftur af einskærum pirringi.

,,Aparössum?“ spyrðu tómri röddu. Hún kinkar kolli. ,,Og namm-namm-blómum?“ Hvert einasta orð sem þú segir er löðrandi í efasemdum.

,,Já,“ svarar Hjálparhella spennt. ,,Blómin eru víða. Rassarnir mæta bara stundum og þegar þú átt síst á því von. Þeir eru góðir í að fela sig.“ Þú átt ekki til orð. Þetta borð er fáránlegt. Það eru ekki einu sinni almennilegir óvinir hérna. ,,Jæja,“ segir hún svo. ,,Viltu ekki byrja?“ Þú horfir inn í skóginn.

,,Jú…“ samþykkirðu krúttlegum rómi.

,,Glæsilegt,“ syngur hún og hefur varla sleppt orðinu þegar hún hverfur. Um leið ómar æst tónlist úr öllum áttum, næstum eins og einhver hafi tekið hresst Eurovison-lag, dýft því í sykur og hraðað á því um helming.

,,Jæja,“ tautarðu með skrækri röddu og passar að bíta þig ekki í neðri vörina. ,,Kýlum á þetta.“

Og borðið byrjar.

* Gaddakylfa er gamalt vopn, járnkúla sem gaddar stóðu út úr. Það var ekkert grín að lenda í svoleiðis vopni.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...