Unglingarnir Guðrún, Kjartan og Bolli

Hjalti Halldórsson sendir frá sér sína þriðju bók. Áður hefur hann skrifað Af hverju ég? og Draumurinn. Hjalti er grunnskólakennari til margra ára og kennir samfélagsfræði á elsta stigi. Bækur Hjalta eru skrifaðar fyrir krakka á aldrinum 9-14 ára og skrifaðar í fyrstu persónu frásögn. Af hverju ég? er innblásin af Egilssögu Skallagrímssonar og Draumurinn á Grettissögu. Þriðja bók Hjalta kemur út núna fyrir jólin og ber nafnið Ys og þys út af öllu! Ólíkt fyrri bókum þá eru aðalpersónurnar þrjár að þessu sinni; Guðrún, Kjartan og Bolli.

Á hvaða Íslendingasögu er Ys og þys út af öllu! byggð?

„Ég segi yfirleitt að bækurnar séu innblásnar af Íslendingasögunum fremur en að þær séu byggðar á þeim. Nú er það Laxdæla saga sem liggur einhvers staðar að baki Ys og þys út af öllu!“

Hvernig aðlagaðir þú Laxdælu að barnabók?

„Ég hef kennt Laxdælu í hinu starfinu mínu sem kennari. Þá er alltaf til umræðu þessar sterku tilfinningar milli persónanna, Guðrúnar, Kjartans og Bolla. Það eiga flestir auðvelt með að setja sig í þeirra spor og sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni. Mér fannst því spennandi að láta þessar persónur ganga í barndóm og senda þær saman í skólabúðir að Laugum í Sælingsdal. Mér fannst einnig áhugavert að láta þessar þrjár aðalpersónur fá sína eigin rödd og pláss til að segja frá sinni hlið mála. Það lá í rauninni í augum uppi þegar ég byrjaði að vinna bókina. En Ys og þys er þó sín eigin sjálfstæða saga og fer sína eigin leið, alveg óháð Laxdælu.“

Hvaða persóna er í uppáhaldi hjá þér?

„Það er án efa Guðrún. Í Laxdælu er hún auðvitað kyrfilega föst í viðjum feðraveldisins en kemst af með dugnaði, kænsku og af harðfylgi. Hún nær að lifa af og hafa stjórn á sínum örlögum þrátt fyrir að vera í valdlausri stöðu. Hún er auðvitað ekki gallalaus frekar en aðrir en samt ákveðin, sterk, snjöll og bara langmesti töffarinn! Ég reyndi að láta Guðrúnu erfa þessa eigineika í Ys og þys út af öllu!“

Það er mikið um ástir og svik í Laxdælu. Mega lesendur búast við einhverju slíku í Ys og þys út af öllu!?

„Heldur betur! Krakkarnir í sögunni eru búnir að vera vinir síðan alltaf og hafa hvert um sig byggt upp miklar væntingar til skólaferðalagsins í sögunni. Þau eru líka stödd á þessum aldri þegar félagsnetið er að stækka og margt að breytast í lífinu sem getur haft áhrif á vinskapinn. Þegar væntingarnar eru miklar, tilfinningarnar stórar og allt undir þá verða ákvarðanirnar ekki alltaf teknar af skynsemi. Það fer því allt á fullt þegar svik eiga sér stað, svo ég tali nú ekki um hrekkina sem fylgja … já og hefndina … og auðvitað uppgjörið! Já það verður hreinlega ys og þys út af öllu!“

Það er Hjalta mikið hjartans mál að bækur séu áberandi í umhverfi og lífi barna. „Ég vil hvetja alla til að lesa bækur, tala um bækur, gagnrýna bækur, lána bækur, gefa bækur og elska bækur. Allskonar bækur. Sérstaklega vil ég hvetja fullorðna til að lesa fyrir börn og kenna þeim að læra að meta bækur. Þegar við lesum þá leggjum við í ævintýraferð í huganum sem eflir læsi okkar, stækkar hugmyndaheim okkar og skilning. Heimsmynd okkar býr í tungumálinu og tungumálið er í bókunum. Áfram lestur!“

Hér fyrir neðan er brot úr bókinni Ys og þys út af öllu.

 

Bolli

Þriðjudagurinn var svakalegur! Fyrst var ég allur á nálum með að framkvæma áætlunina hennar Guðrúnar en svo tókst hún svona líka fullkomlega. Við gengum á sveitabæinn og ég passaði mig á að etja Kjartan í smá kapp. Hann ætlaði að reyna að tala við Guðrúnu en gat auðvitað ekki staðist að fara í smá keppni. Við vorum langfyrstir að sveitabænum. Þannig gat Guðrún haldið sig aftar og verið ótrufluð við að upphugsa hvernig við næðum símanum úr jakkavasanum hans Kjartans.

Þegar við komum á sveitabæinn virtist hún vera komin með þetta allt á hreint. Þetta var reyndar ótrúlega merkilegur sveitabær. Það var talandi hrafn þarna. Hann gat sagt „halló!“ Og „alltílæ!“ Ég hafði heyrt um talandi páfagauka en aldrei um talandi hrafna. Því miður gafst allt of lítill tími til að dást að hrafninum því Guðrún þurfti að fara yfir planið með mér.

Hún hafði komist að því að Auður væri skíthrædd við fugla. Inni í litlu húsi voru dýr sem við máttum klappa og halda á, meðal annars hænur. Ég átti að taka eina hænu í fangið, passa mig að Kjartan væri nálægt, og hræða Auði með hænunni. Guðrún var alveg viss um að Auður myndi sturlast úr hræðslu sem myndi skapa nógu mikla ringulreið til að hún gæti kippt símanum úr jakkavasa Kjartans. Það var bara alls ekkert víst að þetta myndi klikka!

Þegar við vorum öll komin inn í húsið sagði Erla bóndi okkur frá dýrunum. Þarna voru kanínur, geitur og vissulega hænur. En ekki bara hænur heldur veglegur og bústinn hani líka. Ég fékk strax augastað á honum.

„Sjáðu þennan kóng!“ sagði ég við Kjartan þegar við höfðum eytt smástund inni í húsinu og hópurinn dreift úr sér. „Hversu miklu viltu veðja að ég nái að láta hann fljúga?“

„Hah!? Hanar geta ekki flogið,“ sagði Kjartan hneykslaður.

„Hversu miklu viltu veðja?“ spurði ég aftur stríðnislega.

„Þrjúþúsundkalli,“ svaraði Kjartan, krosslagði hendur og horfði tortrygginn á mig.

„Díll!“ sagði ég og læddist að hananum þar sem hann lá í makindum sínum á gólfinu umkringdur mjúku heyi. Út undan mér sá ég hvar Guðrún læddist aftan að Kjartani. Auður var annars hugar að spjalla við Erlu, fullkomlega staðsett ekki svo langt frá okkur. Ég tók hanann varlega upp.

„Svona kallinn minn,“ hvíslaði ég að honum. Hann virtist hinn rólegasti en ýfði þó aðeins vængina þegar ég hagræddi honum í fanginu. Síðan læddist ég með hann aftan að Auði og gætti mín á því að hafa hann alveg í augnhæð. Ég fór með hann eins nálægt höfðinu á henni og ég þorði áður en ég ávarpaði Auði blíðlega.

„Auður, sjáðu hvað ég er með.“

„Hvað er það vinur?“ spurði hún um leið og hún sneri sér rólega við og leit beint í augun á hananum sem var þá um það bil tvo sentímetra frá andlitinu á henni. Auður fraus. En bara í smástund! Augnabliki síðar varð allt gersamlega brjálað. Auður öskraði af öllum lífs og sálarkröftum, haninn trylltist og baðaði út vængjunum á milljón, öll hin dýrin í húsinu hrukku í kút og spruttu upp. Þau byrjuðu að hlaupa út og suður á meðan hinir krakkarnir hrópuðu upp yfir sig.

Kjartani brá líka. Hann átti ekki alveg von á þessum viðbrögðum sem varð til þess að Guðrún náði að seilast í vasann á jakkanum hans og kippti símanum upp úr án þess að hann tæki eftir.

Hins vegar varð ekkert að því að haninn myndi fljúga. Hann lyppaðist bara niður á gólfið hinn rólegasti þegar Aður hafði flúið öskrandi út þar sem hún sagði okkur að „daaarullast til að skjóta þennan hana!“

Ég stökk á eftir henni, bað hana afsökunar og þóttist hafa gert þetta alveg óvart. Hún eyddi því sem eftir var af heimsókninni í að afsaka sig og tala um að svona hefði nú aldrei getað gerst heima. Planið heppnaðist með öðrum orðum fullkomlega.

Það tók Guðrúnu ekki langan tíma að ákveða hvað hún ætlaði að gera við símann þegar við komum til baka. Hún var alveg ótrúlega klók hún Guðrún. Og hver vissi, kannski gat draumur minn ræst ef ég héldi áfram að sanna mig svona fyrir henni?

Kjartan grunaði í það minnsta ekki neitt!

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...